Latest entries

fimmtudagur, 4. apr 2019

Hádegisfyrirlestur 9. apríl: Kona tekin af lífi - Lesið í dómsskjöl Natansmála og réttarhöldin yfir Agnesi í bókmenntum, samfélagi og sögu

Þriðjudaginn 9. apríl flytur Helga Kress hádegisfyrirlesturinn „Kona tekin af lífi - Lesið í dómsskjöl Natansmála og  réttarhöldin yfir Agnesi í bókmenntum, samfélagi og sögu“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur hádegisfyrirlesturinn í samvinnu við Þjóðminjasafnið en hann er sá síðasti í fyrirlestraröð félagsins, sem þetta misserið hefur yfirskriftina „Saga réttarfars og refsinga“.

Þann 21. júlí 1828 var af sýslumanni Húnvetninga, Birni Blöndal, kveðinn upp dauðadómur yfir vinnukonunum Agnesi Magnúsdóttur, 33 ára, og Sigríði Guðmundsdóttur, 17 ára, fyrir hlutdeild í morði á húsbónda þeirra Natani Ketilssyni og gesti hans á Illugastöðum á Vatnsnesi að kvöldi 13. mars 1828.

Morðinginn var nágranni þeirra, bóndasonurinn Friðrik Sigurðsson, 18 ára, sem einnig hlaut dauðadóm. Skyldu þau öll hálshöggvin með exi og höfuðin síðan sett á stjaka öðrum til viðvörunar. Dómarnir voru staðfestir svo til óbreyttir í Landsyfirrétti og  Hæstarétti.

Agnes og Friðrik voru tekin af lífi, hálshöggvin, við Þrístapa í Vatnsdalshólum 12. janúar 1830, en dauðadómi Sigríðar var breytt með konungsúrskurði í ævilangt fangelsi í Kaupmannahöfn, þar sem hún lést fáum árum síðar.

Aftaka þeirra Friðriks og Agnesar var sett upp sem sýning, með upphækkuðum aftökupalli og fjölda áhorfenda. Var Friðrik höggvinn fyrst en Agnes strax á eftir. Var aftaka hennar sú síðasta á Íslandi.

Um svokölluð Natansmál hefur mikið verið skrifað, bæði af sagnaþáttum og skáldskap, sem ýmist byggja á ótraustum munnmælum og/eða hvert á öðru. Flest ganga þessi verk út frá ástarsambandi Agnesar og Natans og afbrýðisemi hennar þegar hann hafnaði henni fyrir Sigríði sem aftur á að hafa elskað Friðrik og hann hana.

Í hausthefti Sögu 2013 birtist tímamótagrein Eggerts Þórs Bernharðssonar, „Friðrik, Agnes, Sigríður og Natan” um heimildagrunn morðmálsins á Illugastöðum, þar sem hann m.a. sýnir fram á að meint ástarsamband milli þeirra Agnesar og Natans eigi sér enga stoð í frumheimildum, en rekur morðið til skapvonsku hans og harðstjórnar á heimili.

Í fyrirlestrinum verður gengið út frá þeim heimildagrunni sem Eggert byggir á, að viðbættri grein Helgu Kress „Eftir hans skipun“ í Sögu, vorhefti 2014, þar sem hún, frá kynjafræðilegu sjónarhorni, gengur lengra í túlkun og rekur ástæður morðsins til kynferðislegs ofbeldis húsbóndans gegn vinnukonum sínum.

Eftir að þessar greinar birtust var málið „endurupptekið“ á vegum Lögfræðingafélags Íslands í „sýndaréttarhöldum“ á söguslóðum, nánar tiltekið í Félagsheimilinu á Hvammstanga 9. september 2017, og kveðinn upp dómur.

Var sá harðasti yfir Agnesi. Mun Helga fjalla um þennan dóm ásamt því að farar nánar í upprunalegu dómsskjölin og vitnisburð sakborninganna Agnesar og Sigríðar, sem ekki var hlustað á, og tengja kenningum um réttarhöld yfir konum. Þá  mun hún víkja að lýsingum á Agnesi í bókmenntum og öðrum frásögnum, allt frá Espólín til Hönnuh Kent (Burial Rites, 2013 ) þar sem segja má að Agnes sé ítrekað tekin af lífi.

