Latest entries

mánudagur, 16. jan 2017

Hádegisfyrirlestur 24. janúar: Fæðing hinnar íslensku lesbíu

Fyrsti hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélagsins árið 2017 fer fram þriðjudaginn 24. janúar. Þá flytur Íris Ellenberger erindi sem hún kallar „Fæðing hinnar íslensku lesbíu“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Þegar rætt er um hinsegin fólk á Íslandi ber gjarna á góma hversu fljótt Ísland þróaðist úr fordómafullu og kúgandi samfélagi í þjóðfélag sem fagnar fjölbreytileika. En þegar litið er til sögunnar kemur í ljós að ein meginorsökin fyrir þessum skyndilega viðsnúningi er sú að samkynhneigð kom mun síðar inn í ríkjandi orðræðu hérlendis en í öðrum vestrænum löndum og mótun samkynhneigðrar sjálfsveru því talsvert seinna á ferðinni hér en í nágrannalöndunum.

Þetta á sér ýmsar sögulegar orsakir sem raktar verða í erindinu. Meginviðfangsefni þess er þó að varpa ljósi á hvernig lesbíur urðu til sem jaðarsettur þjóðfélagshópur á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Því verður fjallað um vitneskjuna um samkynhneigð kvenna á Íslandi á 20. öld og með sérstakri áherslu á umfjöllun um samkynhneigð í opinberri orðræðu á Íslandi. Með því að leggja áherslu á orðræðuna er hægt að leiða í ljós hvernig lesbísk sjálfsvera mótaðist í íslensku samhengi og jafnframt hvenær samkynhneigð, í nútímaskilningi þessa hugtaks, varð raunhæfur valkostur fyrir íslenskar konur. Með öðrum orðum hvenær lesbíur tóku sér stöðu á jaðri íslensks samfélags.

Íris Ellenberger er nýdoktor við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi frá sama skóla árið 2013 og hefur síðan starfað við rannsóknir annars vegar á sögu hinsegin fólks á Íslandi og hins vegar á sögu fólksflutninga til Íslands. Hún hefur einnig stundað margvíslegt félagsstarf á vettvangi hinsegin fólks og er m.a. virkur meðlimur í Samtökunum ´78.

þriðjudagur, 13. des 2016

Hlaðvarp: Vilhelm Vilhelmsson: Atbeini, undirsátar, andóf

þriðjudagur, 6. des 2016

Hádegisfyrirlestur 13. desember: Atbeini, undirsátar, andóf

Þriðjudaginn 13. desember flytur Vilhelm Vilhelmsson erindið „Atbeini, undirsátar, andóf“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Í erindinu verður fjallað um helstu hugtök sem notuð voru til greiningar í doktorsritgerð Vilhelms, Sjálfstætt fólk? Vald og andóf á Íslandi á tímum vistarbands. Það eru hugtökin atbeini, undirsátar, valdaafstæður, andóf og siðræn ögun. Fjallað verður um notagildi hugtakanna til greiningar á íslensku samfélagi á fyrri tíð með hliðsjón af beitingu þeirra í doktorsritgerðinni. Um leið verður fjallað um helstu niðurstöður rannsóknarinnar.

föstudagur, 25. nóv 2016

Hádegisfyrirlestur 29. nóvember: Aðbúnaður geðveikra á Íslandi og umbætur yfirvalda fyrir daga geðspítala

Þriðjudaginn 29. nóvember flytur Dr. Sigurgeir Guðjónsson erindið „Aðbúnaður geðveikra á Íslandi og umbætur yfirvalda fyrir daga geðspítala.“ Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Í erindinu rekur Sigurgeir rannsóknarhefðir nágrannalandanna í geðheilbrigðissögu. Í kjölfarið verður kynnt hvaða kenningar liggja til grundvallar í rannsókninni og hverju var hafnað. Við rannsóknina var notast við margvíslegar heimildir s.s. opinber gögn og efni frá einstaklingum. Bæði var stuðst við textagreiningu (eigindlega nálgun) og megindlega nálgun, (sbr manntöl og aðrar tölulegar upplýsingar. Uppbygging ritgerðarinnar og tímarammi ásamt niðurstöðum verða kynntar. Að lokum verður varpað ljósi á hvaða þýðingu rannsóknin hefur fyrir íslenska sagnfræði.

