Latest entries

mánudagur, 28. jan 2019

Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis

Nýverið voru kynntar tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna. Verðlaunin hafa verið veitt árlega í yfir þrjá áratugi fyrir framúrskarandi fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Tíu bækur eru tilnefndar ár hvert og hlýtur ein þeirra Viðurkenningu Hagþenkis við hátíðlega athöfn í mars. Sagnfræðingar eru hlutskarpir að þessu sinni en tilnefndir eru:

Árni Daníel Júlíusson, fyrir bókina Af hverju strái. Saga af byggð, grasi og bændum 1300–1700. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan gefur út. Umsögn viðurkenningarráðs: „Vönduð sagnfræðirannsókn og frumleg framsetning býður lesandanum í spennandi tímaferðalag aftur til lítt þekktra alda Íslandssögunnar.“

Axel Kristinsson, fyrir bókina Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands. Sögufélag gefur út. Umsögn viðurkenningarráðs: „Ögrandi söguskoðun og eftirtektarverður frásagnarstíll höfundar mynda öfluga heild.“

Bára Baldursdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, fyrir bókina Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi. Hið íslenska bókmenntafélag gefur út. Umsögn viðurkenningarráðs: „Faglega fléttað verk byggt á hárfínni heimildavinnu um sögu starfsgreinar þar sem sjónum er ekki síst beint að ólíkri kynjamenningu.“

Kristín Svava Tómasdóttir, fyrir bókina Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar. Sögufélag gefur út. Umsögn viðurkenningarráðs: „Brautryðjandaverk um sögu kláms og kynverundar á Íslandi sem byggir á afhjúpandi rannsóknum á vandmeðförnu efni.“

Sverrir Jakobsson, fyrir bókina Kristur. Saga hugmyndar. Hið íslenska bókmenntafélag gefur út. Umsögn viðurkenningarráðs: „Fróðleg og sannfærandi framsetning á því hvernig hugmyndir manna um Krist þróuðust og breyttust gegnum aldirnar í meðförum þeirra sem á hann trúðu.“

mánudagur, 21. jan 2019

Hádegisfyrirlestur 29. janúar: Voveiflegur dauðdagi Kristínar Sigurðardóttur vinnukonu árið 1756

Þriðjudaginn 29. janúar flytur Þórunn Guðmundsdóttir hádegisfyrirlesturinn „Voveiflegur dauðdagi Kristínar Sigurðardóttur vinnukonu árið 1756“ í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur hádegisfyrirlesturinn í samvinnu við Þjóðminjasafnið en hann er hluti af fyrirlestraröð félagsins, sem þetta misserið hefur yfirskriftina „Saga réttarfars og refsinga“.

Sagnfræðingar og aðrir sem vilja skoða lífsferil einstaklinga á 18. öld út frá því sem skráð er í opinberar samtímaheimildir verða fljótt varir við heimildaskort, sérstaklega hvað varðar fólk sem fæddist um og fyrir miðja 18. öld. Ekkert heildstætt manntal var tekið milli 1703 og 1801 og mikið vantar inn í safn kirkjubóka, þ.e. prestsþjónustubóka og sóknarmannatala, á fyrri hluta 18. aldar og fram til ársins 1784. Óvíst er hvort þær kirkjubækur sem vantar hafi verið skráðar en í skráningum presta í kirkjubækur er að finna samtímaupplýsingar um lífshlaup einstaklinga. Aðrar heimildir þar sem hægt er að nálgast samtímaheimildir um lífshlaup fólks eru dómabækur. Þar er að finna nöfn þeirra sem komust í kast við lögin á þessum tíma, voru aðilar máls eða voru kallaðir fyrir sem vitni, og ýmsar upplýsingar aðrar.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um mál sem er að finna í dómabók Dalasýslu og var höfðað þegar lík Kristínar Sigurðardóttur fannst við Sámsstaðaá sumarið 1756. Þetta sumar hvarf Kristín, ógift og vanfær vinnukona, frá heimili sínu í Laxárdal í Dalasýslu. Næsta dag var farið að svipast um eftir henni og fannst hún látin við Sámsstaðaá. Áverkar voru á líkinu og ásigkomulag þess svo undarlegt að ástæða þótti til að rannsaka andlátið frekar. Magnús Ketilsson, sýslumaður Dalamanna, kallaði líkskoðunarmenn á sinn fund og fékk þau svör frá þeim að andlátið hefði ekki borið að með eðlilegum hætti. Magnús hóf þá rannsókn sem stóð með hléum í nokkra mánuði. Konur og karlar sem þekktu þá látnu, aðstæður hennar og lífsferil, voru kölluð til yfirheyrslu og þau sem ekki áttu heimangengt sendu skriflegar upplýsingar. Rannsóknin snerist um að finna þann sem hafði verið valdur að dauða Kristínar en inn í rannsóknina fléttaðist líka leitin að föður þess barns sem Kristín gekk með þegar hún lést. Tæpu ári síðar, vorið 1757, féll svo dómur í málinu.