Helga Kress er prófessor emeritus í bókmenntafræði við hugvísindadeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hennar er íslensk bókmenntasaga og íslensk bókmenntahefð að fornu og nýju frá kvenna- og kynjafræðilegu sjónarhorni. Hún er brautryðjandi í femínískum bókmenntarannsóknum hér á landi og einn af okkar mikilvirkustu og áhrifamestu bókmenntafræðingum.

miðvikudagur, 3. apr 2019

Ársskýrsla stjórnar Sagnfræðingafélagsins 2018-2019

Starf Sagnfræðingafélagsins hefur verið með hefðbundnu sniði á liðnu starfsári.

Sem fyrr eru hádegisfyrirlestrar félagsins veigamesti liðurinn í starfi þess. Hádegisfyrirlestrar vorannar 2018 voru helgaðir sögu byggða og bæja og voru sjö talsins.

Hjörleifur Stefánsson flutti erindi um torfbæi tómthúsmanna í Reykjavík á 19. öld, Vilhelm Vilhelmsson fjallaði um byggðasögu Borðeyrar við Hrútafjörð, Anna Dröfn Ágústsdóttir og Guðbrandur Benediktsson fjölluðu um aðferðafræði safna og vinnu sagnfræðinga við nýja grunnsýningu Sjóminjasafnsins í Reykjavík, Arnþór Gunnarsson flutti erindi um sögu Reykjavíkurflugvallar og deilur um hann, Óðinn Melsted fjallaði um umskiptin frá húshitun með olíu og kolum til jarðvarma, Íris Ellenberger fjallaði um menningarleg átök og samblöndun í Reykjavík á fyrstu áratugum 20. aldar og loks flutti Haraldur Sigurðsson erindi um tillögur að bæjarskipulagi á Íslandi 19211938 og byggingararf íslensks þéttbýlis.

Fyrir hádegisfyrirlestra haustsins 2018 var ákveðið að þemað yrði „hörmungar“, með vísun til allra þeirra erfiðleika sem settu mark sitt á fullveldisárið 1918 hundrað árum fyrr, og þótti þemað vera sérlega djarft og skemmtilegt.

Sex ólík erindi voru flutt um söguleg áföll og þrengingar: Valur Gunnarsson fjallaði um seinni heimsstyrjöldina, Guðmundur Jónsson fjallaði um orsakir hungursneyða á Íslandi, Erla Dóris Halldórsdóttir og Magnús Gottfreðsson fluttu erindi um áhrif spænsku veikinnar á barnshafandi konur á Íslandi, Atli Antonsson fjallaði um menningarsögu eldgosa á Íslandi, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir fluttu erindi um orðræður um HIV á Íslandi og loks fjallaði Vilborg Auður Ísleifsdóttir um hungursneyðir og hremmingar á 16. öld.

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins eru skipulagðir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og fara fram í fyrirlestrasal safnsins. Fyrirlestrar ársins 2018 hafa sem fyrr verið vel sóttir en einnig er greinileg eftirspurn eftir upptökunum af þeim sem settar eru inn á heimasíðu félagsins. Félagið fjárfesti í nýju upptökutæki á árinu sem mun vonandi reynast vel.

Síðasti aðalfundur Sagnfræðingafélagsins var haldinn hér í sal Þjóðskjalasafnsins þann 13. mars 2018. Að loknum aðalfundarstörfum voru kynnt tvö fræðiverk sem tilnefnd voru til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017: Stórvirkið Líftaug landsins. Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900–2010 eftir Helga Þorláksson, Önnu Agnarsdóttur, Guðmund Jónsson, Gísla Gunnarsson, Helga Skúla Kjartansson og Halldór Bjarnason, og Leitin að klaustrunum. Klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur, en fyrir bók sína hlaut Steinunn einnig Viðurkenningu Hagþenkis.

Hrafnkell Lárusson ritari gekk úr stjórninni á fundinum en í hans stað var kjörin í stjórnina Íris Gyða Guðjónsdóttir, sem síðan hefur verið ritari og skjalavörður félagsins.

Skömmu eftir aðalfundinn, þann 20. mars, stóð Sagnfræðingafélagið ásamt Sögufélagi og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands fyrir minningarþingi um Björn Þorsteinsson sagnfræðing í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli hans.

