Latest entries

föstudagur, 27. okt 2017

Hádegisfyrirlestur 31. október: Fasismi og arfleifð evrópskrar nýlendustefnu. Áhrif útþenslustefnu stórveldanna á fasíska hugmyndafræði og framkvæmd

Þriðjudaginn 31. október flytur Pontus Järvstad erindið „Fasismi og arfleifð evrópskrar nýlendustefnu. Áhrif útþenslustefnu stórveldanna á fasíska hugmyndafræði og framkvæmd“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram á ensku í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fjórði fyrirlestur þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Fyrirlestur Pontusar er byggður á MA-ritgerð hans í sagnfræði, þar sem hann fjallar um sögulega samfellu nýlendustefnu og fasisma í Evrópu. Fræðimenn eru ekki sammála um það hvernig skuli skilgreina fasisma, hvort líta skuli á hann sem heildstæða hugmyndafræði eða fyrst og fremst sem stjórnkerfi. Flestir eru þó sammála um að hann sé andstæður lýðræði og fjölbreytileika. Því er oft lýst þannig að fasistar hafni máttarstólpum vestrænnar menningar, sem sé byggð á arfleifð upplýsingar og frjálslyndisstefnu. Þá er hins vegar litið framhjá tengslum þessara „máttarstólpa“ við evrópska nýlendustefnu. Þeirri mynd er oft brugðið upp af fasismanum að hann hafi komið „að utan“. Fasismi millistríðsáranna var hins vegar ekki aðeins nýlunda fyrir fólki á þeim tíma heldur var hann einnig að mörgu leyti kunnuglegur, enda byggði hann á hugmyndalegri samfellu nýlendustefnunnar.

Pontus Järvstad er með meistaragráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og byggir fyrirlesturinn á lokaverkefni hans. Pontus leggur nú stund á að taka kennsluréttindin og er að skrifa bókarkafla um andfasisma á Íslandi sem er hluti samnorræns rannsóknarverkefnis.

miðvikudagur, 18. okt 2017

Hlaðvarp/myndband: Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Bankahrunið í sögulegu ljósi

föstudagur, 13. okt 2017

Hádegisfyrirlestur 17. október: Bankahrunið 2008 í sögulegu ljósi

Þriðjudaginn 17. október flytur Hannes Hólmsteinn Gissurarson erindið „Bankahrunið 2008 í sögulegu ljósi“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er þriðji fyrirlestur þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Í fyrirlestri sínum beinir Hannes H. Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor sjónum að þeim lærdómum, sem Íslendingar geta dregið af bankahruninu 2008 um stöðu sína í heiminum. Ísland var þá skilið eftir úti í kuldanum. Evrópskir seðlabankastjórar sammæltust um það í maíbyrjun 2008 að veita íslenska seðlabankanum ekki aðgang að lausafé. Bandarískir ráðamenn höfðu misst áhuga á Íslandi, enda töldu þeir hernaðargildi landsins allt að því horfið. Tveir skoskir stjórnmálamenn, Gordon Brown og Alistair Darling, þurftu óvin til að sýna, hversu harðir þeir væru í horn að taka, en jafnframt til að leiða athygli frá því, að þeir voru að bjarga tveimur illa stöddum skoskum stórbönkum, og ekki síður til að sýna Skotum, hversu illa færi, yrðu þeir sjálfstæðir.

Ísland virtist 2008 aftur vera komið á þann stað, sem það skipaði öldum saman: Danakóngur reyndi fjórum sinnum að selja landið, en enginn vildi kaupa, og danska stjórnin velti einu sinni fyrir sér að skipta á Íslandi og Norður-Slésvík; Svíakóngur hafði ekki fyrir því, þegar hann tók Noreg af Dönum 1814, að krefjast Íslands með, þótt það væri fornt norskt skattland; Bretastjórn hafnaði mörgum hugmyndum á 18. og 19. öld um að taka Ísland; hugmyndir um kaup á Íslandi voru hlegnar niður í Bandaríkjaþingi 1868. Í bankahruninu veittu Norðurlandaþjóðirnar Íslendingum ekki heldur neinn stuðning. Einu vinir Íslendinga í raun voru Færeyingar og Pólverjar.

