Nýjustu færslur

þriðjudagur, 21. okt 2014

Hlaðvarp: Sverrir Jakobsson og Ann-Sofie Gremaud: Þjóðarímyndir og söguskoðanir Íslendinga á ólíkum tímum

þriðjudagur, 14. okt 2014

Hádegisfyrirlestrar: Þjóðarímyndir og söguskoðanir Íslendinga á ólíkum tímum

Næstkomandi þriðjudag, þann 21. október, halda Ann-Sofie Gremaud og Sverrir Jakobsson hádegisfyrirlestra á vegum Sagnfræðingafélagsins undir yfirskriftinni „Þjóðarímyndir og söguskoðanir Íslendinga á ólíkum tímum“. Hádegisfyrirlestrarnir fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og hefjast kl. 12:05.

Í söguskoðunum manna birtast hugmyndir þeirra um eigin fortíð. Þeim fylgja ákveðnar ímyndir sem hópurinn eignar sér og ber saman við ímyndir annarra hópa. Þjóðarímyndir og söguskoðanir eru þannig samofin. Hvernig hafa þjóðarímyndir birst í söguskoðun Íslendinga á ólíkum tímum? Hvaða hópa eða þjóðir hafa Íslendingar borið sig saman við og hvers konar ímyndir hafa þeir notað í sköpun söguskoðunar og sjálfsmyndar sinnar?

Ann-Sofie Gremaud er er menningarsagnfræðingur og vinnur um þessar mundir við Kaupmannahafnarháskóla að alþjóðlega rannsóknarverkefninu „Denmark and the New North Atlantic“. Doktorsritgerð hennar, sem hún varði fyrir tveimur árum, fjallaði um samband Íslands og Danmerkur, íslenska þjóðarímynd og lýsingar á íslensku landslagi út frá eftirlendufræðum og kenningum um dullendur.

Sverrir Jakobsson er prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands. Doktorsritgerð hans fjallaði um heimsmynd Íslendinga 1100-1400 og kom út í bók undir nafninu Við og veröldin árið 2005. Sverrir stýrir um þessar mundir stóru rannsóknarverkefni um sögu Breiðafjarðar og var einn útgefenda Hákonar sögu, sem kom út á vegum Íslenzkra fornrita árið 2013.

Allir velkomnir!

miðvikudagur, 8. okt 2014

Málþing: Fólk í heimildum, heimildir um fólk

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra heldur málþingið Fólk í heimildum – heimildir um fólk laugardaginn 11. október næstkomandi. Þingið verður haldið í bókasafni Halldórs Bjarnasonar í húsakynnum Rannsóknaseturs HÍ á Einbúastíg 2 á Skagaströnd.

VEGNA DRÆMRAR ÞÁTTTÖKU HEFUR HÓPFERÐ Á ÞINGIÐ FRÁ REYKJAVÍK VERIÐ AFLÝST. MÁLÞINGIÐ VERÐUR ÞÓ ÁFRAM Á DAGSKRÁ MEÐ ÓBREYTTU SNIÐI OG ALLIR VELKOMNIR.

Fólk í heimildum – heimildir um fólk

Heimildir um fortíðina innihalda margvíslegar upplýsingar um fólk og fræðimenn vitja heimildanna gjarnan til þess að kynnast þessu fólki, lífi þeirra, hugsunum og tilfinningum í von um að öðlast innsýn í fortíðina. En hversu raunsanna mynd af fólki í öllum sínum margbreytileika gefa þær heimildir sem varðveist hafa? Og hvaða rétt hafa fræðimenn til þess að rannsaka og skrifa um líf einstaklinga líkt og það birtist í heimildum sem aldrei voru ætlaðar sjónum almennings eða urðu til við rannsókn yfirvalda á viðkvæmum stundum í lífi þess? Lesa áfram »

þriðjudagur, 7. okt 2014

Hlaðvarp: Hilmar Magnússon og Íris Ellenberger: Að skrifa eigin sögu

miðvikudagur, 1. okt 2014

Hádegisfyrirlestur: Að skrifa eigin sögu

Næstkomandi þriðjudag, þann 7. október, halda Hilmar Magnússon og Íris Ellenberger hádegisfyrirlestra á vegum Sagnfræðingafélags Íslands undir yfirskriftinni „Að skrifa eigin sögu. Sagnfræði og hinsegin saga“. Fyrirlestrarnir fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefjast kl. 12:05.

Saga hinsegin fólks hefur ekki verið áberandi í sögubókum Íslendinga og henni hefur lítið verið sinnt af starfandi akademískum sagnfræðingum. Þau hafa hins vegar lagt rækt við sína sögu eftir eigin leiðum og safnað heimildum, skrifað greinar og haldið fyrirlestra. En hvaða álitamál geta komið upp þegar hópar velja að skrifa eigin sögu? Hvers konar söguskoðun birtist í skrifum þeirra? Hverjir eru kostir og gallar þess að skrifa eigin sögu? Á hvaða hátt tengjast slík skrif hefðum akademískrar sagnfræði?

Hilmar Magnússon er formaður Samtakanna ´78. Hann starfar einnig sem alþjóðafulltrúi á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara í Reykjavík. Hilmar er með MA-gráðu í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands og BA-gráðu í arkitektúr frá Arkitektskolen i Aarhus. Íris Ellenberger útskrifaðist með doktorspróf í sagnfræði frá Háskóla Íslands síðastliðið vor, en doktorsritgerð hennar fjallar um Dani á Íslandi á árunum 1900-1970. Hún hefur um árabil stundað hinsegin og feminískan aktívisma, skrifað fjölda greina og haldið fyrirlestra á því sviði. Um þessar mundir vinnur hún að því að taka viðtöl fyrir Evrópurannsókn á högum hinsegin fólks á Íslandi, Spáni, Frakklandi og Ítalíu.