Þingið fór fram í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur. Voru þar flutt mörg stutt erindi um líf og störf Björns, veittur styrkur úr Sagnfræðisjóði dr. Björns Þorsteinssonar og loks boðið upp á léttar veitingar, en Kristín Svava Tómasdóttir, formaður Sagnfræðingafélagsins, var fundarstjóri.

Skömmu fyrir síðasta aðalfund eignaðist félagið loksins, og þótt fyrr hefði verið, eigið netfang, sagnfraedingafelagid@gmail.com, og hefur það reynst hið þægilegasta fyrirkomulag við allt utanumhald og útdeilingu verkefna.

Sú ákvörðun var síðan tekin á starfsárinu að setja áform um útgáfu rafræns fréttabréfs, sem rædd hafði verið í mörg ár innan stjórnarinnar, til hliðar, en láta frekar reyna á að virkja heimasíðu félagsins og setja ekki bara inn fréttir af viðburðum á vegum félagsins sjálfs heldur einnig af vettvangi sagnfræðinnar almennt, svo sem styrkjum og verðlaunum sem veitt eru sagnfræðingum og af framlagi sagnfræðinga til dæmis á hugvísindaþingi Háskóla Íslands. Þessum fréttum er síðan deilt jafnóðum á Facebook-síðu félagsins.

Þessi tilraun hefur gefist vel og umferð um Facebook-síðuna hefur verið meiri en áður.

Loks má nefna að Sagnfræðingafélagið hefur nú tekið höndum saman við tímaritið Sögu og ReykjavíkurAkademíuna um að endurvekja bókakvöldið vinsæla eftir nokkurra ára hlé. Það mun fara fram í sal ReykjavíkurAkademíunnar í Þórunnartúni 2 næstkomandi miðvikudag, 3. apríl klukkan 20:00, og verður þar fjallað um fimm spennandi ný sagnfræðiverk.

Við vonumst til að þetta verði upphafið bæði að farsælu áframhaldi árlegs bókakvölds og auknu samstarfi við þessa góðu samstarfsaðila.

Fjórir stjórnarmenn hverfa úr stjórn félagsins á þessum aðalfundi: Rakel Adolphsdóttir vefstjóri, Gunnar Örn Hannesson meðstjórnandi, Hjördís Erna Sigurðardóttir varaformaður og Kristín Svava Tómasdóttir formaður. Ég þakka samstarfsfólki mínu síðustu ár kærlega fyrir gott og lærdómsríkt samstarf og veit að félagið verður eftir sem áður í öruggum höndum.

Kristín Svava Tómasdóttir

Bókakvöld 3. apríl

Bókakvöld verður haldið miðvikudagskvöldið 3. apríl kl. 20:00 í sal ReykjavíkurAkademíunnar í Þórunnartúni 2, 4. hæð. Þar verður fjallað og spjallað um fimm spennandi sagnfræðiverk sem komu út á liðnu ári. Bókakvöldið er skipulagt í samvinnu Sagnfræðingafélags Íslands, tímaritsins Sögu, Sögufélags og ReykjavíkurAkademíunnar.

Dagskráin verður sem hér segir:

Kristín Ástgeirsdóttir fjallar um bók Báru Baldursdóttur og Þorgerðar H. Þorvaldsdóttur, Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi (Hið íslenska bókmenntafélag)

Hjalti Hugason fjallar um bók Sverris Jakobssonar, Kristur. Saga hugmyndar (Hið íslenska bókmenntafélag)

Þorgerður H. Þorvaldsdóttir fjallar um bók Kristínar Svövu Tómasdóttur, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar (Sögufélag)

Kaffihlé

Guðný Hallgrímsdóttir fjallar um bók Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur, Skúli fógeti. Faðir Reykjavíkur – saga frá 18. öld (JPV)

Ragnheiður Kristjánsdóttir fjallar um bók Gunnars Þórs Bjarnasonar, Hinir útvöldu. Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 2018 (Sögufélag)

Allt sagnfræðiáhugafólk er hvatt til að fjölmenna á bókakvöldið.

miðvikudagur, 27. mar 2019

Hlaðvarp/myndband: Vilhelm Vilhelmsson: „Með kærleiksmeiningar vinmælum“. Sáttanefndir og lausn deilumála á 19. öld

