Latest entries

þriðjudagur, 13. ágú 2019

Undir högg að sækja í jafnréttisparadís

„Það er áhugavert að á Íslandi, sem er oft kallað einhvers konar jafnréttisparadís, áttu konur lengst af undir högg að sækja í stjórnmálum. Sú saga hefur ekki verið rannsökuð til hlítar. Það er eitt af því sem við ætlum að varpa ljósi á,“ segir Erla Hulda Halldórsdóttir, lektor í kvenna- og kynjasögu.

Erla Hulda vinnur að viðamikilli félags- og menningarsögulegri rannsókn ásamt Ragnheiði Kristjánsdóttur, dósent í sagnfræði, og Þorgerði Þorvaldsdóttur, sérfræðingi hjá Sagnfræðistofnun á konum sem pólitískum gerendum á 20. og 21. öld. Þær rannsaka hvernig konur nýttu sér borgaraleg réttindi sem þær fengu snemma á 20. öld.

„Markmið rannsóknarinnar er að skoða á hvern hátt íslenskar konur nýttu þau borgaralegu réttindi sem þær fengu á fyrstu áratugum 20. aldar, þ.e. kosningarétt og kjörgengi og rétt til menntunar og embætta, til þess að verða fullgildir borgarar í samfélaginu og taka með virkum hætti þátt í að móta íslenskt nútímasamfélag,“ segir Ragnheiður.

Fjallað er um rannsóknina á vef Háskóla Íslands.

mánudagur, 24. jún 2019

Bréf Vesturfara heim til Íslands

Þriðjudaginn 25. júní næstkomandi verður haldið málþing í Háskóla Íslands um bréfaskipti milli Íslendinga í Vesturheimi og gamla heimalandinu. Málþingið fer fram í fyrirlestrarsal Veraldar - húss Vigdísar og stendur frá kl. 13 til 16. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis!

Íslendingar líkt og fleiri Evrópubúar tóku að flykkjast vestur um haf í leit að betra lífsviðurværi víða um hina stóru álfu á ofanverðri nítjándu öld. Bréfaskipti geta og hafa varpað áhugaverðu ljósi á lífið í nýju heimkynnunum og hér verður enn bætt í. Fimm framsögumenn fjalla um og greina upplifun og lífsreynslu, búskaparhætti, ástarmál, sjálfsmyndir, vonbrigði og ávinning Íslendinga í nýjum heimkynnum frá Winnipeg og Nýja Skotlandi í norðri allt suður til Brasilíu. Dregin verður upp forvitnileg mynd af lífi og örlögum fólks í nýjum átthögum sem voru afar frábrugðnir heimahögunum á Íslandi.

Sjá nánar

föstudagur, 31. maí 2019

Kall eftir erindum á haustmisseri

Sagnfræðingafélagið kallar eftir erindum fyrir hádegisfyrirlestraröð félagsins á haustmisseri 2019. Fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands. Þemað að þessu sinni er „Trú og samfélag“.

Áherslan er á trú í sögulegu samhengi, kirkjusögu, þjóðtrú og átrúnað af ýmsu tagi.

Tillögur skulu sendar félaginu á netfangið sagnfraedingafelagid@gmail.com

Skilafrestur er til og með 20. júní.

fimmtudagur, 16. maí 2019

Málstofa tilvonandi sagnfræðinga í Gimli

Tilvonandi sagnfræðingar með MA-próf segja frá rannsóknum sínum og MA-ritgerðum sem þau skiluðu af sér nýlega. Haldin verður málstofa fimmtudaginn 16. maí í Gimli 102 kl. 16:00–17:30. Allir velkomnir.

Dagskráin verður sem hér segir:

Agnes Jónasdóttir – kl. 16–16:30
„„Eigum við að eftirláta hernum stúlkubörnin?”: Ástandið á mörkum löggæslu og barnaverndar.“

Viðfangsefni þessarar rannsóknar eru sértækar aðgerðir ríkisins vegna „ástandsins“ svo sem eftirlit með ungmennum, lagasetningar, stofnun ungmennadómstóls og stofnun sérstakra vistheimila til að vista stúlkur sem voru í „ástandinu“. Í þessari rannsókn var lögð sérstök áhersla á framkvæmd laga um eftirlit með ungmennum og með hvaða hætti barnaverndarnefnd kom að opinberu eftirliti og afskiptum af „ástandinu“. Viðfangsefnið var nálgast með aðferðir kynjasögunnar í huga og þá sérstaklega með kenninguna um samtvinnun að vopni. Samtvinnun er aðferðafræðileg nálgun sem á rætur sínar að rekja til kynjafræðinnar og feminískrar baráttu. Nálgunin gengur út á að skoða hvernig áhrifaþættir svo sem kyn, aldur, stétt og fleira blandast saman og skapa sérstaka stöðu einstaklingsins í samfélaginu.

