Nýjustu færslur

þriðjudagur, 24. mar 2015

Aðalfundur Sagnfræðingafélagsins 26. mars

Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands 2015 verður haldinn fimmtudaginn 26. mars kl. 19:30 í sal ReykjavíkurAkademíunnar, Þórunnartúni 2, 4. hæð.

Dagskrá fundarins:

1. Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar.
2. Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar.
3. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
4. Kjör stjórnar. Kjör tveggja endurskoðenda reikninga
5. Önnur mál

Að loknum fundarstörfum eða kl. 20.00 mun dr. Þorsteinn Helgason flytja erindi er nefnist

Rannsókn á Tyrkjaráninu: einsömul iðja í samfélagi fræðanna.

Dr. Þorsteinn Helgason hefur kennt á öllum skólastigum en er nú dósent í sagnfræði og sögukennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Boðið verður upp á léttar veitingar í lok fundar.

Hlaðvarp: Finnur Jónasson: Fátækralöggjöfin frá 1907 til 1935 og sjálfsmynd reykvískra þurfamanna í upphafi 20. aldar

þriðjudagur, 17. mar 2015

Hádegisfyrirlestur: Fátækralöggjöfin frá 1907 til 1935 og sjálfsmynd reykvískra þurfamanna í upphafi 20. aldar

Þriðjudaginn 24. mars flytur Finnur Jónasson hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélagsins undir yfirskriftinni „Fátækralöggjöfin frá 1907 til 1935 og sjálfsmynd reykvískra þurfamanna í upphafi 20. aldar“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um fátækralöggjöfina á Íslandi frá árinu 1907 til ársins 1935 og framkvæmd hennar. Einnig verður fjallað um líf þurfamanna í Reykjavík á tímabilinu og viðhorf þeirra til eigin stöðu, viðhorf almennings til fátæktarframfærslu og þurfamennsku og þær breytingar sem urðu á orðræðu um fátækt á tímabilinu.

Árið 1905 voru sett ný fátækralög sem tóku gildi árið 1907 og giltu til ársins 1935. Þrátt fyrir að þau hafi bætt stöðu þurfamanna lítillega voru enn í þeim ákvæði um nær algeran réttindamissi þeirra sem þáðu fátækrastyrki. Fátækralögin voru mjög umdeild og urðu talsverðar deilur um þau, bæði á Alþingi og í dagblöðum, og lagðar voru fram margar tillögur til þess að breyta lögunum til mannúðlegri vegar. Litlar breytingar urðu þó á lögunum á gildistíma þeirra. Framkvæmd fátækralaga í Reykjavík tók hins vegar talsverðum breytingum á lokaárum þriðja áratugarins og aukin harka færðist í meðferð þeirra þurfamanna sem taldir voru eiga sök á eigin vanda. Í fyrirlestrinum verður fjallað um aðstæður þurfamanna í Reykjavík, sjálfsmynd þeirra og viðhorf til eigin stöðu. Fjallað verður um hvernig viðhorf þeirra féllu að skoðunum ráðamanna á þeim og hvort ráða megi breytingar á skoðunum þurfamanna til stöðu sinnar þegar líða tekur á tímabilið.

Finnur Jónasson er MA-nemi í sagnfræði og byggir fyrirlesturinn á meistararitgerð hans.

fimmtudagur, 12. mar 2015

Hlaðvarp: Sumarliði Ísleifsson: Hreinlæti og óhreinlæti í lýsingum frá Íslandi og Grænlandi frá 18. öld og fram á þá 20.

miðvikudagur, 4. mar 2015

Hádegisfyrirlestur: Hreinlæti og óhreinlæti í lýsingum frá Íslandi og Grænlandi frá 18. öld og fram á hina 20.

Þriðjudaginn 10. mars flytur Sumarliði Ísleifsson, sagnfræðingur og ritstjóri, hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands undir yfirskriftinni „Hreinlæti og óhreinlæti í lýsingum frá Íslandi og Grænlandi frá 18. öld og fram á hina 20.“ Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.

