Latest entries

fimmtudagur, 1. feb 2018

Hlaðvarp/myndband: Hjörleifur Stefánsson: Torfhúsabærinn Reykjavík. Híbýli tómthúsmanna á 19. öldinni

föstudagur, 19. jan 2018

Hádegisfyrirlestur 23. janúar: Torfhúsabærinn Reykjavík. Híbýli tómthúsamanna á 19. öldinni

Þriðjudaginn 23. janúar flytur Hjörleifur Stefánsson erindið „Torfhúsabærinn Reykjavík. Híbýli tómthúsamanna á 19. öldinni“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fyrsti fyrirlestur vormisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Í útdrætti erindisins segir: Sú byggingarsaga Reykjavíkur fram til byrjunar 20. aldar sem er aðgengileg almenningi fjallar að mestu leyti um húsakost og híbýli þeirra sem bjuggu við best kjör, verslunarmenn og embættismenn. Engu að síður bjó meira en helmingur íbúa Reykjavíkur í torfhúsum fram undir aldamótin 1900 og segir fátt af þeim. Gerð verður grein fyrir heimildum um torfhúsabyggð í Reykjavík frá upphafi fram til miðrar 18. aldar og skýrður munur á húsakosti leiguliða og bænda. Fjallað verður ítarlega um híbýlahætti tómthúsmanna og hvernig þeir þróuðust á seinni hluta 19. aldar út torfhúsum í steinbæi. Sýndar verða ljósmyndir og teikningar af öllum húsagerðum eftir því sem heimildir gefa tilefni til.

Hjörleifur Stefánsson er arkitekt að mennt og hefur mestallan sinn starfsferil rekið eigin teiknistofu og unnið að verkefnum sem tengjast varðveislu byggingararfs. Um skeið var hann sviðsstjóri útiminjasviðs Þjóðminjasafns Íslands. Hann hefur skrifað nokkrar bækur um byggingarsögu auk bókar um staðaranda Reykjavíkur og siðfræði byggingarlistar.

sunnudagur, 31. des 2017

Hlaðvarp/myndband: Þorsteinn Vilhjálmsson: Að hafa svo mikið upp úr lífinu sem auðið er Ólafur Davíðsson og hinsegin rými innan Lærða skólans á 19. öld

Hlaðvarp/myndband: Sólveig Ólafdóttir: Rosenwein og Reddy. Fræðilegar samræður um sögulegar tilfinningar

Hlaðvarp/myndband: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir: Gullkistan Djúp. Þróun byggðar og mannlífs við Ísafjarðardjúp

föstudagur, 8. des 2017

Hádegisfyrirlestur 12. desember: „Að hafa svo mikið upp úr lífinu sem auðið er“: Ólafur Davíðsson og hinsegin rými innan Lærða skólans á 19. öld

Þriðjudaginn 12. desember flytur Þorsteinn Vilhjálmsson erindið „„Að hafa svo mikið upp úr lífinu sem auðið er“: Ólafur Davíðsson og hinsegin rými innan Lærða skólans á 19. öld“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er sjöundi og síðasti fyrirlestur þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Þorsteinn mun fjalla um dagbækur Ólafs Davíðssonar (1862 – 1903), grasafræðings og þjóðsagnasafnara, frá námsárum hans í Reykjavík og Kaupmannahöfn, en þær eru skráðar með hléum milli 1881 og 1884. Þær eru merkar heimildir um samkynja ástir, hvort sem er í íslensku samhengi eða alþjóðlegu, en Ólafur lýsir þar sambandi sínu við samnemanda sinn í Lærða skólanum, Geir Sæmundsson (1867 – 1927). Þorsteinn mun nota dagbækurnar auk bréfa Ólafs til vina hans til að búa til mynd af því rými sem Ólafur hrærðist í og fóstraði samband hans við Geir útfrá kenningum franska heimspekingsins Michel Foucault um annarleg rými eða staðbrigði (fr. hétérotopies). Heimavistarskólar, svo sem Lærði skólinn, eru einmitt meðal dæma Foucaults um slík undantekningarrými í samfélaginu þar sem viðmið og venjur missa mátt sinn og athafnarýmið víkkar. Þannig má skilja Lærða skólann sem það sem hinsegin fræði kalla hinsegin rými (e. queer space); stað þar sem var opnað á myndun öðruvísi kynferðislegra tengsla en annars leyfðust í íslensku sveitasamfélagi, sem undir lok 19. aldar stóð á krossgötum.

