Latest entries

þriðjudagur, 9. feb 2016

Hádegisfyrirlestur 16. febrúar: „Í þarfir bindindisins“. Góðtemplarastúkur og áhrif mótandi orðræðu. Félagsleg og hugmyndaleg áhrif inn á 20. öld

Þriðjudaginn 16. febrúar heldur Nanna Þorbjörg Lárusdóttir hádegisfyrirlestur hjá Sagnfræðingafélaginu, sem hún nefnir „„Í þarfir bindindisins“. Góðtemplarastúkur og áhrif mótandi orðræðu. Félagsleg og hugmyndaleg áhrif inn á 20. öld“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Góðtemplarareglan var fyrirferðarmikil í íslensku samfélagi á ofanverðri nítjándu öld og á fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu. Stúkur spruttu upp víða um land og starfsemin breiddist út líkt og eldur í sinu. Markmið templara var „útrýming áfengisnautnarinnar“ og meginbaráttumálið aðflutningsbann á áfengi, sem náðist fram með löggjöf árið 1909. Í erindinu er það orðræðan, áhrifamáttur hennar á einstaklinginn og samfélagið sem er í brennidepli í ljósi kenninga um stjórnvaldstækni og lífvald. Fjallað verður um áhrifin af stúkustarfinu og bindindisbaráttunni í félagslegum og hugmyndalegum skilningi: Áhrifin á upphaf íslenskrar verkalýðshreyfingar og líkindin með stúkunum og fyrstu verkalýðsfélögunum, einnig áhrifin af orðræðu stúkubræðra á stúkusystur og réttindabaráttu kvenna, en í stúkum störfuðu konur á yfirlýstum jafnréttisgrundvelli með körlum. Að lokum verður fjallað um orðræðu templara um áfengið sem „eitur“ og samfélagsvá og áhrif hennar á viðhorf Íslendinga til áfengismála inn á tuttugustu öld.

Nanna Þorbjörg Lárusdóttir er sagnfræðingur og starfandi framhaldsskólakennari. Hún lauk meistaraprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands haustið 2014.

miðvikudagur, 27. jan 2016

Hádegisfyrirlestur 2. febrúar: Vettvangur róttækra vinstri kvenna á fjórða og fimmta áratug tuttugustu aldar

Þriðjudaginn 2. febrúar heldur Ragnheiður Kristjánsdóttir hádegisfyrirlestur hjá Sagnfræðingafélaginu, sem hún nefnir „Vettvangur róttækra vinstri kvenna á fjórða og fimmta áratug tuttugustu aldar“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Þegar horft er á róttæka vinstri hreyfingu á Íslandi frá sjónarhóli hefðbundinnar stjórnmálasögu blasir við óvenju stór hreyfing (í alþjóðlegu samhengi) undir forystu karla sem sóttu styrk og eldmóð til Sovétríkjanna. Þetta er ekki saga kvenna og fljótt á litið virðist hreyfingin ekki hafa verið sérstaklega hliðholl konum. Engin kona settist á þing fyrir Kommúnistaflokkinn (1930–1938) og ein kona var kjörin á þing fyrir Sósíalistaflokkinn (1938–1968). Þetta var árið 1946 og þingmaðurinn Katrín Thoroddsen. Hún náði ekki endurkjöri í næstu kosningum og í stuttu máli sagt voru fáar konur í forystu róttækrar vinstri hreyfingar á Íslandi, að minnsta kosti framan af.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um Kommúnista- og Sósíalistaflokkinn frá sjónarhóli þeirra fjöldamörgu kvenna sem gengu til liðs flokkana á 4. og 5. áratugnum. Færð verða rök fyrir því að róttæk vinstri hreyfing hafi að mörgu leyti verið álitlegur vettvangur fyrir konur sem vildu berjast fyrir auknu jafnrétti kynjanna. Eins og annars staðar meðal evrópskra róttæklinga á þessum árum var þar haldið á loft ýmsum feminískum hugmyndum og stefnumálum. En það flækti málin að samhliða róttækninni þrifust innan hreyfingarinnar hefðbundnar staðalímyndir karla og kvenna. Það átti svo aftur sinn þátt í því að róttækar vinstri konur sóttu sér liðstyrk inn í þverpólitíska kvenréttindahreyfinguna.

Ragnheiður Kristjánsdóttir er dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur rannsakað þjóðernisstefnu, lýðræði og vinstri stjórnmál og vinnur nú að rannsóknarverkefni um stjórnmálaþátttöku íslenskra kvenna í kjölfar kosningaréttar.

