Nýjustu færslur

miðvikudagur, 30. sep 2015

Hádegisfyrirlestur: Frá langhúsum til gangabæja. Áhrif kristnivæðingarinnar á veraldleg húsakynni og stöðu kvenna á Íslandi á miðöldum

Steinunn Kristjánsdóttir heldur hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélagsins þriðjudaginn 6. október undir yfirskriftinni Frá langhúsum til gangabæja. Áhrif kristnivæðingarinnar á veraldleg húsakynni og stöðu kvenna á Íslandi á miðöldum. Fyrirlesturinn fer fram í Þjóðminjasafni Íslands og hefst kl. 12:05.

Kristnivæðingin á víkingaöld og miðöldum hafði mikil áhrif á daglegt líf fólks í Evrópu. Fram koma skýrar breytingar í grafsiðum Íslendinga við kristnitökuna um 999/1000 en um svipað leyti voru fyrstu kirkjur landsins reistar. Kristnitakan leiddi þó ekki aðeins til breytinga á trúarlegum lífsháttum, heldur veraldlegum einnig. Í fyrirlestrinum verður sagt frá þeim áhrifum sem kristnivæðingin hafði í för með sér hérlendis fyrstu aldirnar eftir kristnitöku en lögð áhersla á að skoða hvernig breytingar á heimilishaldi og stöðu kvenna endurspeglast í húsakynnum landsmanna.

Steinunn Kristjánsdóttir er prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

föstudagur, 25. sep 2015

Kallað eftir tillögum að hádegisfyrirlestrum vormisseris 2016: Fjöldahreyfingar

Sagnfræðingafélag Íslands kallar eftir erindum á hádegisfyrirlestrum félagsins á vormisseri 2016. Þemað í þetta sinn er „Fjöldahreyfingar“.

Fjöldahreyfingar hafa gegnt mikilvægu hlutverki við mótun íslensks samfélags. Á næsta ári, 2016, eru liðin 100 ár frá stofnun Alþýðusambands Íslands. Af því tilefni hefur Sagnfræðingafélag Íslands ákveðið að fyrirlestraröð vormisseris 2016 tengist málefnum fjöldahreyfinga frá öndverðu til samtímans. Við leitum eftir erindum sem varða verkalýðshreyfinguna og aðrar fjöldahreyfingar, bindindishreyfinguna, kvennahreyfinguna, ungmennafélagshreyfinguna, starf þeirra, tengsl innbyrðis, við stjórnmál, velferðarsamfélag, jafnrétti, umhverfi eða aðra mikilvæga samfélagsþætti. Áhugasamir snúi sér til Vilhelms Vilhelmssonar í netfangið viv13@hi.is

Tillögur að erindum skulu innihalda titil og/eða stutta efnislýsingu og sendast á ofangreint netfang.

Skilafrestur tillagna er 15. október.

þriðjudagur, 15. sep 2015

Hádegisfyrirlestur: Konur innan sviga - týndu konurnar í handritasafni Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns

Þriðjudaginn 22. september flytja Halldóra Kristinsdóttir og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands sem nefnist „Konur innan sviga - týndu konurnar í handritasafni Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns“. Að venju fer fyrirlesturinn fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.

Segja má að heimur handritanna sé nokkuð karllægur. Lengi vel voru það aðallega karlar sem sáu um að flokka og skrá handrit og sömuleiðis hafa karlmenn verið í miklum meirihluta gesta á handritasafni Landsbókasafns. Í nafnaskrám prentaðra handritaskráa eru konur um 12% og mun færri einkaskjalasöfn eru kennd konum en körlum. En ef til vill gefa þessar upplýsingar ranga mynd af stöðu kvenna innan safnsins. Þegar rýnt er betur í skráninguna kemur í ljós að kvenna er oft ekki getið með nafni þó að þær komi við sögu handrita og einkaskjöl kvenna eru oftar en ekki geymd meðal skjala eiginmanna þeirra án þess að söfnin séu kennd við þær. Í erindinu verður rýnt í handritaskráningu og nokkrar týndar konur í handritasafni dregnar fram.

Sigríður Hjördís Jörundsdóttir lauk MA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2004 og Halldóra Kristinsdóttir lauk MA-gráðu í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Þær starfa báðar sem sérfræðingar á handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Í október kemur út hjá útgáfunni Uglu bók þeirra Utangarðs. Ferðalag til fortíðar, sem fjallar um utangarðsfólk í sveitasamfélagi 19. aldar.

