Latest entries

miðvikudagur, 12. okt 2016

Hádegisfyrirlestur 18. október: Orðasaga

Þriðjudaginn, 18. október, flytur Katrín Axelsdóttir erindið Orðasaga á vegum Sagnfræðingafélags Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, en fyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Katrín Axelsdóttir er höfundur bókarinnar Sögur af orðum (2014). Bókin er doktorsritgerð hennar og fjallar um beygingarsögu nokkurra orða og orðahópa, einkum fornafna, sem eiga það sameiginlegt að hafa tekið miklum breytingum frá elsta skeiði í íslensku – máli sem er frægt fyrir íhaldssemi, ekki síst hvað varðar beygingu orða.

Á grundvelli allmikils efniviðar er reynt að rekja beygingarsöguna og skýra. Athygli er jafnframt beint að því sem er líkt (og um leið því sem er ólíkt) í beygingarsögu orðanna. Þar er um að ræða atriði eins og hugsanleg erlend áhrif, mállýskumun, hvenær breytingarnar verða, þann tíma sem þær taka og þá stefnu sem þær taka, þ.e. hvort þær leiða til einhvers konar einföldunar eða ekki.

Í erindinu verður sagt frá tilurð bókarinnar og byggingu, markmiðum, verklagi, heimildum, sjónarhornum, ýmsum niðurstöðum og því gagni sem má hafa af þeim.

sunnudagur, 2. okt 2016

Kallað eftir erindum: Á jaðrinum

Sagnfræðingafélag Íslands kallar eftir erindum fyrir hádegisfyrirlestraröð félagsins á vormisseri 2017. Yfirskrift fyrirlestranna í þetta sinn verður „Á jaðrinum“. Kallað er eftir erindum um fólk eða fyrirbæri sem eru eða hafa verið á jaðrinum eða hafa verið á einhvern hátt verið jaðarsett á ólíkum tímum sögunnar, til dæmis í efnahagslegum, félagslegum, menningarlegum, kynferðislegum, landfræðilegum eða þekkingarfræðilegum skilningi.

Skilafrestur á tillögum er 15. október næstkomandi. Tillögum má skila til formanns félagsins á netfangið vilhelmv@hi.is.

miðvikudagur, 28. sep 2016

Hádegisfyrirlestur 4. október: Jartein og sakramenti: Nýir tímar, ný bjargráð

Þriðjudaginn, 4. október, flytur Skúli S. Ólafsson erindið „Jartein og sakramenti: Nýir tímar, ný bjargráð“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, en fyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Í fyrirlestrinum fjallar Skúli um altarissakramentið sem öðlaðist aukið vægi í stjórnsýslu, menningu og trúarlífi á Íslandi og víðar þar sem lútherskur siður ríkti í kjölfar siðaskiptanna. Þeirri spurningu verður varpað fram hvort altarisgangan hafi öðlast þann sess sem jartein höfðu á miðöldum, sem haldráð í baráttu daganna og tenging við æðri máttarvöld.

Skúli S. Ólafsson er fæddur í Reykjavík 1968. Hann lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1996. Hann hefur stundað framhaldsnám við Kaupmannhafnarháskóla og Gautaborgarháskóla og birt nokkrar fræðigreinar um íslensku kirkjuna á lærdómsöld. Sumarið 2014 varði hann doktorsritgerð sína við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Heiti ritsins er Altarisganga á Íslandi 1570 til 1720. Fyrirkomulag og áhrif. Skúli er sóknarprestur við Neskirkju.

þriðjudagur, 13. sep 2016

Hádegisfyrirlestrar haustsins: Nýlegar doktorsrannsóknir um söguleg efni

fyrirlestrar-haust-2016-plakat-reresize

mánudagur, 12. sep 2016

Hádegisfyrirlestur 20. september: Skrifarinn byrjar bókina, en lesandinn lýkur henni: Njáluhandrit og lesendur þeirra

Þriðjudaginn 20. september hefst hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins á haustmisseri með fyrirlestri Susanne Arthur, „Skrifarinn byrjar bókina, en lesandinn lýkur henni: Njáluhandrit og lesendur þeirra“, en fyrirlestraröð haustsins hefur yfirskriftina Nýlegar doktorsrannsóknir um söguleg efni. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, en fyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Um það bil sextíu handrit og handritabrot Njálu frá fjórtándu til nítjándu aldar eru varðveitt í handritasöfnum á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Bretlandi.

Susanne Arthur lauk doktorsgráðu (Ph.D.) í norrænum fræðum og miðaldafræði frá háskólanum í Madison, Wisconsin (USA), í maí 2015. Doktorsverkefni hennar kallast, „Writing, Reading, and Utilizing Njáls saga: The Codicology of Iceland’s Most Famous Saga.“ Ritgerðin er kódikólógísk rannsókn á handritum og brotum sem innihalda Njálu. Ritgerðin var tengd alþjóðlega rannsóknarverkefninu „Breytileiki Njáls sögu,” sem RANNÍS styrkti. Ennfremur rannsakaði Susanne einkenni óháð textanum („paratextual features“), svo sem spássíugreinar, undirstrikuð orðtök og annað sem gæti borið eigendunum og lesendunum vitni, til að draga upp mynd af þeim og viðhorfum þeirra til Njálu.