Þórunn Guðmundsdóttir lauk MA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2003. Hún starfaði við 18. aldar fjölskyldurannsóknir við Íslendingabók hjá Íslenskri erfðagreiningu frá 1999 til 2006 og hjá mannfjöldadeild Hagstofu Íslands frá 2006 til 2009. Frá 2009 hefur Þórunn starfað á Þjóðskjalasafni Íslands.

fimmtudagur, 10. jan 2019

Hlaðvarp/myndband: Vilborg Auður Ísleifsdóttir: Manngerðar hörmungar á 16. öld. Dýrt er drottins orðið

Hlaðvarp/myndband: Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir: Mesti óvinur mannkyns, hórsótt eða eyðni? Orðræður um HIV á Íslandi

miðvikudagur, 9. jan 2019

Hádegisfyrirlestur 15. janúar: Scalia, Ginsburg og Keflavíkurstöðin. Rainbow Navigation-málið fyrir bandarískum dómstólum 1985-1991

Þriðjudaginn 15. janúar flytur Arnór Gunnar Gunnarsson hádegisfyrirlesturinn „Scalia, Ginsburg og Keflavíkurstöðin. Rainbow Navigation-málið fyrir bandarískum dómstólum 1985-1991“. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fyrsta erindi vormisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema þessa vors er réttarfar og refsingar.

Um miðjan 9. áratuginn steig fram bandarískt fyrirtæki, Rainbow Navigation, sem tók óvænt að sér vöruflutninga fyrir Bandaríkjaher á Íslandi. Íslenskum skipafyrirtækjum var ekki skemmt enda höfðu þau séð um flutningana fram að þessu. Að kröfu íslenskra stjórnvalda reyndi ríkisstjórn Ronalds Reagan að koma flutningunum aftur til íslenskra fyrirtækja en það reyndist þrautin þyngri þar sem bandarísk fyrirtæki höfðu forgang lögum samkvæmt.

Í kjölfarið urðu tvö dómsmál vestra sem höfðu mikil áhrif deiluna. Í fyrra dómsmálinu (1985-1986) voru tilraunir Bandaríkjastjórnar til að beita undanþáguákvæði dæmdar ólöglegar og Rainbow Navigation hélt flutningunum um sinn. Löndin leiddu málið til lykta með milliríkjasamningi seinna á árinu 1986 en fljótlega var framkvæmd samningsins kærð og úr varð seinna meiri háttar dómsmálið vegna vöruflutninganna (1988-1991). Í þetta skiptið varð niðurstaðan íslensku fyrirtækjunum hagstæð. Dómarar í málunum (sem voru m.a. Antonin Scalia, Ken Starr og Ruth Bader Ginsburg) áttu þannig eftir að hafa umtalsverð áhrif á málefni Íslands og Bandaríkjanna á síðari hluta 9. áratugarins.

Í erindinu verður einblínt á dómsmálin en einnig reynt að setja Rainbow Navigation-málið í samhengi við stöðu Íslands í kalda stríðinu á 9. áratugnum, auk þess sem áhrif fyrirtækjanna á utanríkismál verða könnuð. Líkt og dómarar tóku skýrt fram var um umtalsverða utanríkislega hagsmuni að ræða fyrir Bandaríkjamenn — en þrátt fyrir það var ekki hægt að hunsa hagsmuni innlenda fyrirtækisins Rainbow Navigation með auðveldum hætti.