Í erindinu verður rætt um hvernig hugmyndir um óhreinlæti og hreinlæti birtast í erlendum lýsingum frá Íslandi og Grænlandi frá 18. öld og fram á hina 20. og kannað hvaða merkingu þessar lýsingar hafa: Eru þær ef til vill aðallega til marks um það hvort og hvernig þjóðir þessara landa séu hluti af siðmenningu og nútíma eða ekki. Litið verður til þess hvort hugmyndir á þessu sviði hafi breyst á 19. og 20. öld og hvernig and-nútímaleg viðhorf höfðu áhrif í þessu samhengi. Kynþáttahyggja kemur hér einnig til umræðu og hvort litið hafi verið á fólk þessara landa sem „hreint“ eða ekki í því samhengi. Loks verður getið um hvaða aðrir menningarsögulegir þættir koma helst til sögu þegar metið er hvort fólk teljist nútímalegt og siðmenntað eða ekki.

þriðjudagur, 24. feb 2015

Hlaðvarp: Sveinn Máni Jóhannesson: Ríki og þekking í Bandaríkjunum á nítjándu öld

þriðjudagur, 17. feb 2015

Hádegisfyrirlestur: Ríki og þekking í Bandaríkjunum á nítjándu öld

Þriðjudaginn 24. febrúar flytur Sveinn Máni Jóhannesson fyrirlestur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins á vegum Sagnfræðingafélagsins Íslands. Fyrirlesturinn ber titilinn „Ríki og þekking í Bandaríkjunum á nítjándu öld“ og hefst kl. 12:05.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um samspil þekkingar og ríkisvalds í Bandaríkjunum á fyrri hluta nítjándu aldar. Markmiðið er að að varpa nýju ljósi á myndun bandaríska ríkisins. Styrkur nútímaríkja er nátengdur getu þeirra til að afla sér þekkingar og hagnýta hana. Sérfræðiþekking var því lykilatriði við ríkismótun í kjölfar Bandarísku byltingarinnar í lok átjándu aldar. Bandaríkin – sem urðu fyrsta landnemaríkið í Nýja heiminum – þurftu að afla sér þekkingar á því náttúrulega og félagslega umhverfi sem þau gerðu tilkall til að stjórna. Til þess að verða ráðandi afl í Norður-Ameríku leitaðist alríkisstjórnin við að fanga og hagnýta óþekkt landsvæði, náttúruauðlindir og mannafla. Þessi sameiginlegu markmið opinberra stofnanna, kapítalista, þrælahaldara og bænda útheimtu víðtæka þekkingu á vísindum og tækni. Fyrir tilkomu rannsóknaháskóla og einkarekinna rannsóknastofnanna féll það einkum í hlut alríkisins að mæta þeirri þörf. Fræðimenn hafa hingað til gefið samtvinnun þekkingar og ríkisvalds í Bandaríkjunum lítinn gaum. Hún fellur ekki vel að hefðbundnum (weberískum) greiningarömmum og söguskýringum þar sem lögð er áhersla á sérstöðuhugmyndir eða þjóðarsögu. En um miðja nítjándu öld var sérfræðiþekking orðin að lykilatriði í stefnu alríkisstjórnarinnar. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hversu þekkingarframleiðsla hafði víðtæk áhrif á mótun alríkisstofnanna, lagakerfisins, hugmyndafræði og innviða landsins.

Sveinn Máni Jóhannesson er doktorsnemi í sagnfræði við Cambridge-háskóla í Bretlandi.

mánudagur, 16. feb 2015

Bókafundur Sagnfræðingafélagsins og Sögufélags

Bókafundur Sagnfræðingafélags Íslands og Sögufélags verður haldinn í nýjum húsakynnum ReykjavíkurAkademíunnar að Þórunnartúni 2 (áður Skúlatúni 2) í Reykjavík fimmtudagskvöldið 19. febrúar kl. 20:00-22:00. Á fundinum verður sjónum fyrst beint að ævisögum og hvaða ólíku tökum sagnaritarar geta tekið viðfangsefni sín. Síðan mun sagan snúast um Reykjavík í öllu sínu veldi, borgina sem var og borgina sem hefði getað orðið. Með þetta í huga verður fjallað um eftirtalin rit:

Gísli Pálsson, Hans Jónatan. Maðurinn sem stal sjálfum sér
Helga Guðrún Johnson, Saga þeirra, sagan mín. Katrín Stella Briem
Eggert Þór Bernharðsson, Sveitin í sálinni. Búskapur í Reykjavík og myndun borgar
Anna Dröfn Ágústsdóttir og Guðni Valberg, Reykjavík sem ekki varð

Allir eru velkomnir. Aðgangur ókeypis.

Staðsetningu ReykjavíkurAkademíunnar má sjá hér:

http://ja.is/kort/?q=Reykjav%C3%ADkurAkadem%C3%ADan%2C%20%C3%9E%C3%B3runnart%C3%BAni%202&x=358360&y=407950&z=8&type=map

þriðjudagur, 3. feb 2015

Hádegisfyrirlestur: Þær þráðinn spunnu. Konur í Vestmannaeyjum 1835-1980

Þriðjudaginn 10. febrúar nk. heldur Gunnhildur Hrólfsdóttir hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélagsins undir yfirskriftinni „Þær þráðinn spunnu. Konur í Vestmannaeyjum 1835-1980“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.

Fátt hefur verið tekið saman um konurnar í Vestmannaeyjum sem þurftu að lúta náttúruöflunum við vatnsskort og einangrun í erfiðri lífsbaráttu. Slóðin sem feta þarf til að finna heimildir um þær er ekki auðrakin. Rannsóknin hefst við ártalið 1835 en þá er fyrst farið að nefna annað en húsbændur og hjú í manntölum. Í heimildum frá þeim tíma er kvenna sjaldan getið nema þær hafi gert mönnum sínum þann óleik að deyja frá hóp af börnum, eða væru mæður „mikilmenna.“ Þegar leið á 20. öldina jukust möguleikar kvenna og hafa Eyjarnar alið listakonur eins og Júliönu Sveinsdóttur og Högnu Sigurðardóttur. Í eldgosinu 1973 flúðu allir eyjabúar og og nú rúmum 40 árum síðar eru konur farnar að gera upp tilfinningar sínar gagnvart þessum afdrifaríka atburði.

Gunnhildur Hrólfsdóttir er rithöfundur og sagnfræðingur. Hún hefur bæði skrifað fyrir börn og fullorðna, einnig leikrit fyrir útvarp og unnið og flutt útvarpsþætti, auk greina í blöð og tímarit.

þriðjudagur, 27. jan 2015

Hlaðvarp: Erla Hulda Halldórsdóttir: Ferð til fortíðar & sagnfræðingurinn í verki sínu


Þessi síða

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Einnig má hafa samband við Árna Daníel Júlíusson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið arnidan@akademia.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted through Árni Daníel Júlíusson: arnidan@akademia.is.

Leit á þessari síðu


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins

27. janúar
Erla Hulda Halldórsdóttir: Ferð til fortíðar og sagnfræðingurinn í verki sínu

10. febrúar
Gunnhildur Hrólfsdóttir: Þær þráðinn spunnu. Konur í Vestmannaeyjum 1835-1980

24. febrúar
Sveinn Máni Jóhannesson: Ríki og þekking í Bandaríkjunum á 19. öld

10. mars
Sumarliði Ísleifsson: Hreinlæti og óhreinlæti í lýsingum frá Íslandi og Grænlandi frá 18. öld og fram á hina 20.

24. mars
Finnur Jónasson: Sjálfsmynd reykvískra þurfamanna í upphafi 20. aldar

7. apríl
Skafti Ingimarsson: „Glöggt er gestsaugað“. Drengsmálið í ljósi danskra heimilda

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS slóð á greinar. RSS slóð á ummæli.

Knúið af WordPress. Rétt XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 866-3131 - Tölvupóstur: viv13[hjá]hi.is