Í fyrirlestrinum sýnir Susanne hvernig nota má handritaeinkenni (eins og stærð, umbrot og þéttleika textans) til að rannsaka hvaða hlutverk handritunum var ætlað, t.d. má greina á milli fræðilegra uppskrifta („scholarly copies”), skreyttra glæsihandrita og einfaldra, þéttari uppskrifta til persónulegra nota. Nokkur Njáluhandrit eru notuð sem dæmisögur („ case studies”) til að útskýra hvernig hægt er að nota kódíkólogísk gögn og einnig spássíugreinar, merki eiganda og texta sem bundnir eru saman í handrit til að endurgera sögu og félagslegan bakgrunn handritanna.

Erindið verður flutt á íslensku.

mánudagur, 22. ágú 2016

Fyrirlestur 3. september: Læknaréttarhöldin í Nürnberg

Laugardaginn 3. september næstkomandi standa Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar og Sagnfræðingafélag Íslands fyrir fyrirlestri þýska fræðimannsins Andreas Frewer um læknaréttarhöldin í Nürnberg 1946-1947. Fyrirlesturinn er á ensku og kallast „Physicians without Ethics? 70 Years Nuremberg Doctor´s Trial“. Hann fer fram í Þjóðminjasafninu og hefst kl. 10:00.

Í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar fóru fram réttarhöld í Nürnberg yfir þýskum læknum sem gert höfðu hörmulegar rannsóknir á fólki í tíð nasista. Læknaréttarhöldin mörkuðu tímamót í sögu læknisfræðinnar. Þau snerust um læknisfræði án mannúðar og vísindi án siðferðislegra takmarkana. Helsinki-yfirlýsing Alþjóðasamtaka lækna má rekja til svokallaðra Nürnberg-reglna sem samdar voru í kjölfar þessara réttarhalda.

Andreas Frewer er prófessor í siðfræði og sögu læknisfræðinnar við Háskólann í Erlangen-Nürnberg í Þýskalandi. Hann nam læknisfræði, heimspeki og sögu læknisfræðinnar í Munchen, Vín, Berlín og víðar. Frewer er höfundur yfir 200 greina og nokkurra bóka um siðfræði og sögu læknisfræðinnar.

mánudagur, 2. maí 2016

Kallað eftir erindum: Nýlegar doktorsrannsóknir um söguleg efni

Sagnfræðingafélag Íslands kallar eftir erindum á hádegisfyrirlestraröð félagsins á haustmisseri 2016. Í þetta sinn verður þema fyrirlestranna nýlegar doktorsrannsóknir um söguleg efni. Kallað er eftir tillögum að erindum frá nýdoktorum sem lokið hafa doktorsgráðu á undanförnum fimm árum og fjalla í rannsókninni um söguleg viðfangsefni með einhverjum hætti, óháð fræðasviði. Fyrirlestrarnir skulu vera frjálsleg kynning á doktorsrannsókninni sjálfri, kenningum sem stuðst var við, aðferðafræði sem beitt var eða niðurstöðum höfundar. Sérstaklega er óskað eftir tillögum frá þeim sem varið hafa doktorsritgerðir við háskóla erlendis.

Tillögur að erindum skal senda á formann Sagnfræðingafélagsins, Vilhelm Vilhelmsson, á netfangið viv13@hi.is. Skilafrestur er til 10. maí næstkomandi.

þriðjudagur, 19. apr 2016

Hádegisfyrirlestur 26. apríl: Félagabylgjan á 19. öld: forsenda fjöldahreyfinga?

Þriðjudaginn 26. apríl heldur Hrafnkell Lárusson síðasta hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélagsins í vor. Fyrirlesturinn kallast „Félagabylgjan á 19. öld: forsenda fjöldahreyfinga?“ Hann hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Fram eftir 19. öld var félagastarf á Íslandi fremur lítið og þátttaka í því ekki almenn. Þeir sem helst drógu vagninn í þeim félögum störfuðu á fyrri hluta 19. aldar voru embættismenn og aðrir háttsettir einstaklingar í samfélaginu. Þrátt fyrir ítrekaðar hvatningar (t.d. af hálfu Jóns Sigurðssonar í Nýjum félagsritum, strax árið 1844) óx félagastarf með þátttöku almennings mjög hægt þar til á síðasta fjórðungi 19. aldar, en þá verða afgerandi skil. Um og uppúr 1880 reis bylgja félaga sem stofnuð voru um hin margvíslegustu efni. Sum þessara félaga urðu síðar hluti skipulagðra fjöldahreyfinga en önnur ekki. Flest félögin störfuðu í litlum einingum, innan einstakra sveita eða héraða. Þessi félög störfuðu á lýðræðislegum grunni, starf þeirra miðaði að því að auðga og bæta samfélagið og þau leituðust við að höfða til almennings og hvetja sem flesta til þátttöku.