< ! wp:html >

< ! /wp:html >

< ! wp:heading >

< ! /wp:heading >

mánudagur, 18. mar 2019

Hádegisfyrirlestur 26. mars: „Með kærleiksmeiningar vinmælum“: Sáttanefndir og lausn deilumála á 19. öld

Þriðjudaginn 26. mars flytur Vilhelm Vilhelmsson hádegisfyrirlesturinn „Með kærleiksmeiningar vinmælum“: Sáttanefndir og lausn deilumála á 19. öld. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur hádegisfyrirlesturinn í samvinnu við Þjóðminjasafnið en hann er hluti af fyrirlestraröð félagsins, sem þetta misserið hefur yfirskriftina „Saga réttarfars og refsinga“.

Árið 1798 voru sáttanefndir settar á fót á Íslandi með konunglegri tilskipun. Þær störfuðu í svo til óbreyttri mynd fram á fjórða áratug 20. aldar, þegar lög um störf þeirra tóku umtalsverðum breytingum. Í kjölfarið dró töluvert úr umsvifum þeirra en þær voru lagðar niður með lögum árið 1981.

Hlutverk sáttanefnda var að miðla málum og leita sátta í margvíslegum misklíðarefnum manna á milli og létta þannig undir störfum héraðsdómara og stuðla að friði í nærsamfélaginu. Um leið var þeim ætlað að auðvelda fátækum almenningi að leita réttar síns án þess að leggja í kostnaðarsaman og tímafrekan málarekstur fyrir dómi.

Þessari nýjung í réttarfari landsmanna var almennt vel tekið og skrifaði Grímur Jónsson amtmaður Norður- og austuramts árið 1831 að nefndirnar hafi verið einhver mesta réttarbót á Íslandi í seinni tíð. Þrátt fyrir það hafa sagnfræðingar þeim litla athygli veitt og fáir hafa nýtt sér bækur sáttanefnda sem heimildir um daglegt líf á 19. öld.

Í erindi Vilhelms verður fjallað um tildrög þess að sáttanefndir voru settar á fót og hvaða hlutverki þær þjónuðu í nærsamfélaginu. Einnig verður fjallað um sáttanefndarbækur sem heimildir fyrir sagnfræðinga og valin dæmi tekin um notkunarmöguleika þeirra.

Vilhelm Vilhelmsson er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra og með doktorspróf í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Sérsvið hans er félagssaga 18. og 19. aldar. Hann hefur gefið út fjölda greina um vesturferðir, heimildavanda vitnisburða fyrir dómi, vistarband og margt fleira. Bók hans, Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld (2017), var tilefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og Viðurkenningar Hagþenkis. Hann bjó einnig til útgáfu bókina Sakir útkljáðar: Sáttabók Miðfjarðarumdæmis í Húnavatnssýslu 1799-1865 (2017) og ritaði inngang.

fimmtudagur, 14. mar 2019

Aðalfundur Sagnfræðingafélagsins 27. mars

Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands 2019 verður haldinn miðvikudagskvöldið 27. mars í fyrirlestrasal Þjóðskjalasafns Íslands, Laugavegi 162 (3. hæð, gengið inn úr portinu). Aðalfundarstörf hefjast kl. 20:00, sjá nánari dagskrá að neðan. Að þeim loknum, kl. 20:45, munu tveir sagnfræðingar kynna nýjar rannsóknir í faginu.

Björn Reynir Halldórsson kynnir doktorsrannsókn sína, Kvennalistinn. Feminísk ögrun við íslensk stjórnmál, en fyrir hana hlaut hann nýlega styrk úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs. Rannsóknin leggur sérstaka áherslu á samspil jafnréttisstefnu Kvennalistans og femínisma við hugmyndir hans um alþjóða-, friðar- og utanríkismál, lýðræði, efnahagsmál og umhverfismál.

Þá mun Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, flytja erindið Akademía verður til! Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking. Um er að ræða öndvegisverkefni sem samanstendur af framlagi fræðimanna á sviði sagnfræði, fornleifafræði, mannfræði og safnafræða og hlaut styrk frá Rannsóknarsjóði Íslands (RANNÍS) á liðnu ári.

Dagskrá aðalfundarins er sem hér segir:
1. Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar.
2. Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar.
3. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
4. Kjör stjórnar. Kjör tveggja endurskoðenda reikninga.
5. Önnur mál.