þriðjudagur, 19. jan 2016

Hlaðvarp: Helgi Skúli Kjartansson: Samvinnuhreyfing og samvinnuhugsjón

þriðjudagur, 12. jan 2016

Hádegisfyrirlestur 19. janúar: Samvinnuhreyfing og samvinnuhugsjón

Hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands á vormisseri 2016 er helguð félagshreyfingum. Það er Helgi Skúli Kjartansson sem ríður á vaðið með fyrirlesturinn „Samvinnuhreyfing og samvinnuhugsjón“ þriðjudaginn 19. janúar. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Samvinnuhugsjónin, sem markaði starfsreglur og sjálfsvitund einnar öflugustu fjöldahreyfingar á Íslandi, var undin af ólíkum þáttum – samábyrgð, sannvirði o.s.frv. – sem breyttust nokkuð milli tímabila og gátu fengið ólíkt pólitískt inntak. Helgi Skúli Kjartansson er sagnfræðingur og prófessor við Menntavísindasvið HÍ. Kringum 1980 vann hann að rannsókn á sögu samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi og hann er aðalhöfundur ritgerðasafnsins Samvinnuhreyfingin í sögu Íslands sem út kom árið 2003.

Hlaðvarp: Lára Magnúsardóttir: Ekkja elur dreng, sögusagnir kvikna um faðerni: Hvað þýða heimildirnar?

Hlaðvarp: Margrét Gunnarsdóttir: Konur í karlaheimi

mánudagur, 21. des 2015

Hádegisfyrirlestur 5. janúar: Ekkja elur dreng, sögusagnir kvikna um faðerni: hvað þýða heimildirnar?

Fyrirlestri Láru Magnúsardóttur sem halda átti 1. desember var frestað vegna veðurs. Lára mun í staðinn flytja fyrirlestur sinn þriðjudaginn 5. janúar 2016 kl. 12:05, en fyrirlestradagskrá vorannar hefst tveimur vikum síðar, 19. janúar.

Lára Magnúsardóttir flytur hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands þriðjudaginn 5. janúar 2016 sem nefnist „Ekkja elur dreng, sögusagnir kvikna um faðerni: Hvað þýða heimildirnar?“ Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Um margra alda skeið var Íslendingum skylt að skrifta fyrir syndir og brot á lögum um kristni og taka sakramenti reglulega. Embættismönnum kirkju var skylt að áminna þá sem urðu uppvísir að brotum en skriftuðu ekki, um að opinber bannsetning væri yfirvofandi ef  skriftirnar drægjust fram yfir gefinn viðmiðunartíma. Samkvæmt lögum voru bannsettir framseldir til veraldlegra yfirvalda og þau refsuðu samkvæmt eigin aðferðum og var þá yfirvofandi strangur dómur, jafnvel slaverí eða útlegð. Undirstaða slíkra málaferla var skylda til að taka sakramenti sem var innleidd árið 1275 og grunnatriði málsmeðferðar voru eins á miðöldum og eftir siðaskipti.

Málaferli af þessum toga gátu verið langdregin, því tímafrestir voru innbyggðir í réttarkerfið, en jafnframt gátu margir aðilar dregist inn í málaferlin. Miklar heimildir eru til um málarekstur af þessu tagi að minnsta kosti fram til loka 18. aldar. Talsvert hefur verið prentað og hluti heimildanna er því vel þekktur en fjölmargt er aðeins til í handritum. Rannsóknir sem Lára vinnur að miða að því að greina heimildir um saksókn fyrir brot á andlegum lögum sem sérstakan heimildaflokk og lýsa einkennum hans í því skyni að heimildirnar nýtist til fjölbreyttra rannsókna.

Eitt af því sem einkennir heimildaflokkinn er að málareksturinn snýst um karla og konur sem eru hvorki fulltrúar tiltekins hóps eða stéttar og varða atvik sem hvergi er annars getið í heimildum, svo sem ástarlíf. Heimildaflokkurinn felur því í sér einstakar upplýsingar um fortíðina. Annað einkenni er að málsaðilar hafa áhrif á framvindu málsins, og þar með heimildamyndun, því tregða sakborningsins til að skrifta er eina ástæða málaferlanna; engar heimildir urðu til í þeim tilvikum sem fólk skriftaði eins og lög gerðu ráð fyrir. Þess vegna má ætla að heimildirnar séu alltaf vitnisburður um afstöðu sakbornings til einhverra hluta.

Þó liggur engan veginn ljóst fyrir hvaða afstaða það var sem réði því að sakborningur kaus að þrjóskast við að skrifta „út í bannið“, en gera þarf ráð fyrir því að hver og einn hafi haft sínar ástæður. Í fyrirlestrinum eru heimildir um eitt slíkt mál kynntar með því að rekja mál ekkju sem neitaði að feðra barn sem hún ól á 8. áratug 17. aldar, afskipti sveitunga hennar af því og afleiðingar sem það hafði fyrir sóknarprestinn hennar, sem var ef til vill faðirinn, en þó kannski ekki.

Lára Magnúsardóttir er sagnfræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra.

Hádegisfyrirlestur 5. janúar: Ekkja elur dreng, sögusagnir kvikna um faðerni: hvað þýða heimildirnar?

Fyrirlestri Láru Magnúsardóttur sem halda átti 1. desember var frestað vegna veðurs. Lára mun í staðinn flytja fyrirlestur sinn þriðjudaginn 5. janúar 2016 kl. 12:05, en fyrirlestradagskrá vormisseris hefst tveimur vikum síðar, 19. janúar.