þriðjudagur, 15. nóv 2016

Hlaðvarp: Jón Árni Friðjónsson: Um sögukennslu í íslenskum framhaldsskólum 1946–1996

Hlaðvarp: Skúli S. Ólafsson: Jartein og sakramenti

miðvikudagur, 9. nóv 2016

Hádegisfyrirlestur 15. nóvember: Um sögukennslu í íslenskum framhaldsskólum 1946–1996

Þriðjudaginn 15. nóvember flytur Jón Árni Friðjónsson erindi um sögukennslu í íslenskum framhaldsskólum 1946–1996. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Saga varð fyrst mikilvæg námsgrein í íslenskum skólum á heimastjórnartímanum. Sú söguskoðun sem þá mótaðist horfði ekki aðeins til fortíðar heldur vísaði líka til framtíðar og útópía hennar varð að veruleika með stofnun lýðveldis 1944. Forsögn hennar náði ekki öllu lengra þó reynt væri að framlengja hana; á sjöunda áratugnum tók hún að missa merkingu sína. Um hina almennu mannkynssögu ríkti ekki mikill ágreiningur, hún var fyrst og fremst þjálfunarefni fyrir verðandi embættis- og menntamenn. Upp úr 1970 breyttist allt; skólakerfið tók stakkaskiptum, ný viðhorf komu fram á sviði kennslufræða og mikil fjölgun ungs fólks knúði á um víðtæka nýsköpun framhaldsskólans. Þá sprengdi íslensk sagnfræði af sér fjötra hefðar og félagssaga tók að setja svip sinn á námsefni. Þessum umskiptum var ekki tekið fagnandi alls staðar. Róttækni tíðarandans varð heldur ekki til að draga úr ótta þeirra sem töldu nýja sögutúlkun boða illt og brátt upphófust ásakanir á hendur kennurum og námsefnishöfundum um pólitíska áróðursstarfsemi.

Enginn vafi er á því að mati höfundar að hin illskeytta pólitíska umræða áttunda og níunda áratugarins kom sér illa fyrir söguna sem námsgrein. Verra var þó hve veik staða hennar var á hinu kennslufræðilega sviði. Það er og ein niðurstaða rannsóknar Jóns Árna að mikilvægustu eiginleikar hennar sem námsgreinar hafi lengst af verið vanmetnir.

Jón Árni Friðjónsson er fæddur 1954 í Reykjavík og lauk BA prófi í íslensku og sagnfræði frá HÍ. Hann lauk MA prófi í sagnfræði frá sama skóla og hafði framhaldsskólakennslu að meginstarfi allt fram til 2015. Höfundur segir þetta hafa verið mikið umbrotaskeið í íslensku skólakerfi en í lok aldar var ljóst að margt var þar enn að breytast og sumt jafnvel meira en greint varð í fljótu bragði. Þetta vakti þá hugmynd að rannsaka sögu framhaldsskólans á síðari hluta 20. aldar frá sjónarhóli þeirrar námsgreinar sem leikið hafði lykilhlutverk um það leyti sem lýðveldið var stofnað, söguna sjálfa. Doktorsverkefni hans, var unnið undir leiðsögn Lofts Guttormssonar prófessors við KHÍ, síðar Menntavísindasvið HÍ. Ritgerðin var lögð fram til varnar haustið 2013.

