Latest entries

fimmtudagur, 13. des 2018

Sagnfræðingar tilnefndir til verðlauna

Þau Sverrir Jakobsson og Þórunn Jarla Valdimarsdóttir eru tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns efnis. Sverrir er tilnefndur fyrir bókina Kristur. Saga hugmyndar, sem kemur út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi, en hún fjallar um upphaf rótgróinna hugmynda um Krist, hvernig þær mótuðust og af hverju þær eru svo ólíkar. Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður hitti Sverri fyrir í haust.

Þórunn Jarla er tilnefnd fyrir bókina Skúli fógeti – faðir Reykjavíkur, sem gefin er út af JPV útgáfu, en þar fjallar hún um hinar mörgu hliðar Skúla Magnússonar og lýsir um leið samferðafólki hans og samtíð á 18. öld. Þess má geta að á vef Landsbókasafnsins má nálgast rafrænan viðauka bókarinnar, heimildaskrá og heimildabanka.  Viðtal við Þórunni birtist í bókmenntaþættinum Kiljunni.  Hér má sjá höfundinn afhenda Vigdísi Finnbogadóttur eintak af bókinni um Skúla í Fógetagarðinum í Aðalstræti:

Sagnfræðingarnir Bára Baldursdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir hlutu tilnefningu til Fjöruverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis fyrir bókina Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi, en hún er hluti af Safni til Iðnsögu Íslendinga. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: „Bókin er merkt framlag til iðnsögu Íslands en jafnframt einstakt tillegg til rannsókna á sviði kvenna- og kynjasögu á Íslandi. ... Höfundarnir rýna í sagnahefð lokkanna og miðla hársögu Íslands í liprum texta og mögnuðum myndum bókar, sem er í senn fagur óður til hárklippara og rakara Íslands.“ Bókin er gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi.

Loks hafnaði bók Kristínar Svövu Tómasdóttur, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar í öðru sæti í flokki fræði- og handbóka í verðlaunavali bóksala sem kynnt var í bókmenntaþættinum Kiljunni.

þriðjudagur, 20. nóv 2018

Hádegisfyrirlestur 27. nóvember: Manngerðar hörmungar á 16. öld. Dýrt er drottins orðið.

Þriðjudaginn 27. nóvember flytur Vilborg Auður Ísleifsdóttir hádegisfyrirlesturinn „Manngerðar hörmungar á 16. öld. Dýrt er drottins orðið.“ Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er síðasta erindi þessa misserisins í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema þessa hausts er hörmungar.

Sköpun nútímaríkisins og barátta Lúhters fyrir endurnýjun kaþólsku kirkjunnar voru pólitískar stefnur sem komu upp á svipuðum tíma. Þær höfðu í kjölfarið áhrif hvor á aðra og nýttust hvor annarri með ýmsum hætti. Í Danmörku stefndi Kristján III að því að koma á nútímaríki í löndum sínum en máttaviðir þess voru miðstýrð stjórnsýsla með stöðluðu dómsvaldi, fastaher og lúthersk kirkja. Stofnkostnaður nútímaríkisins var mikill og hafði í för með sér gífurlega eignaupptöku og eignatilfærslu í öllum löndum hins danska ríkis.

Kirkjuordinanzían frá 1537 bylti hinni kaþólsku miðaldakirkju á Íslandi og ýmsum stofnunum hennar. Fyrirlesturinn mun fjalla um birtingarmyndir þessarar eignatilfærslu hérlendis og áhrif hennar á innviði íslensks samfélags, sem rekja má allt fram á 20. öld, einkum hvað varðar stöðu fátækra.

