Latest entries

fimmtudagur, 9. mar 2017

Hlaðvarp: Gunnar Karlsson: Ísland sem jaðarsvæði evrópskrar miðaldamenningar

þriðjudagur, 28. feb 2017

Hádegisfyrirlestur 7. mars: Ísland sem jaðarsvæði evrópskrar miðaldamenningar

Þriðjudaginn 7. mars flytur Gunnar Karlsson erindið „Ísland sem jaðarsvæði evrópskrar miðaldamenningar.“ Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Íslendingar bjuggu, ásamt Grænlendingum, á ysta jaðri evrópskrar miðaldamenningar. Hvernig stóð á því að þeir sköpuðu bókmenntir sem hafa orðið einna lífseigastar allra evrópskra miðaldabókmennta? í erindinu verður bent á að elstu vitnisburðir um sérstöðu Íslendinga á bókmenntasviði snúast um þekkingu þeirra á fornum fræðum um Norðurlandamenn. Stungið er upp á því að Íslendingar hafi tekið að sér að varðveita slíkan fróðleik eftir kristnitöku vegna þess að stuðlaður kveðskapur, sem hafði verið nýttur til að varðveita fróðleik um afrek konunga, hefði verið illa séður í konungsríkjum Norðurlanda vegna þess að hann þótti tengjast heiðnu helgihaldi. Vegna þess að Íslendingar voru á jaðri menningarinnar og tilheyrðu engu konungsríki náði bannið ekki til þeirra og þeir fengu það hlutverk að vera gæslumenn fróðleiks um konunga. Síðar kom fleira til; af því að konungsvald náði ekki til Íslands og ekkert opinbert refsivald var til neyddust Íslendingar til að halda ófriði í skefjum með flóknu kerfi málamiðlana, gerðardóma og sátta. Má líta á Íslendingasögur sem rannsóknir á þess konar samfélagi.

Gunnar Karlsson, prófessor emeritus, er upphaflega íslenskufræðingur með Íslandssögu sem kjörsvið. Hann var lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands 1976–80 og prófessor í sömu grein til starfsloka 2009.

þriðjudagur, 21. feb 2017

Hlaðvarp: Úlfar Bragason: „Ég viðurkenni ekki tískuna, að „frjósa menn út“

þriðjudagur, 14. feb 2017

Hádegisfyrirlestur 21. febrúar: „Ég viðurkenni ekki tískuna, að „frjósa menn út““. Óþægilegar skoðanir þaggaðar

Þriðjudaginn 21. febrúar flytjur Úlfar Bragason erindið „Ég viðurkenni ekki tískuna, að „frjósa menn út““. Óþægilegar skoðanir þaggaðar. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.

Jón Halldórsson, sem kenndi sig við Stóruvelli í Bárðardal (1838–1919), var meðal fyrstu Íslendinganna sem fluttust vestur um haf og gerðust landnemar í Ameríku. Í bókinni Atriði ævi minnar (2005) safnaði fyrirlesarinn saman úrvali bréfa og greina sem Jón Halldórsson lét eftir sig. Frelsi, menning, framför, voru einkunnarorð félags Íslendinga í Vesturheimi sem stofnað var í Milwaukee, 2. ágúst 1874. Skrif Jóns eru kennslubók í lýðræðislegum skoðanaskiptum og orðræða um frelsi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um gagnrýni Jóns á landnám Íslendinga í Nýja Íslandi og á íslenskt bændasamfélag á 19. öld og þau heiftarlegu viðbrögð sem hann fékk við gagnrýninni.

Úlfar Bragason er rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum síðan 2006. Stofustjóri alþjóðasviðs stofnunarinnar. Hann var áður forstöðumaður Stofnunar Sigurðar Nordals 1988-2006. Hann kenndi við University of Chicago 1986-1987 og lauk doktorsprófi frá University of California, Berkeley 1986. Ritgerð hans fjallaði um frásagnarfræði Sturlunga sögu. Rannsóknir hans beinast að fornsögum, flutningum Íslendinga til Vesturheims og íslenskri menningu

Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

þriðjudagur, 7. feb 2017

Hlaðvarp: Markús Þórhallsson: „Hausavíxl á sýslumanni og sálusorgara“

þriðjudagur, 31. jan 2017

Hádegisfyrirlestur 7. febrúar: „Hausavíxl á sýslumanni og sálusorgara“. Trúfrelsi og fyrsta borgaralega hjónavígslan á Íslandi

Þriðjudaginn 7. febrúar flytur Markús Þ. Þórhallsson erindið „„Hausavíxl á sýslumanni og sálusorgara“. Trúfrelsi og fyrsta borgaralega hjónavígslan á Íslandi“ á vegum Sagnfræðingafélags Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Þau óvanalegu tíðindi að sýslumaður hefði gefið saman hjón skömmu eftir tilurð „frelsisskrár úr föðurhendi“; íslensku stjórnarskrárinnar 1874, vöktu nokkra furðu. Hjónavígslur höfðu eingöngu verið í verkahring kirkjunnar þjóna fram að því og undrun manna yfir þessu vinnulagi því mikil. Ekki að ósekju sennilega. Þetta mun vera fyrsta borgaralega hjónavígsla Íslandssögunnar og hjónin voru sannarlega á jaðri íslensks samfélags, Mormónapar búsett í Vestmannaeyjum. Trúboðar Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu höfðu enda mætt mikilli mótstöðu af hálfu geistlegra og veraldlegra yfirvalda sem sögðu þá boða villutrú sem ógnaði grundvelli kristinnar kirkju. Saga þeirra hjóna, Magnúsar Kristjánssonar og Þuríðar Sigurðardóttur, verður rakin í þessu erindi og m.a. sett í samhengi við hugmyndir nítjándu aldar manna um trúfrelsi.