Arnór Gunnar Gunnarsson skrifaði BA-ritgerð í sagnfræði um Rainbow Navigation-málið sem hann skilaði í janúar 2018. Hann leggur nú stund á meistaranám í Evrópusögu við Columbia-háskóla í New York.

laugardagur, 29. des 2018

Brautskráðir BA- og MA-nemar í sagnfræði 2018

Á árinu 2018 brautskráðust fjórir með MA-próf og níu með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Ritgerðirnar eru aðgengilegar í Skemmunni, safni námsritgerða og rannsóknarrita. Sagnfræðingafélagið óskar hinum nýútskrifuðu innilega til hamingju með áfangann og hvetur áhugasama til að skrá sig í félagið.

©Kristinn Ingvarsson

Hér á eftir fylgir stutt yfirlit yfir viðfangsefni meistaranemanna fjögurra. Read more »

fimmtudagur, 13. des 2018

Sagnfræðingar tilnefndir til verðlauna

Þau Sverrir Jakobsson og Þórunn Jarla Valdimarsdóttir eru tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns efnis. Sverrir er tilnefndur fyrir bókina Kristur. Saga hugmyndar, sem kemur út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi, en hún fjallar um upphaf rótgróinna hugmynda um Krist, hvernig þær mótuðust og af hverju þær eru svo ólíkar. Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður hitti Sverri fyrir í haust.

Þórunn Jarla er tilnefnd fyrir bókina Skúli fógeti – faðir Reykjavíkur, sem gefin er út af JPV útgáfu, en þar fjallar hún um hinar mörgu hliðar Skúla Magnússonar og lýsir um leið samferðafólki hans og samtíð á 18. öld. Þess má geta að á vef Landsbókasafnsins má nálgast rafrænan viðauka bókarinnar, heimildaskrá og heimildabanka.  Viðtal við Þórunni birtist í bókmenntaþættinum Kiljunni.  Hér má sjá höfundinn afhenda Vigdísi Finnbogadóttur eintak af bókinni um Skúla í Fógetagarðinum í Aðalstræti:

Sagnfræðingarnir Bára Baldursdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir hlutu tilnefningu til Fjöruverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis fyrir bókina Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi, en hún er hluti af Safni til Iðnsögu Íslendinga. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: „Bókin er merkt framlag til iðnsögu Íslands en jafnframt einstakt tillegg til rannsókna á sviði kvenna- og kynjasögu á Íslandi. ... Höfundarnir rýna í sagnahefð lokkanna og miðla hársögu Íslands í liprum texta og mögnuðum myndum bókar, sem er í senn fagur óður til hárklippara og rakara Íslands.“ Bókin er gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi.

Loks hafnaði bók Kristínar Svövu Tómasdóttur, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar í öðru sæti í flokki fræði- og handbóka í verðlaunavali bóksala sem kynnt var í bókmenntaþættinum Kiljunni.

þriðjudagur, 20. nóv 2018

Hádegisfyrirlestur 27. nóvember: Manngerðar hörmungar á 16. öld. Dýrt er drottins orðið.

Þriðjudaginn 27. nóvember flytur Vilborg Auður Ísleifsdóttir hádegisfyrirlesturinn „Manngerðar hörmungar á 16. öld. Dýrt er drottins orðið.“ Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er síðasta erindi þessa misserisins í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema þessa hausts er hörmungar.

Sköpun nútímaríkisins og barátta Lúhters fyrir endurnýjun kaþólsku kirkjunnar voru pólitískar stefnur sem komu upp á svipuðum tíma. Þær höfðu í kjölfarið áhrif hvor á aðra og nýttust hvor annarri með ýmsum hætti. Í Danmörku stefndi Kristján III að því að koma á nútímaríki í löndum sínum en máttaviðir þess voru miðstýrð stjórnsýsla með stöðluðu dómsvaldi, fastaher og lúthersk kirkja. Stofnkostnaður nútímaríkisins var mikill og hafði í för með sér gífurlega eignaupptöku og eignatilfærslu í öllum löndum hins danska ríkis.

Kirkjuordinanzían frá 1537 bylti hinni kaþólsku miðaldakirkju á Íslandi og ýmsum stofnunum hennar. Fyrirlesturinn mun fjalla um birtingarmyndir þessarar eignatilfærslu hérlendis og áhrif hennar á innviði íslensks samfélags, sem rekja má allt fram á 20. öld, einkum hvað varðar stöðu fátækra.

