Latest entries

miðvikudagur, 1. júl 2020

Söguþing 2021

Kæru félagar, takið síðustu helgina í maí frá fyrir Söguþing 2021!
Fimmta íslenska söguþingið fer fram 27—29 maí 2021 í Háskóla Íslands. Tilgangur söguþings nú eins og þá er að leiða saman sagnfræðinga og áhugamenn um íslenska sögu til að fjalla um nýjar rannsóknir og það sem efst er á baugi innan sagnfræðinnar. Gert er ráð fyrir að ríflega tuttugu málstofur verði á þinginu en auk fræðilegrar dagskrár verður boðið upp á ýmislegt annað í tengslum við þingið. Á veggspjöldum verða kynntar rannsóknir og starfsemi einstaklinga og félaga og bókaforlög munu kynna bækur sínar. Skemmtanir verða haldnar með sögutengdu efni og í lokin er þingveisla.

Skilafrestur á málstofutillögum verður 1. nóvember 2020 en ítarlegra þingkall verður sent út í haust.

föstudagur, 15. maí 2020

Skrifa um hugmyndaheim Páls Briem

Sjö sagnfræðingar taka höndum saman í nýrri bók um Pál Briem sem kom út á dögunum. Í bókinni Hugmyndaheimur Páls Briem í ritstjórn Ragnheiðar Kristjánsdóttur og Sverris Jakobssonar eru fræðimenn með ólíkan bakgrunn fengnir til að skoða framlag Páls þegar hann var virkur í stjórnmálum sem þingmaður, sýslumaður og amtmaður á síðustu árum nítjándu aldar og við upphaf þeirrar tuttugustu.

Háskólaútgáfan gefur bókina út sem er sú 24. í röð Sagnfræðirannsókna - Studia Historica, ritröð fræðirita Sagnfræðistofnunar sem hóf göngu sína árið 1972.

„[M]á segja að í bókinni sé Páll eins konar fundarstaður þar sem fræðimenn beina sjónum að tilteknu efni eða tímabili, hver frá sínu sjónarmiði,“ segir í inngangi bókarinnar. Gunnar Karlsson skrifaði kafla um Pál sem einn af frumkvöðlum frjálslyndrar vinstristefnu og Helgi Skúli Kjartansson skrifar um Pál sem leiðandann sem ekki varð. Erla Hulda Halldórsdóttir skrifar um kvenfrelsi út frá Páli og Elínu tvíburasystur hans. Sverrir Jakobsson skrifar um rannsóknir Páls á Grágás og hvernig hann setti lög miðaldar í samhengi við samtíma sinn. Ragnheiður Kristjánsdóttir skrifar um hugmyndir Páls um framkvæmd kosninga og Vilhelm Vilhelmsson skrifar um viðhorf Páls til leysingar vistarbands. Loks skrifar Guðmundur Jónsson um hugmyndir Páls um félagsmál. Kaflarnir sjö byggja á fyrirlestrum sem höfundar fluttu á málþingi um Pál árið 2016 sem haldið var í samvinnu Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands við afkomendur hans.

föstudagur, 24. apr 2020

Langar þig til að skrifa söguna?

Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands kynnti á dögunum námsleiðir í framhaldsnámi við deildina. Þau sem hafa áhuga á framhaldsnámi í sagnfræði, hugmynda- og vísindasögu, fornleifafræði eða einhverjum hinna námsleiðanna í sagnfræði- og heimspekideild geta enn skoðað kynningarnar þótt þær séu afstaðnar. Námsleiðirnar gefa góð tækifæri til að rannsaka íslenskt samfélag og koma þeim niðurstöðum á framfæri.

Hér má finna upptöku af öllum kynningunum.

Á myndinni má sjá sagnfræðinema í kynningu hjá Sagnfræðingafélagi Íslands, Sögufélagi og ReykjavíkurAkademíunni í vetur.

föstudagur, 10. apr 2020

Gísli Gunnarsson látinn

Gísli Gunnarsson sagnfræðingur er látinn, 82 ára að aldri. Hann fékkst einkum við hagsögu og sendi frá sér bókina Upp er boðið Ísaland árið 1987 um einokunarverslunina og íslenskt samfélag á árunum 1602 til 1787. Bókin byggði á doktorsrannsókn Gísla við Háskólann í Lundi og vakti mikla athygli.

Gísli lauk MA-prófi í sagnfræði og hagfræði við Háskólann í Edinborg árið 1961. Hann lauk doktorsprófi í hagsögu frá Háskólanum í Lundi 1983. Gísli kenndi í gagnfræðaskóla á árunum 1961 til 1972. Gísli var ráðinn kennari í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 1982 og varð prófessor árið 1997.

Á löngum ferli skrifaði Gísli fjölda greina, bókarkafla og bóka. Auk fyrrnefndrar Upp er boðið Ísaland má nefna Fiskurinn sem munkunum fannst bestur og tveggja binda verkið Líftaug landsins um utanríkisverslun Íslendinga þar sem hann var einn höfunda.

Gísli fæddist 19. mars 1938. Hann lætur eftir sig eiginkonu, Sigríði Ingileifu Sigurbjörnsdóttur, þrjár dætur, þær Birnu, Málfríði og Ingileifu og sex barnabörn. Jarðarförin fer fram í kyrrþey en minningarathöfn verður haldin þegar samkomubanni hefur verið aflétt.

fimmtudagur, 2. apr 2020

Afboðun hádegisfyrirlestra

Nú liggur fyrir að samkomubann vegna Covid-19 veirufaraldursins hefur verið framlengt út apríl.
Af þeim sökum er sjálfhætt með fyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins, Blessað stríðið? Ísland sem hernumið land. Stjórn félagsins hefur tekið þá ákvörðun að færa fyrirlestraröðina til hausts 2020.
Dagskrá haustsins verður auglýst þegar nær dregur.

