Latest entries

fimmtudagur, 23. mar 2017

Fréttir af aðalfundi

Aðalfundur Sagnfræðingafélagsins var haldinn þriðjudagskvöldið 21. mars í fyrirlestrasal Þjóðskjalasafns Íslands. Aðalfundarstörf voru með hefðbundnum hætti og að þeim loknum héldu sagnfræðingarnir Anna Agnarsdóttir og Davíð Ólafsson áhugaverð erindi um bækur sem þau hafa nýlega gefið út á erlendri grundu.

Þó nokkur endurnýjun varð í stjórn félagsins á fundinum, en fimm af sjö stjórnarmönnum yfirgáfu stjórnina: Vilhelm Vilhelmsson formaður, Anna Dröfn Ágústsdóttir varaformaður, Guðný Hallgrímsdóttir gjaldkeri, Margrét Gunnarsdóttir ritstjóri fréttabréfs og Sumarliði Ísleifsson meðstjórnandi. Í þeirra stað voru kjörin í stjórnina sagnfræðingarnir Gunnar Örn Hannesson, Hjördís Erna Sigurðardóttir, Markús Þ. Þórhallsson, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir og Rakel Adolphsdóttir. Kristín Svava Tómasdóttir, sem áður var vefstjóri félagsins, var kjörin formaður, en Hrafnkell Lárusson er áfram ritari og skjalavörður.

Fráfarandi stjórnarmönnum er þakkað fyrir vel unnin störf og gott samstarf á liðnum árum.

miðvikudagur, 22. mar 2017

Hlaðvarp: Vilhelm Vilhelmsson: Hrói höttur íslands? Ísleifur seki Jóhannesson og glæpaaldan í Langadal á öndverðri 19. öld

miðvikudagur, 15. mar 2017

Hádegisfyrirlestur 21. mars: Hrói höttur íslands? Ísleifur seki Jóhannesson og glæpaaldan í Langadal á öndverðri 19. öld

Þriðjudaginn 21. mars flytjur Vilhelm Vilhelmsson erindið „Hrói höttur íslands? Ísleifur seki Jóhannesson og glæpaaldan í Langadal á öndverðri 19. öld.” Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.

Ísleifur Jóhannesson frá Breiðavaði í Langadal, sem í samtíma sínum bar viðurnefnið „seki“, var þjóðsagnapersóna í lifanda lífi á fyrstu áratugum 19. aldar. Jafnvel andlát hans varð tilefni reyfarakennda flökkusagna, en hann endaði ævi sína í rasphúsinu í Kaupmannahöfn þar sem hann fyrirfór sér árið 1829 brennimerktur og marghýddur fyrir þjófnaði og önnur afbrot. Honum var lýst sem glæsi- og þróttmenni sem sneri á ráðamenn og hæddist að þeim. Seinni tíma menn hafa jafnvel líkt honum við Hróa hött. En hver var þessi Ísleifur og um hvað var hann sekur? Í erindinu verður fjallað um Ísleif og afbrot hans og velt vöngum yfir því hvað fólst í því að vera á jaðri íslensks samfélags á þeim tíma sem hann var uppi. Jafnframt verður fjallað um hvernig ímynd jaðarsettra einstaklinga tekur breytingum þegar frá líður og þeir öðlast sess í söguvitund landsmanna sem táknmynd um samfélagsgerð fyrri tíma.

Vilhelm Vilhelmsson (f. 1980) er doktor í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hann er sjálfstætt starfandi fræðimaður, stundakennari við Háskóla Íslands og annar af tveimur ritstjórum Sögu, tímarits Sögufélags.

fimmtudagur, 9. mar 2017

Aðalfundur Sagnfræðingafélagsins 21. mars

Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands verður haldinn þriðjudaginn 21. mars næstkomandi kl. 20:00 í fyrirlestrasal Þjóðskjalasafns Íslands, Laugavegi 162 (gengið inn úr portinu). Að fundinum loknum verður boðið upp á léttar veitingar.