þriðjudagur, 8. sep 2015

Hlaðvarp: Hafdís Erla Hafsteinsdóttir: „Hún var með eldrauðar neglur og varir, en að öðru leyti ekkert athugaverð í útliti“

mánudagur, 31. ágú 2015

„Hún var með eldrauðar neglur og varir, en að öðru leyti ekkert athugaverð í útliti“. Skjalasafn ungmennaeftirlitsins og ímynd ástandsstúlkunnar

Þriðjudaginn 8. september hefjast hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélags Íslands að nýju eftir sumarfrí. Þema hádegisfyrirlestranna að þessu sinni er Heimildir um konur/Konur í heimildum, en eins og kunnugt er er í ár haldið upp á 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Sem fyrr fara hádegisfyrirlestrarnir fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefjast kl. 12:05.

Það er Hafdís Erla Hafsteinsdóttir sem ríður á vaðið þann 8. september með fyrirlestur sem hún kallar „„Hún var með eldrauðar neglur og varir, en að öðru leyti ekkert athugaverð í útliti“. Skjalasafn ungmennaeftirlitsins og ímynd ástandsstúlkunnar“.

Árið 1961 voru gögn Jóhönnu Knudsen, fyrstu lögreglukonu Íslands, afhent Þjóðskjalasafni Íslands gegn því skilyrði að gögnin yrðu innsigluð næstu 50 árin. Þegar innsiglin voru rofin kom í ljós að þarna var um að ræða skjöl Ungmennaeftirlits lögreglunnar sem Jóhanna veiti forstöðu 1941 til 1945. Þessi skjöl varpa nýju ljósi á hið svokallaða ástand, vel þekktan kafla í íslenskri samtímasögu. Gögnin má skoða frá ýmsum hliðum. Fyrir það fyrsta má segja að ýmis kurl séu komin til grafar hvað varðar aðgerðir lögreglunnar til að sporna við og stjórna samskiptum íslenskra kvenna við erlent setulið. Það má ennfremur skoða gögnin ofan í kjölinn og huga að því hver var hvatinn og hugmyndafræðin bak við aðgerðirnar og hvernig framkvæmdavaldið rammaði þær inn í ríkjandi orðræðu og gaf þeim menningarlegt vægi. Þannig má greina og afhjúpa valdastrúktúra sem byggjast á kyngervi, stétt og menningarlegu forræði. Í fyrirlestrinum verður kafað ofan í þessi skjöl og reynt að gera grein fyrir þeim þráðum sem sköpuðu hugmyndina um ástandsstúlkuna, hvaða eiginleikar henni voru eignaðir og hvernig þessi ímynd var mátuð við reykvískar stúlkur.

Hafdís Erla Hafsteinsdóttir útskrifaðist með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2011. Hafdís skrifar nú meistararitgerð sína í kvenna- og kynjasögu við Háskólann í Vín, en ritgerðin fjallar um aðgerðir stjórnvalda til að sporna gegn samböndum kvenna og erlendra setuliðsmanna í Salzburg og Reykjavík á árum síðari heimsstyrjaldarinnar.

mánudagur, 11. maí 2015

Fundur um Landsnefnd íslenskra sagnfræðinga og Scandinavian Journal of History

Sagnfræðingafélag Íslands heldur félagsfund þriðjudaginn 19. maí næstkomandi kl. 20:30 í húsakynnum ReykjavíkurAkademíunnar, Þórunnartúni 2.

Dagskrá:

1.  Formaður greinir frá störfum Landsnefndar íslenskra sagnfræðinga, sem fyrirhugað er að endurvekja

2. Kjör tveggja fulltrúa í Landsnefnd

3. Önnur mál

Að fundarstörfum loknum mun Guðmundur Hálfdanarson prófessor í sagnfræði við HÍ halda stutt erindi um tímaritið Scandinavian Journal of History, en sagnfræðingafélögin á Norðurlöndum standa að útgáfu þess. Guðmundur hefur verið aðalritstjóri tímaritsins undanfarin fimm ár en lætur af störfum síðar á þessu ári.