Vilborg Auður Ísleifsdóttir lauk BA prófi frá Háskóla Íslands í þýsku, latínu og sögu. Hún lauk MA prófi og doktorsprófi frá Johannes Gutenberg hákólanum í Mainz. Doktorsritgerð hennar fjallar um atburði 16. aldar á Íslandi og hefur komið út á þýsku og íslensku. Hún hefur starfað sem kennari, sjálfstætt starfandi fræðimaður og þýðandi.

fimmtudagur, 15. nóv 2018

Hlaðvarp/myndband: Atli Antonsson: Menningarsaga eldgosa á Íslandi frá Skaftáreldum til nútímans

þriðjudagur, 6. nóv 2018

Hádegisfyrirlestur 13. nóvember: Mesti óvinur mannkyns, hórsótt eða eyðni? Orðræður um HIV á Íslandi

Þriðjudaginn 13. nóvember flytja Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir hádegisfyrirlesturinn „Mesti óvinur mannkyns, hórsótt eða eyðni? Orðræður um HIV á Íslandi“. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fimmta erindi þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema þessa hausts er hörmungar.

HIV-veirusýking er einn skæðasti sjúkdómsfaraldur síðari tíma. Lokastig hennar, sem almennt gengur nú undir nafninu alnæmi, gerði fyrst vart við sig í Bandaríkjunum á áttunda áratugnum og var þá talið áður óþekkt tegund sjálfsofnæmis. Á skömmum tíma breiddist þessi óþekkta ógn út og á árunum 1981–1982 , þegar HIV-veiran var fyrst kynnt formlega til sögunnar, var hún þegar orðin að heimsfaraldri. Í fyrstu virtist sjúkdómurinn helst herja á homma og aðra jaðarhópa og því var ímynd hans í blöðum og almennri umræðu sniðin eftir fordómafullum erkitýpum. Slíkt ýtti undir jaðarsetningu og fordóma gagnvart þeim hópum sem urðu hvað verst úti. Á Íslandi fór sjúkdómurinn að gera vart við sig nokkrum árum seinna.

Í fyrirlestrinum verða ólíkar orðræður um HIV og alnæmi á Íslandi greindar. Skoðað verður meðal annars hvernig orðræða um kynvillu eða samkynhneigð sem smitandi, erlenda úrkynjun birtist í umræðum um sjúkdóminn, hvernig félagasamtök á borð við Samtökin ´78 brugðust við slíkri umræðu og hvernig hún mótaði baráttu samkynhneigðra og hinsegin fólks fyrir lagalegu og félagslegu jafnrétti.

Ásta Kristín Benediktsdóttir er íslenskufræðingur og leggur nú lokahönd á doktorsritgerð í íslenskum bókmenntum um hinsegin kynverund í skáldverkum eftir Elías Mar. Hafdís Erla Hafsteinsdóttir útskrifaðist með meistaragráðu í kvenna- og kynjasögu frá Háskólanum í Vínarborg 2016. Saman ritstýrðu þær ásamt Írisi Ellenberger ritrýnda greinasafninu Svo veist þú að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Nýjasta verkefni þeirra þriggja er heimildasöfnunarverkefnið Hinsegin huldukonur. Hinsegin kynverund kvenna í íslenskum heimildum 1700–1960 sem styrkt er af Jafnréttissjóði.

mánudagur, 29. okt 2018

Kallað eftir tillögum að erindum um sögu réttarfars og refsinga

Sagnfræðingafélag Íslands kallar eftir tillögum að erindum fyrir hádegisfyrirlestraröð félagsins í Þjóðminjasafninu á vormisseri 2019.

Í haust féll merkilegur dómur í Hæstarétti Íslands þegar fimm sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu svokallaða voru sýknaðir eftir endurupptöku málsins. Guðmundar- og Geirfinnsmálið er líklega þekktasta dómsmál íslenskrar réttarsögu á 20. öld og hefur ítrekað orðið uppspretta umræðna í íslensku samfélagi um sekt, sakleysi og sannleiksgildi játninga, rannsóknir, fangelsanir og framgang réttvísinnar. Af þessu tilefni verða hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins á vormisseri 2019 helgaðir hinni margslungnu sögu réttarfars og refsinga.

Tekið er við tillögum til 1. desember næstkomandi á netfanginu sagnfraedingafelagid@gmail.com og eru allir áhugasamir fræðimenn hvattir til að senda inn tillögu.