Hannes H. Gissurarson lauk BA-prófum í sagnfræði og heimspeki og cand. mag. prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands og doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla. Hann hefur undanfarin ár fengist við rannsóknir á bankahruninu og er að ljúka skýrslu fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti þess. Hann hefur í því sambandi rætt við marga innlenda og erlenda áhrifamenn, þar á meðal Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, Davíð Oddsson, Ingimund Friðriksson og Eirík Guðnason, fyrrv. seðlabankastjóra, Alistair Darling, fyrrv. fjármálaráðherra Breta, Mervyn King, fyrrv. seðlabankastjóra Breta, og Stefan Ingves, seðlabankastjóra Svíþjóðar.

föstudagur, 29. sep 2017

Hádegisfyrirlestur 3. október: Til varnar Íslandi. Saga InDefence hópsins 2008-2013

Þriðjudaginn 3. október flytur Markús Þ. Þórhallsson erindið „Til varnar Íslandi. Saga InDefence hópsins 2008-2013“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er annar fyrirlestur þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Icesave deilan setti mark sitt á íslenskt samfélag um árabil. Hrun fjármálakerfisins og afleiðingar þess urðu til þess að InDefence hópurinn var stofnaður. Tilurð hópsins og tilgangur voru rannsökuð, hverjir voru meðlimir og hvaða hlutverk hver og einn hafði innan hans. Sú kenning var gaumgæfð að þeir hafi litið á sig sem frelsishetjur samtímans í rómantískum anda 19. aldarinnar. Þjóðernisleg orðræða þeirra var skoðuð og gagnrýni sem þeir fengu úr ýmsum áttum og efasemdir um heilindi þeirra. Hópurinn samanstóð af fólki sem flest hefur gráðu frá erlendum háskólum. Það hefur verið álitinn mesti munurinn á InDefence og öðrum grasrótarhópum.

Hver réð og hvernig voru ákvarðanir teknar? Raktar eru ástæður þess að farið var af stað í áróðursstríð eftir að Bretar beittu hryðjuverkalögum og ferðin til Westminster sem færði þeim óvenjulegt tilboð. Barátta InDefence gegn Icesave-samningunum, aðkoma þeirra að þjóðaratkvæðagreiðslum og samskipti þeirra við alla aðila málsins eru gaumgæfð.

InDefence-hópnum var fylgt til ársins 2013 þegar niðurstaða EFTA dómsstólsins lá fyrir, þó hópurinn sé enn til.

Markús Þ. Þórhallsson er með meistaragráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og byggir fyrirlesturinn á lokaverkefni hans. Markús leggur nú stund á meistaranám í frétta- og blaðamennsku og stjórnar einnig morgunútvarpi á Útvarpi Sögu.

þriðjudagur, 19. sep 2017

Hádegisfyrirlestur 19. september: Íslenskar bækur erlendis. Bókasöfnun Willards Fiskes (1831–1904)

Þriðjudaginn 19. september flytur Kristín Bragadóttir erindið „Íslenskar bækur erlendis. Bókasöfnun Willards Fiskes (1831–1904)”. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fyrsti fyrirlestur þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Erindi Kristínar fjallar um efni doktorsritgerðar hennar í sagnfræði, „Íslenskar bækur erlendis. Bókasöfnun Willards Fiskes (1831–1904)“, sem hún varði sumarið 2017. Ritgerðin er menningarsöguleg og bóksöguleg rannsókn á söfnun Bandaríkjamannsins Willards Fiskes á íslenskum og Íslands-tengdum ritum á árunum 1850 til 1904. Safn Fiskes er þriðja stærsta safn íslenskra rita á eftir Landsbókasafni Íslands og Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Einnig er fjallað um tengslanet Fiskes við Íslendinga, og styðst Kristín þar mjög við bréf Fiskes til Íslendinga og frá Íslendingum til hans.

Kristín Bragadóttir er íslenskufræðingur og sagnfræðingur. Hún er með doktorsgráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er bóksaga. Hún er sjálfstætt starfandi fræðimaður.

sunnudagur, 11. jún 2017

Kveðja til Önnu Agnarsdóttur frá Sagnfræðingafélagi Íslands

Eftirfarandi erindi hélt Kristín Svava Tómasdóttir fyrir hönd Sagnfræðingafélagsins á málþingi til heiðurs Önnu Agnarsdóttur sjötugri, sem haldið var af Sögufélagi og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands þann 13. maí sl.

Heiðraða samkoma, forsetar, Anna Agnarsdóttir

Það er Sagnfræðingafélagi Íslands mikil ánægja að taka þátt í því að heiðra prófessor Önnu Agnarsdóttur á þessum tímamótum. Við sem sitjum í stjórn félagsins erum mörg hver fyrrum nemendur Önnu og vitum hversu sárt hennar verður saknað við sagnfræðideild Háskóla Íslands, enda er leitun að þeim fræðimanni sem miðlar sögunni á jafn heillandi og skemmtilegan hátt. Okkar framlag hér í dag felst þess vegna í hugmyndum að því sem Anna gæti tekið sér fyrir hendur þjóðinni til heilla þegar hún hefur hætt störfum við Háskólann.