Dagskrá fundarins:

1. Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar.
2. Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar.
3. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
4. Kjör stjórnar. Kjör tveggja endurskoðenda reikninga
5. Önnur mál

Að loknum aðalfundarstörfum, eða kl. 20:30, munu Anna Agnarsdóttir og Davíð Ólafsson kynna sagnfræðileg rit sem þau hafa nýlega gefið út á erlendri grundu. Anna ræðir útgáfu sína á skjölum frá náttúrufræðingnum og Íslandsvininum Sir Joseph Banks, sem komu út hjá The Hakluyt Society í Bretlandi undir titlinum Sir Joseph Banks, Iceland and the North Atlantic 1772-1820. Journals, Letters and Documents. Davíð Ólafsson segir frá bók sinni og Sigurðar Gylfa Magnússonar, Minor Knowledge and Microhistory. Manuscript Culture in the Nineteenth Century, sem kom út hjá Routledge, en þar setja þeir bókmenningu íslensks alþýðufólks á 19. öld í samhengi við nýjustu alþjóðlegar rannsóknir á handritamenningu eftir prentvæðingu.

Stjórnin.

Hlaðvarp: Gunnar Karlsson: Ísland sem jaðarsvæði evrópskrar miðaldamenningar

þriðjudagur, 28. feb 2017

Hádegisfyrirlestur 7. mars: Ísland sem jaðarsvæði evrópskrar miðaldamenningar

Þriðjudaginn 7. mars flytur Gunnar Karlsson erindið „Ísland sem jaðarsvæði evrópskrar miðaldamenningar.“ Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Íslendingar bjuggu, ásamt Grænlendingum, á ysta jaðri evrópskrar miðaldamenningar. Hvernig stóð á því að þeir sköpuðu bókmenntir sem hafa orðið einna lífseigastar allra evrópskra miðaldabókmennta? í erindinu verður bent á að elstu vitnisburðir um sérstöðu Íslendinga á bókmenntasviði snúast um þekkingu þeirra á fornum fræðum um Norðurlandamenn. Stungið er upp á því að Íslendingar hafi tekið að sér að varðveita slíkan fróðleik eftir kristnitöku vegna þess að stuðlaður kveðskapur, sem hafði verið nýttur til að varðveita fróðleik um afrek konunga, hefði verið illa séður í konungsríkjum Norðurlanda vegna þess að hann þótti tengjast heiðnu helgihaldi. Vegna þess að Íslendingar voru á jaðri menningarinnar og tilheyrðu engu konungsríki náði bannið ekki til þeirra og þeir fengu það hlutverk að vera gæslumenn fróðleiks um konunga. Síðar kom fleira til; af því að konungsvald náði ekki til Íslands og ekkert opinbert refsivald var til neyddust Íslendingar til að halda ófriði í skefjum með flóknu kerfi málamiðlana, gerðardóma og sátta. Má líta á Íslendingasögur sem rannsóknir á þess konar samfélagi.

Gunnar Karlsson, prófessor emeritus, er upphaflega íslenskufræðingur með Íslandssögu sem kjörsvið. Hann var lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands 1976–80 og prófessor í sömu grein til starfsloka 2009.

þriðjudagur, 21. feb 2017

Hlaðvarp: Úlfar Bragason: „Ég viðurkenni ekki tískuna, að „frjósa menn út“

þriðjudagur, 14. feb 2017

Hádegisfyrirlestur 21. febrúar: „Ég viðurkenni ekki tískuna, að „frjósa menn út““. Óþægilegar skoðanir þaggaðar

Þriðjudaginn 21. febrúar flytjur Úlfar Bragason erindið „Ég viðurkenni ekki tískuna, að „frjósa menn út““. Óþægilegar skoðanir þaggaðar. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.

Jón Halldórsson, sem kenndi sig við Stóruvelli í Bárðardal (1838–1919), var meðal fyrstu Íslendinganna sem fluttust vestur um haf og gerðust landnemar í Ameríku. Í bókinni Atriði ævi minnar (2005) safnaði fyrirlesarinn saman úrvali bréfa og greina sem Jón Halldórsson lét eftir sig. Frelsi, menning, framför, voru einkunnarorð félags Íslendinga í Vesturheimi sem stofnað var í Milwaukee, 2. ágúst 1874. Skrif Jóns eru kennslubók í lýðræðislegum skoðanaskiptum og orðræða um frelsi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um gagnrýni Jóns á landnám Íslendinga í Nýja Íslandi og á íslenskt bændasamfélag á 19. öld og þau heiftarlegu viðbrögð sem hann fékk við gagnrýninni.