Sú þróun sem hér er lýst í örstuttu máli vekur ýmsar spurningar: Hvað olli því að þessi félagabylgja reis – og á þeim tíma sem um ræðir en ekki fyrr? Hvaða hvatar leiddu til þessa og hvaðan komu þeir? Hvers vegna tók íslenskt alþýðufólk, sem upp til hópa hafði takmörkuð lýðræðisleg réttindi (fæstir höfðu kosningarétt eða kjörgengi), að taka þátt í félagastarfi? Var þessi félagabylgja forsenda skipulagðra fjöldahreyfinga sem urðu til um aldamótin 1900 eða hefðu þær orðið til hvort sem er?

Hrafnkell Lárusson er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Doktorsverkefni hans ber yfirskriftina Lýðræði í mótun: viðhorf, iðkun og þátttaka almennings.

þriðjudagur, 5. apr 2016

Hádegisfyrirlestur 12. apríl: Samfélag fyrir alla! Framlag verkalýðshreyfingarinnar til velferðar í íslensku samfélagi

Þriðjudaginn 12. apríl mun Halldór Grönvold halda hádegisfyrirlestur hjá Sagnfræðingafélaginu sem hann kallar „Samfélag fyrir alla! Framlag verkalýðshreyfingarinnar til velferðar í íslensku samfélagi“. Fyrirlestur Halldórs var áður á dagskrá í mars en féll þá niður. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Í fyrirlestrinum mun Halldór leitast við að gera grein fyrir frumkvæði og leiðandi hlutverki Alþýðusambands Íslands og aðildarsamtaka þess í mótun íslenska velferðarsamfélagsins frá stofnun sambandsins fyrir réttum 100 árum til okkar daga. Einkum verður dvalið við tvo þætti í þessari þróun: Annars vegar það sem lítur að sjúkra- slysa-, lífeyris- og atvinnuleysistryggingum og hins vegar baráttu Alþýðusambandsins fyrir mannsæmandi húsnæði fyrir lágtekjufólk, sigrum þess og ósigrum. Einnig verður leitað svara við spurningunni af hverju barátta Alþýðusambandsins hefur verið jafn „pólitísk“ og sagan sýnir, líka eftir að slitið var á tengsl Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins, og hvernig skýringanna er að leita í því stjórnmálakerfi sem hér þróaðist.

Halldór Grönvold er aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands. Hann hefur BA-gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands og MA-gráðu í vinnumarkaðsfræðum frá University of Warwick og er áhugamaður um verkalýðs- og samfélagssögu.

þriðjudagur, 22. mar 2016

Hádegisfyrirlestur 29. mars: Fjöldahreyfingar með skýr gildi og virðingu fyrir náttúru

Þriðjudaginn 29. mars heldur Anna Kristjánsdóttir hádegisfyrirlestur hjá Sagnfræðingafélaginu sem hún kallar „Fjöldahreyfingar með skýr gildi og virðingu fyrir náttúru“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Fjallað er um fjöldahreyfingar með skýr gildi og áherslu, m.a. á náttúru landsins og að virða hana. Til grundvallar liggja skrif bókarinnar Skátafélag - mikilvægt afl í samfélagi, en þar er athygli einnig beint að öðrum félögum sem skátar áttu samskipti og samstarf við undanfarna öld.

Anna Kristjánsdóttir lauk BA-prófi í stærðfræði og sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1967 og varð cand.pæd. í stærðfræði árið 1972. Hún var ráðin lektor í stærðfræði við Kennaraháskóla Íslands árið 1980, síðar dósent í stærðfræði og frá 1991 prófessor í stærðfræðimenntun. Árið 2002 var hún kölluð til starfa í Noregi og starfaði þar næstu árin en frá árinu 2011 hefur hún verið prófessor emerita við Háskóla Íslands og Háskólann í Agder í Noregi. Anna á að baki ýmis störf og skrif alþjóðlega á fræðasviðum og í félagsmálum.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Einnig má hafa samband við Vilhelm Vilhelmsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið vilhelmv@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted through Vilhelm Vilhelmsson: vilhelmv@hi.is.

Search this page


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins

20. september
Susanne Arthur: Skrifarinn byrjar bókina, en lesandinn lýkur henni. Njáluhandrit og lesendur þeirra

4. október
Skúli Ólafsson: Jartein og sakramenti. Nýir tímar, ný bjargráð

18. október
Katrín Axelsdóttir: Orðasaga

1. nóvember
Erla Dóris Halldórsdóttir: Karlmenn í fæðingarhjálp

15. nóvember
Jón Árni Guðjónsson: Um sögukennslu í íslenskum framhaldsskólum 1946–1996

29. nóvember
Sigurgeir Guðjónsson: Aðbúnaður geðveikra á Íslandi og umbætur yfirvalda fyrir daga geðspítala

13. desember
Vilhelm Vilhelmsson: Atbeini, undirsátar, andóf

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 897-2434- Tölvupóstur: vilhelmv[hjá]hi.is