Bjartur Logi Fránn Gunnarsson – 16:30–17:00
„Íslenskir annálar: Sjónarhorn og áhrifavaldar“

Í ritgerðinni er tekist á við spurningar um mismunandi sjónarhorn íslenskra annála. Rannsóknarspurningar ritgerðarinnar eru eftirfarandi: Hvernig endurspeglast mismunandi sjónarhorn í annálum? Hvaða máli skiptir afstaða þeirra sem rituðu
annála og þeirra sem stóðu að baki ritun þeirra? Hverjir höfðu áhrif á annálaritun? Fyrst er fræðileg saga rannsókna á íslensku annálunum skoðuð og mismunandi kenningar fræðimanna um þá bornar saman.

Brynhildur Lea Ragnarsdóttir – 17:00–17:30
Lífið í prófíl Fyrstu átján ár Leu Kristjánsdóttur

Lífið í prófíl er einsögurannsókn með kvenna- og kynjasögulegu ívafi þar sem ég notast við ævisöguformið til þess að varpa ljósi á stöðu ungrar konu, innan hinnar íslensku samfélagsgerðar, á fyrri hluta 20. aldar. Það er spennandi kostur að geta nálgast viðfangsefni fortíðarinnar í gegnum persónulegar upplifanir, þegar það er hægt, og hika ég ekki við að taka það skref í þessari ritgerð. Rannsóknin byggist því ekki eingögnu á minningum ömmu Leu heldur einnig mínum eigin, barna hennar og annarra fjölskyldumeðlima sem leyfðu mér að heyra þeirra hlið á liðnum atburðum.

þriðjudagur, 30. apr 2019

Málþing: Hólavallarskóli (1786–1804) – Reykjavík vaknar til lífsins

Félag um átjándu aldar fræði heldur málþing undir yfirskriftinni Hólavallarskóli (1786–1804) – Reykjavík vaknar til lífsins í Þjóðarbókhlöðu, fyrirlestrasal á 2. hæð, laugardaginn 4. maí 2019. Málþingið hefst kl. 13:30 og því lýkur eigi síðar en kl. 16:15. Dagskránna má sjá hér

þriðjudagur, 23. apr 2019

Hagþenkir auglýsir eftir umsóknum um starfsstyrki

Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna, auglýsir eftir umsóknum um starfsstyrki til ritstarfa, handritsgerðar fræðslu- og heimildarmynda og ferða- og menntunarstyrkir fyrir félagsmenn Hagþenkis. Umsóknarfrestur til 26. apríl kl. 13.

Allar nánari upplýsingar, úthlutunarreglur og rafræn umsóknareyðublöð eru á heimasíðu félagsins: www.hagthenkir.is

fimmtudagur, 4. apr 2019

Hádegisfyrirlestur 9. apríl: Kona tekin af lífi - Lesið í dómsskjöl Natansmála og réttarhöldin yfir Agnesi í bókmenntum, samfélagi og sögu

Þriðjudaginn 9. apríl flytur Helga Kress hádegisfyrirlesturinn „Kona tekin af lífi - Lesið í dómsskjöl Natansmála og  réttarhöldin yfir Agnesi í bókmenntum, samfélagi og sögu“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur hádegisfyrirlesturinn í samvinnu við Þjóðminjasafnið en hann er sá síðasti í fyrirlestraröð félagsins, sem þetta misserið hefur yfirskriftina „Saga réttarfars og refsinga“.

Þann 21. júlí 1828 var af sýslumanni Húnvetninga, Birni Blöndal, kveðinn upp dauðadómur yfir vinnukonunum Agnesi Magnúsdóttur, 33 ára, og Sigríði Guðmundsdóttur, 17 ára, fyrir hlutdeild í morði á húsbónda þeirra Natani Ketilssyni og gesti hans á Illugastöðum á Vatnsnesi að kvöldi 13. mars 1828.