Við leggjum til að Anna taki að sér að stýra röð sjónvarpsþátta um sérsvið sitt, tengsl Íslands og umheimsins, og þá einkum Bretaveldis, á 18. og 19. öld. Það yrði í formi ferðaþátta þar sem Anna fetaði í fótspor erlendra ferðamanna á Íslandi. Hún myndi fara þangað sem þeir fóru, gista þar sem þeir gistu, borða það sem þeir borðuðu og hitta þá sem þeir hittu. Read more »

fimmtudagur, 20. apr 2017

Kallað eftir erindum: Hádegisfyrirlestrar haustið 2017

Sagnfræðingafélag Íslands kallar eftir tillögum að erindum fyrir hádegisfyrirlestraröð félagsins á haustmisseri 2017, en hádegisfyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.

Fyrirlestraröðin verður helguð nýjum rannsóknum í sagnfræði og er það von félagsins að fyrirlestrarnir geti sýnt fram á þann fjölbreytileika og grósku sem einkennir íslenskar sagnfræðirannsóknir. Allir sagnfræðingar sem leggja stund á rannsóknir, hvort sem um er að ræða framhaldsnema í sagnfræði eða margreynda fræðimenn, eru hvattir til að senda inn erindi og nýta tækifærið til að kynna viðfangsefni sín.

Tillögur skulu sendar til Kristínar Svövu Tómasdóttur á netfangið kst3@hi.is eða kristinsvava@gmail.com. Skilafrestur er til 20. maí.

þriðjudagur, 18. apr 2017

Hlaðvarp: Ragnhildur Hólmgeirsdóttir: Á jaðri hins pólitíska valds? Norskar drottningar á miðöldum

mánudagur, 10. apr 2017

Hádegisfyrirlestur 18. apríl: Á jaðri hins pólitíska valds? Norskar drottningar á miðöldum

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir heldur síðasta hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélagsins á vormisseri þriðjudaginn 18. apríl, og kallast hann „Á jaðri hins pólitíska valds? Norskar drottningar á miðöldum”. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands, en hádegisfyrirlestrarnir eru skipulagðir í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Kóngafólk er varla sá samfélagshópur sem fyrst kemur upp í hugann þegar rætt er um jaðar samfélagsins. En þó drottningar á miðöldum hafi staðið nærri miðju pólitískra valda voru þær sakir kyns síns jaðarsettar. Þær hafa síðan fallið á milli tveggja sviða í fræðimennsku. Þeir sem rannsaka miðaldastjórnmál og þróun konungsvalds hafa oft lítinn áhuga eða þekkingu á kvennasögu á meðan fræðimenn á sviði kynjasögu hafa takmarkaðan áhuga á lífshlaupi einstaklinga úr efsta lagi samfélagsins. Saga norskra drottninga veitir engu að síður einstakt sjónarhorn á stöðu norrænna kvenna yfir lengra tímabil en íslenskar heimildir gefa kost á. Í fyrirlestrinum verður fjallað um muninn á pólitískum áhrifum og völdum og að hve miklu leyti þessar konur falli undir þær skilgreiningar. Á hverju byggðust áhrif þeirra og völd, hvaða breytingar urðu á þeim á tímabilinu og hverra hagsmunir réðu þar för?

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir er sagnfræðingur og rithöfundur. Hún útskrifaðist með meistaragráðu í miðaldafræðum frá Háskóla Íslands 2015.

þriðjudagur, 4. apr 2017

Hlaðvarp: Unnur Birna Karlsdóttir: Öræfabörn. Viðhorf til hreindýra á Íslandi á 18. og 19. öld

Vegna tæknilegra vandamála vantar 3-4 mínútur aftan á upptökuna af fyrirlestri Unnar Birnu, og biðjumst við velvirðingar á því.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Kristínu Svövu Tómasdóttur, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið kristinsvava@gmail.com

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins vor 2018

23. janúar
Hjörleifur Stefánsson: Torfhúsabærinn Reykjavík. Híbýli tómthúsmanna á 19. öldinni

6. febrúar
Vilhelm Vilhelmsson: Brothætt frá upphafi. Byggðarsaga Borðeyrar við Hrútafjörð

20. febrúar
Anna Dröfn Ágústsdóttir og Guðbrandur Benediktsson: Sagan á sýningu? Um aðferðafræði safna og vinnu sagnfræðinga við miðlun sögu á Sjóminjasafninu í Reykjavík

6. mars
Arnþór Gunnarsson: Reykjavíkurflugvöllur. Flugvallarmálið fram að atkvæðagreiðslunni um framtíð flugvallarins árið 2001

20. mars
Óðinn Melsted: Umskiptin frá húshitun með olíu og kolum til jarðvarma 1930–1980

3. apríl
Íris Ellenberger: Delludanska, toddýsgildi og verkamenn moldugir frá verki sínu. Mót, átök og samblöndun menningar í Reykjavík 1900–1920

17. apríl
Haraldur Sigurðsson: „Húsin sem eiga að standa“. Tillögur að bæjarskipulagi 1921-1938 og byggingararfur íslensks þéttbýlis

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com