Latest entries

fimmtudagur, 20. apr 2017

Kallað eftir erindum: Hádegisfyrirlestrar haustið 2017

Sagnfræðingafélag Íslands kallar eftir tillögum að erindum fyrir hádegisfyrirlestraröð félagsins á haustmisseri 2017, en hádegisfyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.

Fyrirlestraröðin verður helguð nýjum rannsóknum í sagnfræði og er það von félagsins að fyrirlestrarnir geti sýnt fram á þann fjölbreytileika og grósku sem einkennir íslenskar sagnfræðirannsóknir. Allir sagnfræðingar sem leggja stund á rannsóknir, hvort sem um er að ræða framhaldsnema í sagnfræði eða margreynda fræðimenn, eru hvattir til að senda inn erindi og nýta tækifærið til að kynna viðfangsefni sín.

Tillögur skulu sendar til Kristínar Svövu Tómasdóttur á netfangið kst3@hi.is eða kristinsvava@gmail.com. Skilafrestur er til 20. maí.

þriðjudagur, 18. apr 2017

Hlaðvarp: Ragnhildur Hólmgeirsdóttir: Á jaðri hins pólitíska valds? Norskar drottningar á miðöldum

mánudagur, 10. apr 2017

Hádegisfyrirlestur 18. apríl: Á jaðri hins pólitíska valds? Norskar drottningar á miðöldum

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir heldur síðasta hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélagsins á vormisseri þriðjudaginn 18. apríl, og kallast hann „Á jaðri hins pólitíska valds? Norskar drottningar á miðöldum”. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands, en hádegisfyrirlestrarnir eru skipulagðir í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Kóngafólk er varla sá samfélagshópur sem fyrst kemur upp í hugann þegar rætt er um jaðar samfélagsins. En þó drottningar á miðöldum hafi staðið nærri miðju pólitískra valda voru þær sakir kyns síns jaðarsettar. Þær hafa síðan fallið á milli tveggja sviða í fræðimennsku. Þeir sem rannsaka miðaldastjórnmál og þróun konungsvalds hafa oft lítinn áhuga eða þekkingu á kvennasögu á meðan fræðimenn á sviði kynjasögu hafa takmarkaðan áhuga á lífshlaupi einstaklinga úr efsta lagi samfélagsins. Saga norskra drottninga veitir engu að síður einstakt sjónarhorn á stöðu norrænna kvenna yfir lengra tímabil en íslenskar heimildir gefa kost á. Í fyrirlestrinum verður fjallað um muninn á pólitískum áhrifum og völdum og að hve miklu leyti þessar konur falli undir þær skilgreiningar. Á hverju byggðust áhrif þeirra og völd, hvaða breytingar urðu á þeim á tímabilinu og hverra hagsmunir réðu þar för?

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir er sagnfræðingur og rithöfundur. Hún útskrifaðist með meistaragráðu í miðaldafræðum frá Háskóla Íslands 2015.

þriðjudagur, 4. apr 2017

Hlaðvarp: Unnur Birna Karlsdóttir: Öræfabörn. Viðhorf til hreindýra á Íslandi á 18. og 19. öld

Vegna tæknilegra vandamála vantar 3-4 mínútur aftan á upptökuna af fyrirlestri Unnar Birnu, og biðjumst við velvirðingar á því.

þriðjudagur, 28. mar 2017

Öræfabörn. Viðhorf til hreindýra á Íslandi á 18. og 19. öld

Þriðjudaginn 4. apríl flytjur Unnur Birna Karlsdóttir erindið „Öræfabörn. Viðhorf til hreindýra á Íslandi á 18. og 19. öld”. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands, en hann tilheyrir röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Fjallað verður um meginþræði í viðhorfum til hreindýra frá því þau voru flutt til landsins og fram á 19. öld og rakið hvort og hvað breytist á þessu hundrað ára tímabili og hvers vegna. Hreindýr geta að sjálfsögðu ekki flokkast sem jaðarhópur á kanti ríkjandi menningar í þjóðfélaginu eins og á við um ýmsa minnihlutahópa í samfélagi manna, en þau voru engu að síður í vissum skilningi jaðarsett í viðhorfum manna til sambúðar manns og náttúru, allt frá því þeim var hleypt í land af dönskum skipum á síðari hluta 18. aldar.

Unnur Birna Karlsdóttir sagnfræðingur og rithöfundur (f. 1964) er með doktorsgráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er umhverfissagnfræði. Hún starfar nú hjá Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands á Austurlandi og vinnur meðal annars að rannsókn á sögu hreindýra á Íslandi og ritun bókar um það efni.

fimmtudagur, 23. mar 2017

Fréttir af aðalfundi

Aðalfundur Sagnfræðingafélagsins var haldinn þriðjudagskvöldið 21. mars í fyrirlestrasal Þjóðskjalasafns Íslands. Aðalfundarstörf voru með hefðbundnum hætti og að þeim loknum héldu sagnfræðingarnir Anna Agnarsdóttir og Davíð Ólafsson áhugaverð erindi um bækur sem þau hafa nýlega gefið út á erlendri grundu.