Eftir fundinn verður boðið upp á léttar veitingar.

mánudagur, 11. mar 2019

Hlaðvarp: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir: Galdra- og brennudómar. Réttarfar Íslendinga á 17. öld

fimmtudagur, 7. mar 2019

Viðurkenning Hagþenkis 2019

Viðurkenning Hagþenkis var veitt 6. mars í Þjóðarbókhlöðunni við hátíðlega athöfn, hana hlaut Kristín Svava Tómasdóttir fyrir ritið, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar, sem Sögufélag gaf út. Í ályktunarorðum Viðurkenningaráðsins sagði um ritið: "Brautryðjandaverk um sögu kláms og kynverundar á Íslandi sem byggir á afhjúpandi rannsóknum á vandmeðförnu efni."

Sagnfræðingafélagið óskar Kristínu innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Brot úr þakkarræðu Kristínar: „Að skilgreina klám snýst um að draga mörkin. Bandaríski bókmenntafræðingurinn Walter Kendrick skrifaði að saga kláms á 20. öld hefði verið „yfirþyrmandi og vonlaus viðleitni við að sortera verðmætin frá ruslinu“. Ruslið – það var það sem lenti í klámflokknum. Eitt af því sem er svo heillandi við klámhugtakið og sögu þess er hversu sveigjanlegt það er, en þó alltaf svo neikvætt. Stund klámsins lýkur á orðunum „það eina sem fólk virtist almennt vera sammála um var að klám væri vont“; ég fór fram og til baka með þessi lokaorð, fannst þau ekki alveg nógu fjörleg, en á endanum var ekkert sem lýsti efni bókarinnar betur. Að draga mörkin milli kláms og ekkikláms er að draga mörkin milli fegurðar og ljótleika, smekks og smekkleysis, ástar og ofbeldis, hreinleika og sóðaskapar, fágunar og grófleika. Það er hátt í áratugur síðan ég fór fyrst að hugsa um sögu kláms en fyrir mér er þetta forsmáða og gildishlaðna fyrirbæri ennþá algjörlega ómótstæðilegt sagnfræðilegt viðfangsefni.“

þriðjudagur, 5. mar 2019

Hádegisfyrirlestur 12. mars: Byggingarsaga Hegningarhússins við Skólavörðustíg í ljósi betrunarheimspeki 19. aldar

Þriðjudaginn 12. mars flytur Hjörleifur Stefánsson hádegisfyrirlesturinn „Byggingarsaga Hegningarhússins við Skólavörðustíg í ljósi betrunarheimspeki 19. aldar“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur hádegisfyrirlesturinn í samvinnu við Þjóðminjasafnið en hann er hluti af fyrirlestraröð félagsins, sem þetta misserið hefur yfirskriftina „Saga réttarfars og refsinga“.

Í upphafi 19. aldar varð alger bylting í öllu sem laut að fangelsismálum og refsingum á vesturlöndum. Heimspekingar og samfélagsfrömuðir tóku að ræða fangelsismál og mannúðarsjónarmið settu mark sitt á þá stefnumótun sem átti sér stað. Athyglin beindist í vaxandi mæli að því hvernig haga mætti fangelsisbyggingum og fangelsisvistinni þannig að fangarnir yrðu mótaðir á jákvæðan hátt til að verða betri menn. Betrun varð mikilvægari en refsing. Í byggingarsögu Hegningarhússins birtast byltingarkenndar samfélagsbreytingar utan úr hinum stóra heimi sem teygðu anga sína hingað til lands þótt aðstæður yllu því að hér hlutu þær að verða með sérstökum hætti.

Hjörleifur Stefánsson er menntaður sem arkitekt en hefur að mestu starfað að varðveislu og rannsóknum á íslenskum byggingararfi frá því um 1975. Hann hefur skrifað bækur um íslenska byggingarsögu og fjallað um siðfræði byggingarlistar.

mánudagur, 4. mar 2019

Hugvísindaþing 2019

Hugvísindaþing er árviss ráðstefna Hugvísindastofnunar. Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs, setur þingið kl. 12.00 í Hátíðasal Háskólans í Aðalbyggingu, föstudaginn 8. mars. Hátíðarfyrirlesari verður Stephen Greenblatt, bókmenntafræðingur, einn af upphafsmönnum hinnar svokölluðu nýsöguhyggju (e. New Historicism) og handhafi Holberg-verðlaunanna 2016.