miðvikudagur, 2. nóv 2016

Hlaðvarp: Susanne Arthur: Skrifarinn byrjar bókina, en lesandinn lýkur henni

mánudagur, 31. okt 2016

Hádegisfyrirlestur 1. nóvember: Karlmenn í fæðingarhjálp

Þriðjudaginn 1. nóvember flytur Erla Dóris Halldórsdóttir doktor í sagnfræði erindið „Karlmenn í fæðingarhjálp.“ Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Í dag starfar enginn karlmaður sem ljósmóðir á Íslandi og svo hefur ekki verið frá því í byrjun 20. aldar. Karlmenn tóku þó á móti börnum og sá fyrsti sem lauk ljósmæðraprófi gerði það árið 1776. Það var bóndi í Suður-Þingeyjarsýslu. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hóp af körlum sem sinntu ljósmæðrastörfum á Íslandi á 18. og 19. öld. Saga þessara karla er við það að gleymast.

Erla Dóris Halldórsdóttir varði doktorsritgerð sína, Fæðingarhjálp á Íslandi 1760–1880, við Háskóla Íslands í lok október á þessu ári en hún lauk bæði BA–prófi og MA–prófi í sagnfræði við sama skóla. Síðustu ár hefur hún starfað, með hléum, sem sérfræðingur hjá Þjóðskjalasafni Íslands. Hún starfar nú sem sjálfstætt starfandi sagnfræðingur.

Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

miðvikudagur, 12. okt 2016

Hádegisfyrirlestur 18. október: Orðasaga

Þriðjudaginn, 18. október, flytur Katrín Axelsdóttir erindið Orðasaga á vegum Sagnfræðingafélags Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, en fyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Katrín Axelsdóttir er höfundur bókarinnar Sögur af orðum (2014). Bókin er doktorsritgerð hennar og fjallar um beygingarsögu nokkurra orða og orðahópa, einkum fornafna, sem eiga það sameiginlegt að hafa tekið miklum breytingum frá elsta skeiði í íslensku – máli sem er frægt fyrir íhaldssemi, ekki síst hvað varðar beygingu orða.

Á grundvelli allmikils efniviðar er reynt að rekja beygingarsöguna og skýra. Athygli er jafnframt beint að því sem er líkt (og um leið því sem er ólíkt) í beygingarsögu orðanna. Þar er um að ræða atriði eins og hugsanleg erlend áhrif, mállýskumun, hvenær breytingarnar verða, þann tíma sem þær taka og þá stefnu sem þær taka, þ.e. hvort þær leiða til einhvers konar einföldunar eða ekki.

Í erindinu verður sagt frá tilurð bókarinnar og byggingu, markmiðum, verklagi, heimildum, sjónarhornum, ýmsum niðurstöðum og því gagni sem má hafa af þeim.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Einnig má hafa samband við Vilhelm Vilhelmsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið vilhelmv@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted through Vilhelm Vilhelmsson: vilhelmv@hi.is.

Search this page


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins

24. janúar
Íris Ellenberger: Fæðing hinnar íslensku lesbíu

7. febrúar
Markús Þ. Þórhallsson: „Hausavíxl á sýslumanni og sálusorgara“. Trúfrelsi og fyrsta borgaralega hjónavígslan á Íslandi

21. febrúar
Úlfar Bragason: „Ég viðurkenni ekki tískuna, að „frjósa menn út““. Óþægilegar skoðanir þaggaðar

7. mars
Gunnar Karlsson: Ísland sem jaðarsvæði evrópskrar miðaldamenningar

21. mars
Vilhelm Vilhelmsson: Hrói höttur íslands? Ísleifur seki Jóhannesson og glæpaaldan í Langadal á öndverðri 19. öld

4. apríl
Unnur Birna Karlsdóttir: Öræfabörn. Um hreindýr á Íslandi

18. apríl
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir: Á jaðri hins pólitíska valds? Norskar drottningar á miðöldum

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 897-2434- Tölvupóstur: vilhelmv[hjá]hi.is