Þó nokkur endurnýjun varð í stjórn félagsins á fundinum, en fimm af sjö stjórnarmönnum yfirgáfu stjórnina: Vilhelm Vilhelmsson formaður, Anna Dröfn Ágústsdóttir varaformaður, Guðný Hallgrímsdóttir gjaldkeri, Margrét Gunnarsdóttir ritstjóri fréttabréfs og Sumarliði Ísleifsson meðstjórnandi. Í þeirra stað voru kjörin í stjórnina sagnfræðingarnir Gunnar Örn Hannesson, Hjördís Erna Sigurðardóttir, Markús Þ. Þórhallsson, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir og Rakel Adolphsdóttir. Kristín Svava Tómasdóttir, sem áður var vefstjóri félagsins, var kjörin formaður, en Hrafnkell Lárusson er áfram ritari og skjalavörður.

Fráfarandi stjórnarmönnum er þakkað fyrir vel unnin störf og gott samstarf á liðnum árum.

miðvikudagur, 22. mar 2017

Hlaðvarp: Vilhelm Vilhelmsson: Hrói höttur íslands? Ísleifur seki Jóhannesson og glæpaaldan í Langadal á öndverðri 19. öld

miðvikudagur, 15. mar 2017

Hádegisfyrirlestur 21. mars: Hrói höttur íslands? Ísleifur seki Jóhannesson og glæpaaldan í Langadal á öndverðri 19. öld

Þriðjudaginn 21. mars flytjur Vilhelm Vilhelmsson erindið „Hrói höttur íslands? Ísleifur seki Jóhannesson og glæpaaldan í Langadal á öndverðri 19. öld.” Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.

Ísleifur Jóhannesson frá Breiðavaði í Langadal, sem í samtíma sínum bar viðurnefnið „seki“, var þjóðsagnapersóna í lifanda lífi á fyrstu áratugum 19. aldar. Jafnvel andlát hans varð tilefni reyfarakennda flökkusagna, en hann endaði ævi sína í rasphúsinu í Kaupmannahöfn þar sem hann fyrirfór sér árið 1829 brennimerktur og marghýddur fyrir þjófnaði og önnur afbrot. Honum var lýst sem glæsi- og þróttmenni sem sneri á ráðamenn og hæddist að þeim. Seinni tíma menn hafa jafnvel líkt honum við Hróa hött. En hver var þessi Ísleifur og um hvað var hann sekur? Í erindinu verður fjallað um Ísleif og afbrot hans og velt vöngum yfir því hvað fólst í því að vera á jaðri íslensks samfélags á þeim tíma sem hann var uppi. Jafnframt verður fjallað um hvernig ímynd jaðarsettra einstaklinga tekur breytingum þegar frá líður og þeir öðlast sess í söguvitund landsmanna sem táknmynd um samfélagsgerð fyrri tíma.

Vilhelm Vilhelmsson (f. 1980) er doktor í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hann er sjálfstætt starfandi fræðimaður, stundakennari við Háskóla Íslands og annar af tveimur ritstjórum Sögu, tímarits Sögufélags.

fimmtudagur, 9. mar 2017

Aðalfundur Sagnfræðingafélagsins 21. mars

Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands verður haldinn þriðjudaginn 21. mars næstkomandi kl. 20:00 í fyrirlestrasal Þjóðskjalasafns Íslands, Laugavegi 162 (gengið inn úr portinu). Að fundinum loknum verður boðið upp á léttar veitingar.

Dagskrá fundarins:

1. Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar.
2. Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar.
3. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
4. Kjör stjórnar. Kjör tveggja endurskoðenda reikninga
5. Önnur mál

Að loknum aðalfundarstörfum, eða kl. 20:30, munu Anna Agnarsdóttir og Davíð Ólafsson kynna sagnfræðileg rit sem þau hafa nýlega gefið út á erlendri grundu. Anna ræðir útgáfu sína á skjölum frá náttúrufræðingnum og Íslandsvininum Sir Joseph Banks, sem komu út hjá The Hakluyt Society í Bretlandi undir titlinum Sir Joseph Banks, Iceland and the North Atlantic 1772-1820. Journals, Letters and Documents. Davíð Ólafsson segir frá bók sinni og Sigurðar Gylfa Magnússonar, Minor Knowledge and Microhistory. Manuscript Culture in the Nineteenth Century, sem kom út hjá Routledge, en þar setja þeir bókmenningu íslensks alþýðufólks á 19. öld í samhengi við nýjustu alþjóðlegar rannsóknir á handritamenningu eftir prentvæðingu.

Stjórnin.

Hlaðvarp: Gunnar Karlsson: Ísland sem jaðarsvæði evrópskrar miðaldamenningar


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Kristínu Svövu Tómasdóttur, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið kristinsvava@gmail.com

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins

19. september
Kristín Bragadóttir: Íslenskar bækur erlendis. Bókasöfnun Willards Fiskes (1831–1904)

3. október
Markús Þórhallsson: Til varnar Íslandi. Saga InDefence hópsins 2008-2013

17. október
Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Bankahrunið í sögulegu ljósi

31. október
Pontus Järvstad: Fasismi og arfleifð evrópskrar nýlendustefnu. Áhrif útþenslustefnu stórveldanna á fasíska hugmyndafræði og framkvæmd

14. nóvember
Ólína Þorvarðardóttir: Gullkistan Djúp. Þróun byggðar og mannlífs við Ísafjarðardjúp

28. nóvember
Sólveig Ólafsdóttir: Rosenwein og Reddy. Fræðilegar samræður um sögulegar tilfinningar

12. desember
Þorsteinn Vilhjálmsson: „Að hafa svo mikið upp úr lífinu sem auðið er“. Ólafur Davíðsson og hinsegin rými innan Lærða skólans á 19. öld

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com