Latest entries

fimmtudagur, 24. okt 2019

Nýjustu fyrirlestrarnir komnir á vefinn

Haustfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands er rétt rúmlega hálfnuð, fjórir fyrirlestrar af sjö hafa þegar verið haldnir. Fyrirlestrarnir hafa verið vel sóttir og áhugaverðir. Fyrir þau sem misstu af fyrirlestrunum, eða vilja kynna sér efni þeirra betur bendum við á að upptökur af þeim er að finna á Youtube-rás félagsins. Er það vel þess virði að haka við áskrift á þeirri rás til að fá tilkynningar þegar nýjar upptökur birtast þar.

þriðjudagur, 15. okt 2019

Fjórði hádegisfyrirlestur haustsins: Jesús Kristur í ljósi kenninga um menningarlegt minni

Fjórði fyrirlestur haustsins verður haldinn þriðjudaginn 22. október. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Yfirskrift fyrirlestra haustsins er Trú og Samfélag.

Sverrir Jakobsson flytur fyrirlesturinn Jesús Kristur í ljósi kenninga um menningarlegt minni.

Í þessum fyrirlestri verður þróunarsaga hugmynda um Jesúm Krist greind út frá kenningum um menningarlegt minni. Af hverju er myndin af Kristi mismunandi í ólíkum heimildum sem urðu til um hann strax á fyrstu öld? Hvernig þróuðust hugmyndir um hann í framhaldinu og af hverju? Að hvaða leyti getur textafræðin varpað ljósi á þróunarsögu hugmyndarinnar um Krist? Rætt verður hvernig hugmyndir um Krist tóku á sig staðlaða mynd og sum rit um ævi hans hlutu almenna viðurkenningu en öðrum hafnað. Eftir að kristni hlaut opinbera stöðu innan Rómarveldis breyttist eðli trúarinnar og ríkari krafa var gerð um staðlaða trúarjátningu og samræmingu hugmynda um Krist. Hófst þá klofningur kristinna manna í rétttrúaða og villutrúarmenn sem síðan hefur mótað sögu þeirra.

Sverrir er prófessor í miðaldasögu við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Eftir Sverri liggja ýmsar bækur, þar á meðal Kristur – saga hugmyndar, sem kom út á síðasta ári.

Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og aðgangur er ókeypis.

þriðjudagur, 1. okt 2019

Þriðji hádegisfyrirlestur haustsins: „Alt það, sem við ekkert hefir að keppa, dofnar og deyr“

Þriðji fyrirlestur haustsins verður haldinn þriðjudaginn 8. október. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Yfirskrift fyrirlestra haustsins er Trú og Samfélag. Rakel Edda Guðmundsdóttir mun flytja erindið „Alt það, sem við ekkert hefir að keppa, dofnar og deyr“. Blaðaumræður um aðskilnað ríkis og kirkju, guðfræði og trú í kringum aldamótin 1900.

Í erindinu er sjónum beint að orðræðu, stíl og helstu röksemdum sem beitt var í skoðanaskiptum um aðskilnað ríkis og kirkju, skipan kirkjumála almennt og guðfræði í íslenskum blöðum á árunum í kringum aldamótin 1900.

Umræðan var umfangsmikil og ástríðufull, á köflum heiftúðug. Álitaefnin sneru að eðli og framtíð íslensku kirkjunnar og forsendum trúarlífs í landinu.
Deilt var um hagnýt sjónarmið og ídealísk þegar kom að hlutverki guðfræði og kirkju í samfélaginu. Heilindi kirkjunnar voru mörgum hugleikin og töldu sumir að þau yrðu aðeins tryggð í frjálsri kirkju. Á tímabili töldu margir, þar með talinn biskupinn yfir Íslandi, að einungis væri tímaspursmál hvenær til aðskilnaðar ríkis og kirkju kæmi, en þingsályktunartillaga um aðskilnað hlaut samþykki neðri deildar Alþingis 1909.

Aðrir vöruðu við siðferðilegri upplausn ef ríkið missti kirkjuna frá sér, og enn aðrir óttuðust trúarlegt ofstæki ef ríkið tapaði taumhaldinu á kirkjunni.
Sterkt ákall var uppi um frjálslyndari og nútímalegri guðfræði, jafnvel „kreddu“- og játningalausa kirkju. Sumum þóttu slíkar hugmyndir jaðra við guðlast og vega að kjarna trúarbragðanna. Á tímabilinu kom jafnframt upp á yfirborðið eindregin gagnrýni á trú og kirkju, í fáeinum tilvikum, hrein guðsafneitun eða trúleysi. Opinber umræða um slíkar skoðanir var næsta óhugsandi fyrr en með trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar 1874.

Meðal spurninga sem velt er upp í erindinu, eru: Úr hvaða jarðvegi spratt þessi umræða? Hvað varð um hana? Hvað skildi hún eftir sig?

Rakel Edda er með BA-próf í sagnfræði og MA-próf í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Hún stundar nú MA-nám í sagnfræði við Háskóla Íslands og hyggur á útskrift í febrúar. Hún er jafnframt sjálfstætt starfandi tónlistarmaður og starfar hjá Ríkisútvarpinu, Rás 1. Erindið byggir á efni meistararitgerðar hennar sem hún mun ljúka á næstunni.

Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og aðgangur er ókeypis.

þriðjudagur, 17. sep 2019

Annar hádegisfyrirlestur haustsins: „Jarðsett verður í heimagrafreit“

Annar fyrirlestur haustsins verður haldinn þriðjudaginn 24. september. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Hjalti Hugason mun flytja erindið „Jarðsett verður í heimagrafreit“. Um útfararsiði og samfélagsbreytingar.

Hjalti fjallar um breytingar á útfararsiðum landsmanna nú á dögum og á fyrri hluta 20. aldar og þá einkum greftranir í heima-/heimilis-grafreitum. Útfararsiðir eru að hans mati áhugaverðir þar sem þar fléttast saman ýmis trúarleg og samfélagleg sjónarmið.

Hjalti Hugason lauk doktorsprófi í kirkjusögu frá Uppsala-háskóla og hefur síðan starfað við Kennaraháskóla Íslands og síðar Háskóla Íslands. Hann er nú prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideil. Í rannsóknum sínum hefur Hjalti einkum lagt stund á íslenska kirkjusögu og trúarbragðarétt. Upp á síðkastið hefur hann aðallega birt greinar um siðaskiptin og nútímakirkjusögu.

Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og aðgangur er ókeypis.

miðvikudagur, 11. sep 2019

Verndun menningarminja í þéttbýli

Sex fræðimenn fjalla um reynslu af fornleifarannsóknum í þéttbýli á málþingi sem Íslandsdeild ICOMOS efnir til. Umfjöllunarefnið er verndun menningarminja í þéttbýli. Málþingið er haldið í Norræna húsinu miðvikudaginn 18. september og hefst klukkan eitt.

„Fornleifarannsóknir í þéttbýli eru í flestum tilvikum vegna framkvæmda. Framkvæmdarannsóknir vekja gjarnan mikla athygli og í tengslum við þær vakna ýmis álitamál er snerta lagaumhverfi og framkvæmd slíkra rannsókna,“ segir í tilkynningu frá Íslandsdeild ICOMOS. „Á málþinginu verða kynntir sáttmálar og samþykktir ICOMOS sem snerta verndun minja í þéttbýli. Í sex erindum verður fjallað um ýmsa þætti sem fengist hefur reynsla af í framkvæmdarannsóknum, sem hafa aðallega verið í Reykjavík. Þar hafa á undanförnum árum farið fram umfangsmiklar framkvæmdarannsóknir sem  varpa nýju ljósi á upphaf og þróun byggðar í Reykjavík.“

Dagskrá málþingsins

miðvikudagur, 4. sep 2019

Fyrsti hádegisfundur haustsins: Þið munið hann Þorlák

Fyrsti fyrirlestur haustsins verður haldinn miðvikudaginn 11. september. Takið eftir að það er óvenjulegur fundardagur og ræðst af utanaðkomandi þáttum. Þetta verður hins vegar í eina skiptið sem brugðið er út af venjulegum fundartíma í haust. Hinir fyrirlestrarnir verða allir á þriðjudegi eins og hefð er fyrir. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Helgi Þorláksson ríður á vaðið og flytur erindið: Þið munið hann Þorlák. Skálholt á kaþólskri tíð og lútherskri.

Efnið er trú á Þorlák helga Þórhallsson á kaþólskri tíð, í tengslum við Skálholt. Í hverju var hún fólgin, hvernig birtist hún?  Þjóðin hefur verið heldur áhugalítil um efnið í seinni tíð þótt Þorlákur hafi fyrrum skipt landsmenn höfuðmáli, öldum saman. Helga langar að fjalla um af hverju þetta muni vera. Ekki er síst eftirtakanlegt að Þorláki eru gerð heldur lítil skil í Skálholti samtímans.

Helgi Þorláksson er fyrrverandi prófessor í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Viðfangsefni hans hafa einkum verið á sviði Íslandssögu fyrir 1700.

Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og aðgangur er ókeypis.

þriðjudagur, 20. ágú 2019

Fyrirlestrar um trú og samfélag

Haustið er handan við hornið og það þýðir fyrst og fremst eitt: ný fyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands hefst innan skamms. Umfjöllunarefnið að hausti er trú og samfélag í víðum skilningi. Mikil viðbrögð voru við kalli eftir erindum. Tillögurnar sem bárust voru margar og erfitt að gera upp á milli þeirra. Á endanum urðu sjö erindi fyrir valinu.

Fyrsti fyrirlesturinn verður miðvikudaginn 11. september. Það er óvenjulegur fundardagur og ræðst af utanaðkomandi þáttum. Þetta verður hins vegar í eina skiptið sem brugðið er út af venjulegum fundartíma í haust. Hinir fyrirlestrarnir verða allir á þriðjudegi eins og hefð er fyrir.

Helgi Þorláksson ríður á vaðið á óvenjulegum fundartíma, miðvikudaginn 11. september. Helgi flytur erindið: Þið munið hann Þorlák. Skálholt á kaþólskri tíð og lútherskri. Þar fjallar hann um trú á Þorlák helga Þórhallsson á kaþólskri tíð og hvernig hann skipti landsmenn höfuðmáli öldum saman.