Vilborg Auður Ísleifsdóttir lauk BA prófi frá Háskóla Íslands í þýsku, latínu og sögu. Hún lauk MA prófi og doktorsprófi frá Johannes Gutenberg hákólanum í Mainz. Doktorsritgerð hennar fjallar um atburði 16. aldar á Íslandi og hefur komið út á þýsku og íslensku. Hún hefur starfað sem kennari, sjálfstætt starfandi fræðimaður og þýðandi.

fimmtudagur, 15. nóv 2018

Hlaðvarp/myndband: Atli Antonsson: Menningarsaga eldgosa á Íslandi frá Skaftáreldum til nútímans

þriðjudagur, 6. nóv 2018

Hádegisfyrirlestur 13. nóvember: Mesti óvinur mannkyns, hórsótt eða eyðni? Orðræður um HIV á Íslandi

Þriðjudaginn 13. nóvember flytja Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir hádegisfyrirlesturinn „Mesti óvinur mannkyns, hórsótt eða eyðni? Orðræður um HIV á Íslandi“. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fimmta erindi þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema þessa hausts er hörmungar.

HIV-veirusýking er einn skæðasti sjúkdómsfaraldur síðari tíma. Lokastig hennar, sem almennt gengur nú undir nafninu alnæmi, gerði fyrst vart við sig í Bandaríkjunum á áttunda áratugnum og var þá talið áður óþekkt tegund sjálfsofnæmis. Á skömmum tíma breiddist þessi óþekkta ógn út og á árunum 1981–1982 , þegar HIV-veiran var fyrst kynnt formlega til sögunnar, var hún þegar orðin að heimsfaraldri. Í fyrstu virtist sjúkdómurinn helst herja á homma og aðra jaðarhópa og því var ímynd hans í blöðum og almennri umræðu sniðin eftir fordómafullum erkitýpum. Slíkt ýtti undir jaðarsetningu og fordóma gagnvart þeim hópum sem urðu hvað verst úti. Á Íslandi fór sjúkdómurinn að gera vart við sig nokkrum árum seinna.

Í fyrirlestrinum verða ólíkar orðræður um HIV og alnæmi á Íslandi greindar. Skoðað verður meðal annars hvernig orðræða um kynvillu eða samkynhneigð sem smitandi, erlenda úrkynjun birtist í umræðum um sjúkdóminn, hvernig félagasamtök á borð við Samtökin ´78 brugðust við slíkri umræðu og hvernig hún mótaði baráttu samkynhneigðra og hinsegin fólks fyrir lagalegu og félagslegu jafnrétti.

Ásta Kristín Benediktsdóttir er íslenskufræðingur og leggur nú lokahönd á doktorsritgerð í íslenskum bókmenntum um hinsegin kynverund í skáldverkum eftir Elías Mar. Hafdís Erla Hafsteinsdóttir útskrifaðist með meistaragráðu í kvenna- og kynjasögu frá Háskólanum í Vínarborg 2016. Saman ritstýrðu þær ásamt Írisi Ellenberger ritrýnda greinasafninu Svo veist þú að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Nýjasta verkefni þeirra þriggja er heimildasöfnunarverkefnið Hinsegin huldukonur. Hinsegin kynverund kvenna í íslenskum heimildum 1700–1960 sem styrkt er af Jafnréttissjóði.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Markús Þ. Þórhallsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið mth39@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins vor 2019

15. janúar
Arnór Gunnar Gunnarsson, Scalia, Ginsburg og Keflavíkurstöðin. Rainbow Navigation-málið fyrir bandarískum dómstólum 1985-1991

29. janúar
Þórunn Guðmundsdóttir, Voveiflegur dauðdagi Kristínar Sigurðardóttur vinnukonu árið 1756

12. febrúar
Tryggvi Rúnar Brynjarsson, Einfaldur þolandi flókins og forns dómskerfis? Arfleifð skammar og útþynning ábyrgðar við úrlausn Guðmundar- og Geirfinnsmála í samtímanum

26. febrúar
Ólína Þorvarðardóttir, Galdra- og brennudómar. Réttarfar Íslendinga á 17. öld

12. mars
Hjörleifur Stefánsson, Byggingarsaga Hegningarhússins við Skólavörðustíg í ljósi betrunarheimspeki 19. aldar

26. mars
Vilhelm Vilhelmsson, „Með kærleiksmeiningar vinmælum“. Sáttanefndir og lausn deilumála á 19. öld

9. apríl
Helga Kress, Kona tekin af lífi. Lesið í dómsskjöl Natansmála og dóminn yfir Agnesi í bókmenntum, samfélagi og sögu

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com