Frekari frestun aðalfundar

Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands hefur í ljósi aðstæðna tekið þá erfiðu ákvörðun að fresta aðalfundi félagsins enn frekar. Aðalfundurinn verður haldinn eins snemma og verða má á haustmánuðum 2020.

Nákvæmari dagsetning verður auglýst síðar.

Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands

þriðjudagur, 17. mar 2020

Frestun aðalfundar

Vegna samkomubanns og almannaheilla neyðist stjórn Sagnfræðingafélags Íslands til að fara á svig við lög félagsins og fresta aðalfundi sem fyrirhugaður hafði verið miðvikudaginn 25. mars næstkomandi.

Samkomubanninu er ætlað að standa til mánudagsins 13. apríl næstkomandi með þeim fyrirvara að það gæti verið stytt eða lengt. Um leið og frekari upplýsingar liggja fyrir mun stjórn Sagnfræðingafélagsins boða til aðalfundar.

föstudagur, 13. mar 2020

Frestun hádegisfyrirlestra

Yfirvöld hafa tilkynnt samkomubann sem tekur gildi á miðnætti 15. mars eða aðfaranótt næstkomandi mánudags. Samkomubannið gildir í fjórar vikur.

Af þeim sökum er öllum fyrirlestrum í sal Þjóðminjasafns aflýst þann tíma sem samkomubannið varir. Það á auðvitað einnig við um fyrirlestra á vegum Sagnfræðingafélags Íslands.

Fyrirlestrum Agnesar Jónasdóttur 17. mars og Sverris Jakobssonar og Stefáns Pálssonar 31. mars verður því frestað.  Fyrirlestur Skafta Ingimarssonar 14. apríl er á dagskrá eftir að fyrirhugðu samkomubanni lýkur og því líklegt að af honum verði.

Sagnfræðingafélagið mun að sjálfsögðu setja fyrirlestrana aftur á dagskrá þegar aðstæður leyfa.

Framundan er tími inniveru og íhugunar og því bendum við fólki á að hér á vefsíðunni er hafsjór af upptökum af hádegisfyrirlestrum sem ná allt aftur til 2008 sem fróðleiksfúsir geta sökkt sér í þar til að fræðasamfélagið getur leyft sér að koma saman á ný.

miðvikudagur, 11. mar 2020

Þriðji hádegisfyrirlestur vorsins: Ástandsárin og barnavernd

Þann 17. mars flytur Agnes Jónasdóttir halda þriðja fyrirlestur vorsins í hádegisfyrirlestrarröð Sagnfræðingafélagins. Fyrirlestraröð vorannarinnar er helguð hernámi Íslands í seinni heimsstyrjöld, en í ár eru 80 ár frá því að Ísland var hermunið og er yfirskriftin því „Blessað stríðið?“ þar sem fyrirlesarar leitast við að skoða stríðsárin og afleiðingar þeirra í víðu samhengi.

Agnes skoðar hin alræmdu „ástandsár“ út frá sjónarmiðum barnaverndar.

Eins og allir vita var umfjöllum um sambönd íslenskra kvenna við erlenda hermenn í hámæli á stríðsárunum. Viðbrögð ríkisins við ástandinu leiddu til lagasetningar um eftirlit með ungmennum og því að stofnum var komið á laggirnar sem áttu að bregðast við vandanum sem unglingsstúlkur í ástandinu voru.

Hvernig tengdust þessar nýju stofnanir öðrum stofnunum sem ætlað var að fjalla um málefni barna og ungmenna? Hverjar voru skyldur barnaverndarnefnda þegar kom að ástandinu. Einnig velti Agnes því upp hvort skilgreina meg ástandsstúlkurnar sem vandræðaunglinga eða nánar til tekið hvort valdastofnanir hafi litið á þær sem slíkar.

Agnes Jónasdóttir er með MA- próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún lagt áherslu á að skoða ástandið út frá tengslum þess við sögu barnaverndar ásamt því að teygja sig inn á svið hinsegin sögu.

fimmtudagur, 27. feb 2020

Annar hádegisfyrirlestur vorsins: Og svo kom kaninn: Ástandið frá hinsegin sjónarhorni

Annar hádegisfyrirlestur vorsins verður haldinn þriðjudaginn 3. mars. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Hann er öllum opinn og aðgangur er ókeypis. Yfirskrift fyrirlestraraðarinnar er Blessað stríðið? Ísland sem hernumið land.

Særún Lísa Birgisdóttir þjóðfræðingur flytur fyrirlesturinn „Og svo kom Kaninn“ þar sem hún fer í saumana á ástandinu og hvaða áhrif það hafði á samfélag samkynhneigðra karlmanna á Íslandi. Í skugga ástandsins blómstraði annars konar ástand. Eftir að landið var hernumið opnuðust dyr inn í nýjan heim hjá fjölda manna sem fram til þessa höfðu lifað í einangrun og felum með kynhneigð sína.

Særún Lísa Birgisdóttir er með MA-próf í Þjóðfræði frá Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum horfir hún til þess hvernig hinir ýmsu jaðarhópar hafa birst í sögnum, þjóðtrú og orðræðu, með sérstakri áherslu á samkynhneigða.

 


Random image

RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.