Úlfar Bragason er rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum síðan 2006. Stofustjóri alþjóðasviðs stofnunarinnar. Hann var áður forstöðumaður Stofnunar Sigurðar Nordals 1988-2006. Hann kenndi við University of Chicago 1986-1987 og lauk doktorsprófi frá University of California, Berkeley 1986. Ritgerð hans fjallaði um frásagnarfræði Sturlunga sögu. Rannsóknir hans beinast að fornsögum, flutningum Íslendinga til Vesturheims og íslenskri menningu

Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

þriðjudagur, 7. feb 2017

Hlaðvarp: Markús Þórhallsson: „Hausavíxl á sýslumanni og sálusorgara“

þriðjudagur, 31. jan 2017

Hádegisfyrirlestur 7. febrúar: „Hausavíxl á sýslumanni og sálusorgara“. Trúfrelsi og fyrsta borgaralega hjónavígslan á Íslandi

Þriðjudaginn 7. febrúar flytur Markús Þ. Þórhallsson erindið „„Hausavíxl á sýslumanni og sálusorgara“. Trúfrelsi og fyrsta borgaralega hjónavígslan á Íslandi“ á vegum Sagnfræðingafélags Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Þau óvanalegu tíðindi að sýslumaður hefði gefið saman hjón skömmu eftir tilurð „frelsisskrár úr föðurhendi“; íslensku stjórnarskrárinnar 1874, vöktu nokkra furðu. Hjónavígslur höfðu eingöngu verið í verkahring kirkjunnar þjóna fram að því og undrun manna yfir þessu vinnulagi því mikil. Ekki að ósekju sennilega. Þetta mun vera fyrsta borgaralega hjónavígsla Íslandssögunnar og hjónin voru sannarlega á jaðri íslensks samfélags, Mormónapar búsett í Vestmannaeyjum. Trúboðar Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu höfðu enda mætt mikilli mótstöðu af hálfu geistlegra og veraldlegra yfirvalda sem sögðu þá boða villutrú sem ógnaði grundvelli kristinnar kirkju. Saga þeirra hjóna, Magnúsar Kristjánssonar og Þuríðar Sigurðardóttur, verður rakin í þessu erindi og m.a. sett í samhengi við hugmyndir nítjándu aldar manna um trúfrelsi.

Markús Þ. Þórhallsson er meistaranemi í sagnfræði og er að ljúka diplómanámi í fjölmiðla- og boðskiptafræði. Hann stjórnar morgunútvarpi á Útvarpi Sögu meðfram vinnu við meistararitgerð.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Kristínu Svövu Tómasdóttur, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið kristinsvava@gmail.com

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins

19. september
Kristín Bragadóttir: Íslenskar bækur erlendis. Bókasöfnun Willards Fiskes (1831–1904)

3. október
Markús Þórhallsson: Til varnar Íslandi. Saga InDefence hópsins 2008-2013

17. október
Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Bankahrunið í sögulegu ljósi

31. október
Pontus Järvstad: Fasismi og arfleifð evrópskrar nýlendustefnu. Áhrif útþenslustefnu stórveldanna á fasíska hugmyndafræði og framkvæmd

14. nóvember
Ólína Þorvarðardóttir: Gullkistan Djúp. Þróun byggðar og mannlífs við Ísafjarðardjúp

28. nóvember
Sólveig Ólafsdóttir: Rosenwein og Reddy. Fræðilegar samræður um sögulegar tilfinningar

12. desember
Þorsteinn Vilhjálmsson: „Að hafa svo mikið upp úr lífinu sem auðið er“. Ólafur Davíðsson og hinsegin rými innan Lærða skólans á 19. öld

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com