Þorsteinn Vilhjálmsson (f. 1987) er þýðandi og sjálfstætt starfandi fræðimaður með meistaragráðu í klassískum viðtökufræðum frá Háskólanum í Bristol. Hann hlaut nýlega rannsóknarstyrk frá RANNÍS til að skoða dagbækur Ólafs Davíðssonar og búa til útgáfu og byggir fyrirlesturinn á þeirri rannsókn.

föstudagur, 24. nóv 2017

Hádegisfyrirlestur 28. nóvember: Rosenwein og Reddy. Fræðilegar samræður um sögulegar tilfinningar

Saga tilfinninga er funheitt rannsóknarsvið í sagnfræði og það er jafnvel farið að tala um „the Emotional Turn“ sambærilegt við „the Linguistic Turn“ og fleiri slíkar vendingar síðustu aldar í hugvísindum. Innan rannsóknarsviðsins eru átök og togstreita meðal fræðimanna eins og tíðkast í fræðaheiminum og verða að kallast afar tempruð og kurteis miðað við ýmislegt sem t.d. íslensk sagnfræði hefur kynnst. Sjálf átökin og birtingarmynd þeirra milli kenningargrunna, viðhorfa og sjónarhorna geta samt varpað ljósi á hvað raunverulega er verið að þrasa um.

Í fyrirlestrinum verður saga sögu tilfinninganna rakin í grófum dráttum og bornar saman hugtakaskilgreiningar og áherslur tveggja stórvelda í þessari sögu, þeirra William Reddy og Barböru Rosenwein. Þau hafa bæði þróað kenningar sínar á löngum tíma og síðan gefið út bækur sem eru afrakstur þeirrar þróunar, Reddy árið 2001 og Rosenwein árið 2015.

Helstu hugtök Reddy sem verða til umfjöllunar eru þessi: „Emotives“; „Emotional Navigation“; „Emotional Regime“ og loks „Emotional Refuge“. Hugarsmíðar Rosenwein eru hins vegar eftirfarandi: „Emotional comunities“ og „Emotional words“ og „Emotional Sequenses“.

Heimildaflokkar þeir sem rannsóknir þeirra tveggja byggja á eru afar ólíkir. Reddy byggir í bók sinni mikið á sögu stjórnskipunar í Frakklandi á átjándu og nítjándu öld. Rosenwein rýnir í evrópska miðaldatexta. Því ert vert að spyrja hvort val á þessum mismunandi heimildaflokkum geti varpað ljósi á mismunandi nálgun þeirra á tilfinningar í fortíðinni.

Sólveig Ólafdóttir er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hún er þátttakandi í rannsóknarverkefninu Disability before Disability (Fötlun fyrir tíma fötlunar) sem fékk öndvegisstyrk frá RANNÍS á þessu ári. Sólveig er með MA gráðu í sagnfræði frá HÍ og aðra MA gráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Hún var framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar á árunum 2010 til 2015.

fimmtudagur, 23. nóv 2017

Kallað eftir erindum: Hádegisfyrirlestrar vorið 2018

Sagnfræðingafélag Íslands kallar eftir tillögum að erindum fyrir hádegisfyrirlestraröð félagsins á vormisseri 2018. Hádegisfyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.

Fyrirlestraröðin að þessu sinni verður helguð sögu þéttbýlis, borga og bæja. Eru allir fræðimenn sem hafa eitthvað fram að færa á því sviði hvattir til að senda inn tillögu, hvort sem þeir leggja stund á byggðasögu sem slíka eða horfa á efnið frá sjónarhorni til dæmis kynjasögu, hagsögu, tæknisögu eða verkalýðssögu, svo fátt eitt sé nefnt.

Tillögur skulu sendar til Kristínar Svövu Tómasdóttur á netfangið sagnfraedingafelagid@gmail.com. Skilafrestur á tillögum er til 27. nóvember.

föstudagur, 10. nóv 2017

Hádegisfyrirlestur 14. nóvember: Gullkistan Djúp. Þróun byggðar og mannlífs við Ísafjarðardjúp