Hlaðvarp/myndband: Erla Dóris Halldórsdóttir og Magnús Gottfreðsson: Áhrif spænsku veikinnar á barnshafandi konur á Íslandi árið 1918

Hlaðvarp/myndband: Valur Gunnarsson: Á milli Hitlers og Stalín: Mestu hörmungartímar Norðurlanda á 20. öld

miðvikudagur, 24. okt 2018

Hádegisfyrirlestur 30. október: Menningarsaga eldgosa

Þriðjudaginn 30. október flytur Atli Antonsson hádegsfyrirlesturinn „Menningarsaga eldgosa“. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fjórða erindi þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema þessa hausts er hörmungar.

Allar götur síðan goðar á Alþingi árið 1000 vísuðu til hraunrennslis á Hellisheiði því til stuðnings að goðin hafi reiðst vegna kristnitökunnar hafa Íslendingar túlkað eldgos ekki einungis sem inngrip æðri máttar í samfélagið, heldur einnig sem tákn fyrir örlagaatburði í sögu þjóðarinnar og prófstein á siðferðisþrek hennar og dugnað. Eldgos hafa oft reynst afdrifarík og því er ekki skrýtið að þetta samhengi hafi orðið til í íslenskum bókmenntum og eldgos jafnvel verið túlkuð sem goðsögulegur orsakavaldur að mikilsverðum þáttaskilum. Í þessum fyrirlestri verður reynt að svara því hvernig nábýli Íslendinga við eldfjöll hafi mótað heimsmynd þeirra og hvers konar goðsagnir Íslendingar hafi skapað um sjálfa sig, þjóðerni sitt og sögu sína í aldalangri búsetu á eldfjallaeyjunni. Stiklað verður á nokkrum stórum eldgosum yfir Íslandssöguna með sérstakri áherslu á hvernig menn hafa túlkað merkingu þessara hamfara í bókmenntunum.

Atli Antonsson er doktorsnemi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur lokið MA-prófi í evrópskum bókmenntum frá Humboldt háskóla í Berlín og BA-prófi í almennri bókmenntafræði með heimspeki sem aukagrein frá Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn byggir á doktorsverkefni hans sem nefnist Menningarsaga íslenskra eldgosa.

mánudagur, 8. okt 2018

Hádegisfyrirlestur 16. október: Áhrif spænsku veikinnar á barnshafandi konur á Íslandi árið 1918

Þriðjudaginn 16. október flytja Erla Dóris Halldórsdóttir og Magnús Gottfreðsson hádegisfyrirlesturinn „Áhrif spænsku veikinnar á barnshafandi konur á Íslandi árið 1918“. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er þriðja erindi þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema haustsins er að þessu sinni hörmungar.

„Fyrri hluta ársins var heilsufar í betra meðallagi hér í bænum, inflúensufarsótt sú, sem hingað barst í lok októbermánaðar, gjörbreytti þessu og verður að telja ár þetta hörmulegasta og sorglegasta árið í heilsufarstilliti, bæði vegna þess hversu margir veiktust og ennfremur af hinum mikla og óvanalega manndauða.“ Þetta skráði Jón Hj. Sigurðsson læknir í Reykjavík í ársskýrslu sinni til landlæknis í lok árs 1918. Hjá Jóni kom ennfremur fram að fjöldi gravidra kvenna leystist höfn og fósturlát af völdum veikinnar voru algeng. Mikill fjöldi fæðandi kvenna beið bana.

Sá hópur sem hefur litla umfjöllun fengið í frásögnum af spænsku veikinni eru barnshafandi konur en dánartíðni þeirra var allt að 37% í veikinni. Í fyrirlestrinum verður dregin upp mynd af þeim konum sem misstu fóstur í veikinni, þeim konum sem fæddu fársjúkar, þeim sem fæddu minna veikar og af öðrum sem dóu áður en þær náðu að fæða. Leitað verður svara við spurningunni hver áhrif spænsku veikinnar voru á barnshafandi konur og litið bæði til Íslands og hinna Norðurlandanna í því skyni. Af hverju veikin lagðist þyngra á konur á fyrri hluta meðgöngu en í lok meðgöngunnar? Þær sem voru komnar að fæðingu urðu minna veikar en hinar, sem styttra voru gengnar.