Markús Þ. Þórhallsson er meistaranemi í sagnfræði og er að ljúka diplómanámi í fjölmiðla- og boðskiptafræði. Hann stjórnar morgunútvarpi á Útvarpi Sögu meðfram vinnu við meistararitgerð.

þriðjudagur, 24. jan 2017

Hlaðvarp: Íris Ellenberger: Fæðing hinnar íslensku lesbíu

mánudagur, 16. jan 2017

Hádegisfyrirlestur 24. janúar: Fæðing hinnar íslensku lesbíu

Fyrsti hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélagsins árið 2017 fer fram þriðjudaginn 24. janúar. Þá flytur Íris Ellenberger erindi sem hún kallar „Fæðing hinnar íslensku lesbíu“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Þegar rætt er um hinsegin fólk á Íslandi ber gjarna á góma hversu fljótt Ísland þróaðist úr fordómafullu og kúgandi samfélagi í þjóðfélag sem fagnar fjölbreytileika. En þegar litið er til sögunnar kemur í ljós að ein meginorsökin fyrir þessum skyndilega viðsnúningi er sú að samkynhneigð kom mun síðar inn í ríkjandi orðræðu hérlendis en í öðrum vestrænum löndum og mótun samkynhneigðrar sjálfsveru því talsvert seinna á ferðinni hér en í nágrannalöndunum.

Þetta á sér ýmsar sögulegar orsakir sem raktar verða í erindinu. Meginviðfangsefni þess er þó að varpa ljósi á hvernig lesbíur urðu til sem jaðarsettur þjóðfélagshópur á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Því verður fjallað um vitneskjuna um samkynhneigð kvenna á Íslandi á 20. öld og með sérstakri áherslu á umfjöllun um samkynhneigð í opinberri orðræðu á Íslandi. Með því að leggja áherslu á orðræðuna er hægt að leiða í ljós hvernig lesbísk sjálfsvera mótaðist í íslensku samhengi og jafnframt hvenær samkynhneigð, í nútímaskilningi þessa hugtaks, varð raunhæfur valkostur fyrir íslenskar konur. Með öðrum orðum hvenær lesbíur tóku sér stöðu á jaðri íslensks samfélags.

Íris Ellenberger er nýdoktor við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi frá sama skóla árið 2013 og hefur síðan starfað við rannsóknir annars vegar á sögu hinsegin fólks á Íslandi og hins vegar á sögu fólksflutninga til Íslands. Hún hefur einnig stundað margvíslegt félagsstarf á vettvangi hinsegin fólks og er m.a. virkur meðlimur í Samtökunum ´78.

þriðjudagur, 13. des 2016

Hlaðvarp: Vilhelm Vilhelmsson: Atbeini, undirsátar, andóf

þriðjudagur, 6. des 2016

Hádegisfyrirlestur 13. desember: Atbeini, undirsátar, andóf

Þriðjudaginn 13. desember flytur Vilhelm Vilhelmsson erindið „Atbeini, undirsátar, andóf“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Í erindinu verður fjallað um helstu hugtök sem notuð voru til greiningar í doktorsritgerð Vilhelms, Sjálfstætt fólk? Vald og andóf á Íslandi á tímum vistarbands. Það eru hugtökin atbeini, undirsátar, valdaafstæður, andóf og siðræn ögun. Fjallað verður um notagildi hugtakanna til greiningar á íslensku samfélagi á fyrri tíð með hliðsjón af beitingu þeirra í doktorsritgerðinni. Um leið verður fjallað um helstu niðurstöður rannsóknarinnar.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Einnig má hafa samband við Kristínu Svövu Tómasdóttur, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið kristinsvava@gmail.com

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted through Kristín Svava Tómasdóttir: kristinsvava@gmail.com.

Search this page


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins

24. janúar
Íris Ellenberger: Fæðing hinnar íslensku lesbíu

7. febrúar
Markús Þ. Þórhallsson: „Hausavíxl á sýslumanni og sálusorgara“. Trúfrelsi og fyrsta borgaralega hjónavígslan á Íslandi

21. febrúar
Úlfar Bragason: „Ég viðurkenni ekki tískuna, að „frjósa menn út““. Óþægilegar skoðanir þaggaðar

7. mars
Gunnar Karlsson: Ísland sem jaðarsvæði evrópskrar miðaldamenningar

21. mars
Vilhelm Vilhelmsson: Hrói höttur íslands? Ísleifur seki Jóhannesson og glæpaaldan í Langadal á öndverðri 19. öld

4. apríl
Unnur Birna Karlsdóttir: Öræfabörn. Um hreindýr á Íslandi

18. apríl
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir: Á jaðri hins pólitíska valds? Norskar drottningar á miðöldum

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: kristinsvava@gmail.com