Allir velkomnir!

mánudagur, 29. sep 2014

Fyrirlestrakall: Nýjar rannsóknir í sagnfræði

Sagnfræðingafélag Íslands kallar eftir tillögum að framsögum fyrir hádegisfyrirlestraröð félagsins á vormisseri 2015. Félagið hefur ákveðið að endurtaka leikinn frá fyrra ári og helga fyrirlestraröðina nýjum rannsóknum í sagnfræði. Allir sagnfræðingar sem vinna að rannsóknum eru hvattir til að senda inn tillögur, hvort sem verkefnin eru enn í vinnslu eða er lokið. Framhaldsnemar í sagnfræði eru ekki síður hvattir til að láta í sér heyra. Það er von félagsins að í fyrirlestraröðinni verði hægt að kynna það sem efst er á baugi í íslenskum sagnfræðirannsóknum.

Tillögur skulu sendar til Kristínar Svövu Tómasdóttur á netfangið kst3@hi.is, en skilafrestur er til 15. nóvember.

þriðjudagur, 23. sep 2014

Hlaðvarp: Gunnar Karlsson og Súsanna Margrét Gestsdóttir: Að búa til söguskoðun

Hlaðvarp: Íris Ellenberger: Danir á Íslandi 1900-1970

miðvikudagur, 17. sep 2014

Hádegisfyrirlestur: Að búa til söguskoðun

Næstkomandi þriðjudag, þann 23. september, munu sagnfræðingarnir Gunnar Karlsson og Súsanna Margrét Gestsdóttir flytja fyrstu hádegisfyrirlestra Sagnfræðingafélagsins á haustmisseri 2014 undir yfirskriftinni „Að búa til söguskoðun“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12:05.

Kennarar og höfundar kennslubóka um sögu starfa beinlínis við það að miðla sögulegri þekkingu til nemenda. Í því starfi búa þeir við ákveðinn ramma sem þeim er gert að starfa eftir en komast þó aldrei hjá því að taka á einhverjum tímapunkti afstöðu til þess hvers konar söguskoðun þeir vilji halda að nemendum og hvers vegna. Sagnfræðingar hafa gjarnan vísað til kennslubóka í sögu eða kennsluaðferða í skólum landsins til þess að útskýra hvers vegna tilteknar söguskoðanir halda velli þótt þær þyki ekki samræmast nýrri rannsóknum á sviðinu. Öðrum þykja þær bækur eða kennsluaðferðir ekki samræmast þeim gildum sem námið eigi að stuðla að. En hvaða sjónarmið eiga að ráða för við gerð kennslubóka í sögu? Hvað ræður því hvers konar söguskoðun er miðlað í slíkum bókum? Er æskilegt að sögukennsla rækti hjá nemendum eina söguskoðun umfram aðra? Hvernig myndi annars konar sögukennsla, þar sem forðast væri að miðla einni sýn á söguna umfram aðra, líta út?

Gunnar Karlsson hefur skrifað fjölda námsbóka í sögu fyrir öll skólastig, frá grunnskóla upp í háskóla, auk annarra ritstarfa og rannsókna og kennslu á háskólastigi. Súsanna Margrét Gestsdóttir hefur kennt sögu í framhaldsskólum og kennslufræði í HÍ um árabil, unnið með sögukennurum um alla Evrópu að margvíslegum viðfangsefnum og er nú í doktorsnámi í kennslufræði sögu.

Allir velkomnir!

föstudagur, 18. apr 2014

Hádegisfyrirlestur: Danir á Íslandi 1900-1970. Félagsleg staða, samþætting og þverþjóðleiki.

Næstkomandi þriðjudag, 22. apríl, mun Íris Ellenberger flytja erindi sem kallast "Danir á Íslandi 1900-1970. Félagsleg staða, samþætting og þverþjóðleiki."

Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands sem ber yfirskriftina „Nýjustu rannsóknir í sagnfræði.“ Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12.05

Allir velkomnir.


Þessi síða

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Hringbraut 121
IS-107 Reykjavík

Einnig má hafa samband við Árna Daníel Júlíusson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið arnidan@akademia.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted through Árni Daníel Júlíusson: arnidan@akademia.is.

Leit á þessari síðu


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins

23. september
Gunnar Karlsson og Súsanna Margrét Gestsdóttir: Að búa til söguskoðun

7. október
Hilmar Magnússon og Íris Ellenberger: Að skrifa eigin sögu. Sagnfræði og hinsegin saga

21. október
Sverrir Jakobsson og Ann Sofie Gremaud: Þjóðarímyndir og söguskoðanir Íslendinga á ólíkum tímum

4. nóvember
Axel Kristinsson og Helgi Skúli Kjartansson: Vísindi, sannleikur og söguskoðun

18. nóvember
Vilhelm Vilhelmsson og Sólveig Ólafsdóttir: Söguskoðun söguendurskoðunar

2. desember
Jón Ólafsson og Lára Magnúsardóttir: Söguskoðun, heimspeki og samfélag

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS slóð á greinar. RSS slóð á ummæli.

Knúið af WordPress. Rétt XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 866-3131 - Tölvupóstur: viv13[hjá]hi.is