Erla Dóris Halldórsdóttir er sagnfræðingur og hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún er með sérmenntun í gjörgæsluhjúkrun frá Haukeland sjúkrahúsinu í Bergen í Noregi. Hún hefur einnig lokið BA- og MA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Í október 2016 varði hún  doktorsritgerð í sagnfræði, Fæðingarhjálp á Íslandi 1760-1880 við Sagnfræði- og heimspekideild HÍ. Rannsóknir Erlu Dórisar í sagnfræði hafa einkum verið á sviði heilbrigðissögu.

Magnús Gottfreðsson er smitsjúkdómalæknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Hann lauk embættisprófi frá læknadeild  HÍ árið 1991, doktorsprófi frá sömu deild 1999 og stundaði sérnám í lyflækningum og smitsjúkdómum við Duke háskóla í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum 1993-1999. Hann hefur stundað rannsóknir á alvarlegum sýkingum, þ.á.m. inflúensu og heilahimnubólgu en jafnframt leitast við að nýta sagnfræðileg gögn til að varpa ljósi á faraldra fyrri alda hérlendis.

mánudagur, 24. sep 2018

Hádegisfyrirlestur 2. október: Refsing guðs, náttúruhamfarir eða samfélagsmein? Um orsakir hungursneyða á Íslandi

Þriðjudaginn 2. október flytur Guðmundur Jónsson hádegisfyrirlesturinn „Refsing guðs, náttúruhamfarir eða samfélagsmein? Um orsakir hungursneyða á Íslandi“. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er annað erindi þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema haustsins er að þessu sinni hörmungar.

Sautjánda og átjánda öldin hafa verið kallaðar hunguraldirnar í sögu Íslands enda voru þá hallæri fleiri og hungurdauði meiri en á flestum öðrum öldum Íslandssögunnar. Á tímum trúrækni og strangra siðaboða á árnýöld töldu margir að harðæri og hungur væru refsing Guðs fyrir syndugt líferni. En síðan Malthus var á dögum hafa kenningar um fæðuframboð (e. food availability theories) verið áhrifamestar skýringa á hungursneyðum. Á Íslandi hafa menn rakið samdrátt fæðuframboðs fyrst og fremst til náttúruhamfara eða versnandi veðurfars en með nýjum viðhorfum í rannsóknum á fæðukreppum á síðustu áratugum 20. aldar fóru menn að beina athyglinni meir og meir að samfélagslegum þáttum, viðbrögðum almennings og stjórnvalda og veikleikum í samfélagsbyggingu. Í erindinu fjallar Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði um hvernig skilningur fræðimanna á orsökum hungursneyða hefur breyst.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Kristínu Svövu Tómasdóttur, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið kristinsvava@gmail.com

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins vor 2019

15. janúar
Arnór Gunnar Gunnarsson, Scalia, Ginsburg og Keflavíkurstöðin. Rainbow Navigation-málið fyrir bandarískum dómstólum 1985-1991

29. janúar
Þórunn Guðmundsdóttir, Voveiflegur dauðdagi Kristínar Sigurðardóttur vinnukonu árið 1756

12. febrúar
Tryggvi Rúnar Brynjarsson, Einfaldur þolandi flókins og forns dómskerfis? Arfleifð skammar og útþynning ábyrgðar við úrlausn Guðmundar- og Geirfinnsmála í samtímanum

26. febrúar
Ólína Þorvarðardóttir, Galdra- og brennudómar. Réttarfar Íslendinga á 17. öld

12. mars
Hjörleifur Stefánsson, Byggingarsaga Hegningarhússins við Skólavörðustíg í ljósi betrunarheimspeki 19. aldar

26. mars
Vilhelm Vilhelmsson, „Með kærleiksmeiningar vinmælum“. Sáttanefndir og lausn deilumála á 19. öld

9. apríl
Helga Kress, Kona tekin af lífi. Lesið í dómsskjöl Natansmála og dóminn yfir Agnesi í bókmenntum, samfélagi og sögu

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com