Morðinginn var nágranni þeirra, bóndasonurinn Friðrik Sigurðsson, 18 ára, sem einnig hlaut dauðadóm. Skyldu þau öll hálshöggvin með exi og höfuðin síðan sett á stjaka öðrum til viðvörunar. Dómarnir voru staðfestir svo til óbreyttir í Landsyfirrétti og  Hæstarétti.

Agnes og Friðrik voru tekin af lífi, hálshöggvin, við Þrístapa í Vatnsdalshólum 12. janúar 1830, en dauðadómi Sigríðar var breytt með konungsúrskurði í ævilangt fangelsi í Kaupmannahöfn, þar sem hún lést fáum árum síðar.

Aftaka þeirra Friðriks og Agnesar var sett upp sem sýning, með upphækkuðum aftökupalli og fjölda áhorfenda. Var Friðrik höggvinn fyrst en Agnes strax á eftir. Var aftaka hennar sú síðasta á Íslandi.

Um svokölluð Natansmál hefur mikið verið skrifað, bæði af sagnaþáttum og skáldskap, sem ýmist byggja á ótraustum munnmælum og/eða hvert á öðru. Flest ganga þessi verk út frá ástarsambandi Agnesar og Natans og afbrýðisemi hennar þegar hann hafnaði henni fyrir Sigríði sem aftur á að hafa elskað Friðrik og hann hana.

Í hausthefti Sögu 2013 birtist tímamótagrein Eggerts Þórs Bernharðssonar, „Friðrik, Agnes, Sigríður og Natan” um heimildagrunn morðmálsins á Illugastöðum, þar sem hann m.a. sýnir fram á að meint ástarsamband milli þeirra Agnesar og Natans eigi sér enga stoð í frumheimildum, en rekur morðið til skapvonsku hans og harðstjórnar á heimili.

Í fyrirlestrinum verður gengið út frá þeim heimildagrunni sem Eggert byggir á, að viðbættri grein Helgu Kress „Eftir hans skipun“ í Sögu, vorhefti 2014, þar sem hún, frá kynjafræðilegu sjónarhorni, gengur lengra í túlkun og rekur ástæður morðsins til kynferðislegs ofbeldis húsbóndans gegn vinnukonum sínum.

Eftir að þessar greinar birtust var málið „endurupptekið“ á vegum Lögfræðingafélags Íslands í „sýndaréttarhöldum“ á söguslóðum, nánar tiltekið í Félagsheimilinu á Hvammstanga 9. september 2017, og kveðinn upp dómur.

Var sá harðasti yfir Agnesi. Mun Helga fjalla um þennan dóm ásamt því að farar nánar í upprunalegu dómsskjölin og vitnisburð sakborninganna Agnesar og Sigríðar, sem ekki var hlustað á, og tengja kenningum um réttarhöld yfir konum. Þá  mun hún víkja að lýsingum á Agnesi í bókmenntum og öðrum frásögnum, allt frá Espólín til Hönnuh Kent (Burial Rites, 2013 ) þar sem segja má að Agnes sé ítrekað tekin af lífi.

Helga Kress er prófessor emeritus í bókmenntafræði við hugvísindadeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hennar er íslensk bókmenntasaga og íslensk bókmenntahefð að fornu og nýju frá kvenna- og kynjafræðilegu sjónarhorni. Hún er brautryðjandi í femínískum bókmenntarannsóknum hér á landi og einn af okkar mikilvirkustu og áhrifamestu bókmenntafræðingum.

miðvikudagur, 3. apr 2019

Ársskýrsla stjórnar Sagnfræðingafélagsins 2018-2019

Starf Sagnfræðingafélagsins hefur verið með hefðbundnu sniði á liðnu starfsári.

Sem fyrr eru hádegisfyrirlestrar félagsins veigamesti liðurinn í starfi þess. Hádegisfyrirlestrar vorannar 2018 voru helgaðir sögu byggða og bæja og voru sjö talsins.