Það er ekki þverfótað fyrir spennandi umfjöllunum á sviði sagnfræði sem vert er að skoða. Alls eru 150 málstofur og fyrirlestrar í boði á tveimur dögum en dagskrána má sjá hér. 

Föstudaginn 8. mars kl. 13.15-14.45
Viðtakendur eða virkir gerendur? Um atbeina almennings á Íslandi á 18. og 19. öld – Oddi 201. Fyrirlesarar eru Vilhelm Vilhelmsson, Hrafnkell Lárusson og Margrét Gunnarsdóttir.

Föstudaginn 8. mars kl. 15.15-17.15
Listakonur, húsmæður, netagerðakonur og kvenlíkaminn – sýnishorn úr rannsókninni „Í kjölfar kosningaréttar“ - Oddi 201. Fyrirlesarar eru Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Erla Hulda Halldórsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir.
Samskipti Íslendinga við útlendinga – ávinningur og virðisauki - Oddi 206. Fyrirlesarar eru Auður Hauksdóttir og Oddný G. Sverrisdóttir.

Laugardaginn 9. mars kl. 10.30-12.00
Tímanna tákn: Almanök og efnismenning á 19. öld – Árnagarður 201. Fyrirlesarar eru Davíð Ólafsson, Kristján Mímisson og Andri M. Kristjánsson.
Hver var þessi Kristur? Sagnfræðilegar, heimspekilegar og guðfræðilegar nálganir – Árnagarður 310. Fyrirlesarar eru Sverrir Jakobsson, Rúnar M. Þorsteinsson og Arnfríður Guðmundsdóttir.
Nýlenduminningar Atlantshafssvæðisins – Árnagarður 311. Fyrirlesarar eru Toby Erik Wikström, Ólöf Nordal og Ann-Sofie N. Gremaud.

Laugardaginn 9. mars kl. 13.00-14.30
Kynsjúkdómar, kynverund og klám – Árnagarður 201. Fyrirlesarar eru Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, Íris Ellenberger, Þorsteinn Vilhjálmsson og Kristín Svava Tómasdóttir.
Fjölskyldan og heimilisbúskapur í upphafi 18. aldar – Árnagarður 311. Fyrirlesarar eru Óskar Guðlaugsson, Guðmundur Jónsson, Árni Daníel Júlíusson, Ingibjörg Jónsdóttir, Ólöf Garðarsdóttir og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir.

Laugardaginn 9. mars kl. 15.00-16.30
Frá töfrum og trú til vísinda. Fæðingarhjálp og kvennamenning – Árnagarður 310. Fyrirlesarar eru Erla Dóris Halldórsdóttir, Gísli Sigurðsson og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.
Stefndi Ísland til andskotans? – Árnagarður 311. Fyrirlesarar eru Orri Vésteinsson, Árni Daníel Júlíusson og Axel Kristinsson.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Markús Þ. Þórhallsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið mth39@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins haust 2019

Miðvikudagur 11. september

Helgi Þorláksson: Þið munið hann Þorlák. Skálholt á kaþólskri tíð og lútherskri.

Þriðjudagur 24. september

Hjalti Hugason: „Jarðsett verður í heimagrafreit“. Um útfararsiði og samfélagsbreytingar.

Þriðjudagur 8. október

Rakel Edda Guðmundsdóttir: „Alt það, sem við ekkert hefir að keppa, dofnar og deyr“. Umræður og átök um guðfræði og trú, þjóðkirkju og fríkirkju á síðum íslenskra dagblaða í kringum aldamótin 1900.

Þriðjudagur 22. október

Sverrir Jakobsson: Jesús Kristur í ljósi kenninga um menningarlegt minni.

Þriðjudagur 5. nóvember

Þorsteinn Helgason: Var Tyrkjaránið trúarlegur viðburður?

Þriðjudagur 19. nóvember

Bryndís Björgvinsdóttir: Bannhelgi og náttúra: Trú á stokka og steina.

Þriðjudagur 3. desember

Haraldur Hreinsson: Kirkjuvaldsstefnan og trúarleg orðræða á þjóðveldisöld

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefjast kl. 12:05.


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com