Hjalti Hugason fjallar um breytingar á útfararsiðum landsmanna á fyrri hluta 20. aldar, í fyrirlestri 24. september. Hann fjallar einkum um greftranir í heima- og heimilisgrafreitum.

Rakel Edda Guðmundsdóttir fjallar um umræður og átök um guðfræði og trú, þjóðkirkju og fríkirkju á síðum íslenskra dagblaða í kringum aldamótin 1900. Rakel Edda vinnur að meistararitgerð um efnið og líkur námi í haust. Fyrirlestur hennar verður 8. október.

Sverrir Jakobsson fjallar 22. október um Jesúm Krist í ljósi kenninga um menningarlegt minni. Hann spyr hvers vegna myndin af Kristi var mismunandi í ólíkum heimildum um hann strax á fyrstu öld og hvernig þær þróuðust í framhaldinu.

Þann 5. nóvember fjallar Þorsteinn Helgason um Tyrkjaránið og spyr hvort það hafi verið trúarlegur viðburður. Hvernig brást sjálfsvitund kristinna við því að færast skyndilega inn í lífheim íslams?

Bryndís Björgvinsdóttir fjallar um álfasteina og aðra bannhelga bletti í náttúru landsins og átrúnað þeim tengdum 19. nóvember. Hún tengir hjátrú á álfa og bannhelgi við náttúruvernd út frá náttúruhverfum viðhorfum manns til náttúru.

Kirkjuvaldsstefnan og trúarleg orðræða á þjóðveldisöld er inntakið í fyrirlestri Haraldar Hreinssonar 3. desember. Hann fjallar um upphaf kirkjustefnunnar og hvort best sé að greina hana með aðferðum persónu- og stofnanasögu eða aðferðum menningarsögu.

þriðjudagur, 13. ágú 2019

Undir högg að sækja í jafnréttisparadís

„Það er áhugavert að á Íslandi, sem er oft kallað einhvers konar jafnréttisparadís, áttu konur lengst af undir högg að sækja í stjórnmálum. Sú saga hefur ekki verið rannsökuð til hlítar. Það er eitt af því sem við ætlum að varpa ljósi á,“ segir Erla Hulda Halldórsdóttir, lektor í kvenna- og kynjasögu.

Erla Hulda vinnur að viðamikilli félags- og menningarsögulegri rannsókn ásamt Ragnheiði Kristjánsdóttur, dósent í sagnfræði, og Þorgerði Þorvaldsdóttur, sérfræðingi hjá Sagnfræðistofnun á konum sem pólitískum gerendum á 20. og 21. öld. Þær rannsaka hvernig konur nýttu sér borgaraleg réttindi sem þær fengu snemma á 20. öld.

„Markmið rannsóknarinnar er að skoða á hvern hátt íslenskar konur nýttu þau borgaralegu réttindi sem þær fengu á fyrstu áratugum 20. aldar, þ.e. kosningarétt og kjörgengi og rétt til menntunar og embætta, til þess að verða fullgildir borgarar í samfélaginu og taka með virkum hætti þátt í að móta íslenskt nútímasamfélag,“ segir Ragnheiður.

Fjallað er um rannsóknina á vef Háskóla Íslands.

mánudagur, 24. jún 2019

Bréf Vesturfara heim til Íslands

Þriðjudaginn 25. júní næstkomandi verður haldið málþing í Háskóla Íslands um bréfaskipti milli Íslendinga í Vesturheimi og gamla heimalandinu. Málþingið fer fram í fyrirlestrarsal Veraldar - húss Vigdísar og stendur frá kl. 13 til 16. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis!

Íslendingar líkt og fleiri Evrópubúar tóku að flykkjast vestur um haf í leit að betra lífsviðurværi víða um hina stóru álfu á ofanverðri nítjándu öld. Bréfaskipti geta og hafa varpað áhugaverðu ljósi á lífið í nýju heimkynnunum og hér verður enn bætt í. Fimm framsögumenn fjalla um og greina upplifun og lífsreynslu, búskaparhætti, ástarmál, sjálfsmyndir, vonbrigði og ávinning Íslendinga í nýjum heimkynnum frá Winnipeg og Nýja Skotlandi í norðri allt suður til Brasilíu. Dregin verður upp forvitnileg mynd af lífi og örlögum fólks í nýjum átthögum sem voru afar frábrugðnir heimahögunum á Íslandi.

Sjá nánar

föstudagur, 31. maí 2019

Kall eftir erindum á haustmisseri

Sagnfræðingafélagið kallar eftir erindum fyrir hádegisfyrirlestraröð félagsins á haustmisseri 2019. Fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands. Þemað að þessu sinni er „Trú og samfélag“.

Áherslan er á trú í sögulegu samhengi, kirkjusögu, þjóðtrú og átrúnað af ýmsu tagi.

Tillögur skulu sendar félaginu á netfangið sagnfraedingafelagid@gmail.com

Skilafrestur er til og með 20. júní.


Random image

RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.