Þriðjudaginn 14. nóvember flytur Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir erindið „Gullkistan Djúp. Þróun byggðar og mannlífs við Ísafjarðardjúp“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fimmti fyrirlestur þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Ísafjarðardjúp hefur stundum verið nefnt Gullkistan vegna þeirra miklu náttúrugæða sem þar er að hafa, ekki síst verðmæta fiskveiðiauðlind. Við Ísafjarðardjúp hafa búið höfðingjar og stjórbændur um aldur og þar reis eitt stærsta verslunarveldi á Íslandi um miðja 19du öld. Á síðustu áratugum hafa þó orðið mikil umskipti á aðstæðum og atvinnuskilyrðum við Ísafjarðardjúp þar sem sveitir hafa lagst í eyði og fólksfækkun verið viðvarandi bæði í sveitum og þétttbýli. Dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir er höfundur bókarinnar "Við Djúpið blátt" sem er Árbók Ferðafélags Íslands 2017 og fjallar meðal annars um þróun byggðar og mannlífs á þessum slóðum. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir efni bókarinnar og leitast við að varpa ljósi á orsakir þeirrar þróunar sem greina má á mannlífi og menningu við Djúp.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir lauk doktorsprófi í íslenskum bókmenntum árið 2000 með ritgerðinni Brennuöldin – galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Hún hefur haldið fyrirlestra, skrifað fræðigreinar og bækur mörg undanfarin ár. Nýjasta bók hennar Við Djúpið blátt fjallar um byggð, mannlíf og sögu við Ísafjarðardjúp sem er efni hádegisfyrirlestrar hennar að þessu sinni.

föstudagur, 27. okt 2017

Hádegisfyrirlestur 31. október: Fasismi og arfleifð evrópskrar nýlendustefnu. Áhrif útþenslustefnu stórveldanna á fasíska hugmyndafræði og framkvæmd

Þriðjudaginn 31. október flytur Pontus Järvstad erindið „Fasismi og arfleifð evrópskrar nýlendustefnu. Áhrif útþenslustefnu stórveldanna á fasíska hugmyndafræði og framkvæmd“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram á ensku í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fjórði fyrirlestur þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Fyrirlestur Pontusar er byggður á MA-ritgerð hans í sagnfræði, þar sem hann fjallar um sögulega samfellu nýlendustefnu og fasisma í Evrópu. Fræðimenn eru ekki sammála um það hvernig skuli skilgreina fasisma, hvort líta skuli á hann sem heildstæða hugmyndafræði eða fyrst og fremst sem stjórnkerfi. Flestir eru þó sammála um að hann sé andstæður lýðræði og fjölbreytileika. Því er oft lýst þannig að fasistar hafni máttarstólpum vestrænnar menningar, sem sé byggð á arfleifð upplýsingar og frjálslyndisstefnu. Þá er hins vegar litið framhjá tengslum þessara „máttarstólpa“ við evrópska nýlendustefnu. Þeirri mynd er oft brugðið upp af fasismanum að hann hafi komið „að utan“. Fasismi millistríðsáranna var hins vegar ekki aðeins nýlunda fyrir fólki á þeim tíma heldur var hann einnig að mörgu leyti kunnuglegur, enda byggði hann á hugmyndalegri samfellu nýlendustefnunnar.

Pontus Järvstad er með meistaragráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og byggir fyrirlesturinn á lokaverkefni hans. Pontus leggur nú stund á að taka kennsluréttindin og er að skrifa bókarkafla um andfasisma á Íslandi sem er hluti samnorræns rannsóknarverkefnis.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Kristínu Svövu Tómasdóttur, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið kristinsvava@gmail.com

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins vor 2018

23. janúar
Hjörleifur Stefánsson: Torfhúsabærinn Reykjavík. Híbýli tómthúsmanna á 19. öldinni

6. febrúar
Vilhelm Vilhelmsson: Brothætt frá upphafi. Byggðarsaga Borðeyrar við Hrútafjörð

20. febrúar
Anna Dröfn Ágústsdóttir og Guðbrandur Benediktsson: Sagan á sýningu? Um aðferðafræði safna og vinnu sagnfræðinga við miðlun sögu á Sjóminjasafninu í Reykjavík

6. mars
Arnþór Gunnarsson: Reykjavíkurflugvöllur. Flugvallarmálið fram að atkvæðagreiðslunni um framtíð flugvallarins árið 2001

20. mars
Óðinn Melsted: Umskiptin frá húshitun með olíu og kolum til jarðvarma 1930–1980

3. apríl
Íris Ellenberger: Delludanska, toddýsgildi og verkamenn moldugir frá verki sínu. Mót, átök og samblöndun menningar í Reykjavík 1900–1920

17. apríl
Haraldur Sigurðsson: „Húsin sem eiga að standa“. Tillögur að bæjarskipulagi 1921-1938 og byggingararfur íslensks þéttbýlis

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com