Hjörleifur Stefánsson flutti erindi um torfbæi tómthúsmanna í Reykjavík á 19. öld, Vilhelm Vilhelmsson fjallaði um byggðasögu Borðeyrar við Hrútafjörð, Anna Dröfn Ágústsdóttir og Guðbrandur Benediktsson fjölluðu um aðferðafræði safna og vinnu sagnfræðinga við nýja grunnsýningu Sjóminjasafnsins í Reykjavík, Arnþór Gunnarsson flutti erindi um sögu Reykjavíkurflugvallar og deilur um hann, Óðinn Melsted fjallaði um umskiptin frá húshitun með olíu og kolum til jarðvarma, Íris Ellenberger fjallaði um menningarleg átök og samblöndun í Reykjavík á fyrstu áratugum 20. aldar og loks flutti Haraldur Sigurðsson erindi um tillögur að bæjarskipulagi á Íslandi 19211938 og byggingararf íslensks þéttbýlis.

Fyrir hádegisfyrirlestra haustsins 2018 var ákveðið að þemað yrði „hörmungar“, með vísun til allra þeirra erfiðleika sem settu mark sitt á fullveldisárið 1918 hundrað árum fyrr, og þótti þemað vera sérlega djarft og skemmtilegt.

Sex ólík erindi voru flutt um söguleg áföll og þrengingar: Valur Gunnarsson fjallaði um seinni heimsstyrjöldina, Guðmundur Jónsson fjallaði um orsakir hungursneyða á Íslandi, Erla Dóris Halldórsdóttir og Magnús Gottfreðsson fluttu erindi um áhrif spænsku veikinnar á barnshafandi konur á Íslandi, Atli Antonsson fjallaði um menningarsögu eldgosa á Íslandi, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir fluttu erindi um orðræður um HIV á Íslandi og loks fjallaði Vilborg Auður Ísleifsdóttir um hungursneyðir og hremmingar á 16. öld.

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins eru skipulagðir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og fara fram í fyrirlestrasal safnsins. Fyrirlestrar ársins 2018 hafa sem fyrr verið vel sóttir en einnig er greinileg eftirspurn eftir upptökunum af þeim sem settar eru inn á heimasíðu félagsins. Félagið fjárfesti í nýju upptökutæki á árinu sem mun vonandi reynast vel.

Síðasti aðalfundur Sagnfræðingafélagsins var haldinn hér í sal Þjóðskjalasafnsins þann 13. mars 2018. Að loknum aðalfundarstörfum voru kynnt tvö fræðiverk sem tilnefnd voru til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017: Stórvirkið Líftaug landsins. Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900–2010 eftir Helga Þorláksson, Önnu Agnarsdóttur, Guðmund Jónsson, Gísla Gunnarsson, Helga Skúla Kjartansson og Halldór Bjarnason, og Leitin að klaustrunum. Klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur, en fyrir bók sína hlaut Steinunn einnig Viðurkenningu Hagþenkis.

Hrafnkell Lárusson ritari gekk úr stjórninni á fundinum en í hans stað var kjörin í stjórnina Íris Gyða Guðjónsdóttir, sem síðan hefur verið ritari og skjalavörður félagsins.

Skömmu eftir aðalfundinn, þann 20. mars, stóð Sagnfræðingafélagið ásamt Sögufélagi og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands fyrir minningarþingi um Björn Þorsteinsson sagnfræðing í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli hans.

Þingið fór fram í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur. Voru þar flutt mörg stutt erindi um líf og störf Björns, veittur styrkur úr Sagnfræðisjóði dr. Björns Þorsteinssonar og loks boðið upp á léttar veitingar, en Kristín Svava Tómasdóttir, formaður Sagnfræðingafélagsins, var fundarstjóri.

Skömmu fyrir síðasta aðalfund eignaðist félagið loksins, og þótt fyrr hefði verið, eigið netfang, sagnfraedingafelagid@gmail.com, og hefur það reynst hið þægilegasta fyrirkomulag við allt utanumhald og útdeilingu verkefna.

Sú ákvörðun var síðan tekin á starfsárinu að setja áform um útgáfu rafræns fréttabréfs, sem rædd hafði verið í mörg ár innan stjórnarinnar, til hliðar, en láta frekar reyna á að virkja heimasíðu félagsins og setja ekki bara inn fréttir af viðburðum á vegum félagsins sjálfs heldur einnig af vettvangi sagnfræðinnar almennt, svo sem styrkjum og verðlaunum sem veitt eru sagnfræðingum og af framlagi sagnfræðinga til dæmis á hugvísindaþingi Háskóla Íslands. Þessum fréttum er síðan deilt jafnóðum á Facebook-síðu félagsins.