Boðið verður upp á léttar veitingar. Félagsmenn eru hvattir til þess að fjölmenna.

fimmtudagur, 16. apr 2015

Fyrirlestrakall: Heimildir um konur/konur í heimildum

Sagnfræðingafélag Íslands kallar eftir tillögum að framsögum fyrir hádegisfyrirlestraröð félagsins á haustmisseri 2015. Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna og átaks sem stendur yfir hjá íslenskum skjalasöfnum um þessar mundir um söfnun á skjölum kvenna verður fyrirlestraröðin að þessu sinni helguð heimildum um konur og konum í heimildum. Þegar rætt er um stöðu og birtingarmynd kvenna í sagnaritun er oft vísað til þess að skortur sé á heimildum um konur. Því er ástæða til að velta upp þeirri spurningu hvaða heimildir séu til um og eftir konur. Hvernig hafa þær verið varðveittar og flokkaðar og á hvaða forsendum? Hvernig nýta sagnfræðingar þessar heimildir?

Tillögur að fyrirlestrum skulu sendar til Kristínar Svövu Tómasdóttur á netfangið kristinsvava@gmail.com, en skilafrestur er til 1. maí 2015.

Með von um góðar undirtektir,
stjórn Sagnfræðingafélags Íslands

þriðjudagur, 7. apr 2015

Hlaðvarp: Skafti Ingimarsson: „Glöggt er gestsaugað“. Drengsmálið í ljósi danskra heimilda

þriðjudagur, 31. mar 2015

Hádegisfyrirlestur: „Glöggt er gestsaugað“. Drengsmálið í ljósi danskra heimilda

Þriðjudaginn 7. apríl flytur Skafti Ingimarsson hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands sem nefnist „„Glöggt er gestsaugað“. Drengsmálið í ljósi danskra heimilda“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og hefst kl. 12:05.

Drengsmálið svokallaða, eða Hvíta stríðið, eins og það er stundum nefnt, er meðal þekktustu atburða íslenskrar stjórnmálasögu. Í fyrirlestrinum fjallar Skafti Ingimarsson um þennan sögufræga atburð út frá nýjum frumheimildum, sem fundust í ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn. Heimildirnar varpa nýju ljósi á samskipti íslenskra og danskra stjórnvalda vegna málsins og sýna hvernig atburðarásin í Reykjavík kom dönskum embættismönnum fyrir sjónir.

Skafti Ingimarsson er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands og formaður AkureyrarAkademíunnar.

þriðjudagur, 24. mar 2015

Aðalfundur Sagnfræðingafélagsins 26. mars

Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands 2015 verður haldinn fimmtudaginn 26. mars kl. 19:30 í sal ReykjavíkurAkademíunnar, Þórunnartúni 2, 4. hæð.

Dagskrá fundarins:

1. Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar.
2. Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar.
3. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
4. Kjör stjórnar. Kjör tveggja endurskoðenda reikninga
5. Önnur mál

Að loknum fundarstörfum eða kl. 20.00 mun dr. Þorsteinn Helgason flytja erindi er nefnist

Rannsókn á Tyrkjaráninu: einsömul iðja í samfélagi fræðanna.

Dr. Þorsteinn Helgason hefur kennt á öllum skólastigum en er nú dósent í sagnfræði og sögukennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Boðið verður upp á léttar veitingar í lok fundar.


Þessi síða

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Einnig má hafa samband við Vilhelm Vilhelmsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið viv13@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted through Vilhelm Vilhelmsson: viv13@hi.is.

Leit á þessari síðu


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins

8. september
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir: „Hún var með eldrauðar neglur og varir, en að öðru leyti ekkert athugaverð í útliti“. Skjalasafn ungmennaeftirlitsins og ímynd ástandsstúlkunnar

22. september
Halldóra Kristinsdóttir og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir: Konur innan sviga - týndu konurnar í handritasafni Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns

6. október
Steinunn Kristjánsdóttir: Frá langhúsum til gangabæja. Áhrif kristnivæðingarinnar á veraldleg húsakynni og stöðu kvenna á Íslandi á miðöldum

20. október
Þórunn Sigurðardóttir: Tækifæriskvæði sem heimildir um konur á árnýöld

3. nóvember
Sigríður Matthíasdóttir og Þorgerður Einarsdóttir: Ógiftar konur í hópi vesturfara

17. nóvember
Guðný Hallgrímsdóttir: Voru konur fátíðar allt fram á 20. öld?

1. desember
Lára Magnúsardóttir: Ekkja elur dreng, sögusagnir kvikna um faðerni: hvað þýða heimildirnar?

15. desember
Margrét Gunnarsdóttir: Konur í karlaheimi. Kynjasaga á grundvelli sendibréfa embættis- og menntamanna 18. og 19. aldar

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS slóð á greinar. RSS slóð á ummæli.

Knúið af WordPress. Rétt XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 866-3131 - Tölvupóstur: viv13[hjá]hi.is