Þessi tilraun hefur gefist vel og umferð um Facebook-síðuna hefur verið meiri en áður.

Loks má nefna að Sagnfræðingafélagið hefur nú tekið höndum saman við tímaritið Sögu og ReykjavíkurAkademíuna um að endurvekja bókakvöldið vinsæla eftir nokkurra ára hlé. Það mun fara fram í sal ReykjavíkurAkademíunnar í Þórunnartúni 2 næstkomandi miðvikudag, 3. apríl klukkan 20:00, og verður þar fjallað um fimm spennandi ný sagnfræðiverk.

Við vonumst til að þetta verði upphafið bæði að farsælu áframhaldi árlegs bókakvölds og auknu samstarfi við þessa góðu samstarfsaðila.

Fjórir stjórnarmenn hverfa úr stjórn félagsins á þessum aðalfundi: Rakel Adolphsdóttir vefstjóri, Gunnar Örn Hannesson meðstjórnandi, Hjördís Erna Sigurðardóttir varaformaður og Kristín Svava Tómasdóttir formaður. Ég þakka samstarfsfólki mínu síðustu ár kærlega fyrir gott og lærdómsríkt samstarf og veit að félagið verður eftir sem áður í öruggum höndum.

Kristín Svava Tómasdóttir

Bókakvöld 3. apríl

Bókakvöld verður haldið miðvikudagskvöldið 3. apríl kl. 20:00 í sal ReykjavíkurAkademíunnar í Þórunnartúni 2, 4. hæð. Þar verður fjallað og spjallað um fimm spennandi sagnfræðiverk sem komu út á liðnu ári. Bókakvöldið er skipulagt í samvinnu Sagnfræðingafélags Íslands, tímaritsins Sögu, Sögufélags og ReykjavíkurAkademíunnar.

Dagskráin verður sem hér segir:

Kristín Ástgeirsdóttir fjallar um bók Báru Baldursdóttur og Þorgerðar H. Þorvaldsdóttur, Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi (Hið íslenska bókmenntafélag)

Hjalti Hugason fjallar um bók Sverris Jakobssonar, Kristur. Saga hugmyndar (Hið íslenska bókmenntafélag)

Þorgerður H. Þorvaldsdóttir fjallar um bók Kristínar Svövu Tómasdóttur, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar (Sögufélag)

Kaffihlé

Guðný Hallgrímsdóttir fjallar um bók Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur, Skúli fógeti. Faðir Reykjavíkur – saga frá 18. öld (JPV)

Ragnheiður Kristjánsdóttir fjallar um bók Gunnars Þórs Bjarnasonar, Hinir útvöldu. Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 2018 (Sögufélag)

Allt sagnfræðiáhugafólk er hvatt til að fjölmenna á bókakvöldið.

miðvikudagur, 27. mar 2019

Hlaðvarp/myndband: Vilhelm Vilhelmsson: „Með kærleiksmeiningar vinmælum“. Sáttanefndir og lausn deilumála á 19. öld

< ! wp:html >

< ! /wp:html >

< ! wp:heading >

< ! /wp:heading >


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Markús Þ. Þórhallsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið mth39@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins haust 2019

Miðvikudagur 11. september

Helgi Þorláksson: Þið munið hann Þorlák. Skálholt á kaþólskri tíð og lútherskri.

Þriðjudagur 24. september

Hjalti Hugason: „Jarðsett verður í heimagrafreit“. Um útfararsiði og samfélagsbreytingar.

Þriðjudagur 8. október

Rakel Edda Guðmundsdóttir: „Alt það, sem við ekkert hefir að keppa, dofnar og deyr“. Umræður og átök um guðfræði og trú, þjóðkirkju og fríkirkju á síðum íslenskra dagblaða í kringum aldamótin 1900.

Þriðjudagur 22. október

Sverrir Jakobsson: Jesús Kristur í ljósi kenninga um menningarlegt minni.

Þriðjudagur 5. nóvember

Þorsteinn Helgason: Var Tyrkjaránið trúarlegur viðburður?

Þriðjudagur 19. nóvember

Bryndís Björgvinsdóttir: Bannhelgi og náttúra: Trú á stokka og steina.

Þriðjudagur 3. desember

Haraldur Hreinsson: Kirkjuvaldsstefnan og trúarleg orðræða á þjóðveldisöld

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefjast kl. 12:05.


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com