Lára Magnúsardóttir flytur hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands þriðjudaginn 5. janúar 2016 sem nefnist „Ekkja elur dreng, sögusagnir kvikna um faðerni: Hvað þýða heimildirnar?“ Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Um margra alda skeið var Íslendingum skylt að skrifta fyrir syndir og brot á lögum um kristni og taka sakramenti reglulega. Embættismönnum kirkju var skylt að áminna þá sem urðu uppvísir að brotum en skriftuðu ekki, um að opinber bannsetning væri yfirvofandi ef  skriftirnar drægjust fram yfir gefinn viðmiðunartíma. Samkvæmt lögum voru bannsettir framseldir til veraldlegra yfirvalda og þau refsuðu samkvæmt eigin aðferðum og var þá yfirvofandi strangur dómur, jafnvel slaverí eða útlegð. Undirstaða slíkra málaferla var skylda til að taka sakramenti sem var innleidd árið 1275 og grunnatriði málsmeðferðar voru eins á miðöldum og eftir siðaskipti.

Málaferli af þessum toga gátu verið langdregin, því tímafrestir voru innbyggðir í réttarkerfið, en jafnframt gátu margir aðilar dregist inn í málaferlin. Miklar heimildir eru til um málarekstur af þessu tagi að minnsta kosti fram til loka 18. aldar. Talsvert hefur verið prentað og hluti heimildanna er því vel þekktur en fjölmargt er aðeins til í handritum. Rannsóknir sem Lára vinnur að miða að því að greina heimildir um saksókn fyrir brot á andlegum lögum sem sérstakan heimildaflokk og lýsa einkennum hans í því skyni að heimildirnar nýtist til fjölbreyttra rannsókna.

Eitt af því sem einkennir heimildaflokkinn er að málareksturinn snýst um karla og konur sem eru hvorki fulltrúar tiltekins hóps eða stéttar og varða atvik sem hvergi er annars getið í heimildum, svo sem ástarlíf. Heimildaflokkurinn felur því í sér einstakar upplýsingar um fortíðina. Annað einkenni er að málsaðilar hafa áhrif á framvindu málsins, og þar með heimildamyndun, því tregða sakborningsins til að skrifta er eina ástæða málaferlanna; engar heimildir urðu til í þeim tilvikum sem fólk skriftaði eins og lög gerðu ráð fyrir. Þess vegna má ætla að heimildirnar séu alltaf vitnisburður um afstöðu sakbornings til einhverra hluta.

Þó liggur engan veginn ljóst fyrir hvaða afstaða það var sem réði því að sakborningur kaus að þrjóskast við að skrifta „út í bannið“, en gera þarf ráð fyrir því að hver og einn hafi haft sínar ástæður. Í fyrirlestrinum eru heimildir um eitt slíkt mál kynntar með því að rekja mál ekkju sem neitaði að feðra barn sem hún ól á 8. áratug 17. aldar, afskipti sveitunga hennar af því og afleiðingar sem það hafði fyrir sóknarprestinn hennar, sem var ef til vill faðirinn, en þó kannski ekki.

Lára Magnúsardóttir er sagnfræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra.

þriðjudagur, 8. des 2015

Hádegisfyrirlestur: Konur í karlaheimi

Þriðjudaginn 15. desember flytur Margrét Gunnarsdóttir hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands sem nefnist „Konur í karlaheimi – sendibréf embættismanna 18. og 19. aldar sem heimildir um kynjasögu“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Yfirskrift fyrirlestrarraðar Sagnfræðingafélagsins haustið 2015 er „Heimildir um konur/konur í heimildum“. Í fyrirlestri Margrétar Gunnarsdóttur verður gerð tilraun til að varpa ljósi á „karla“-heimildir, þ.e.a.s. sendibréf á milli embættismanna sem forvitnilegan heimildaflokk er nýta má í kynjasögulegum rannsóknum. Mun meira er varðveitt af sendibréfum með hendi karlmanna en kvenna. Sendibréf embættis- og menntamanna veita ekki aðeins ómetanlegar upplýsingar um viðhorf og hugmyndir karlmanna og hinn svokallaða „pólitíska karlaheim“ samtímans, heldur einnig hversdagslegar áhyggjur, menntun barna, heimilishagi í síbreytilegum myndum, stöðu vinnuhjúa, verksvið kvenna, klæðaburð, hjúskaparmál og svo mætti lengi telja. Þannig bregða embættismennirnir í skrifum sínum stundum óvæntri birtu á kvenfólk samtíðarinnar, einstakar konur, samfélagsvaldssvið kynjanna og kvennaheiminn. Embættismannabréfin sýna að kvenna- og karlaveröldin er samofnari en ætla mætti í fyrstu.

Margrét Gunnarsdóttir er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Doktorsrannsókn hennar fjallar um stjórnmálasögu Íslands á tímabilinu frá því um 1780 til 1840. Grundvallarheimildir rannsóknarinnar eru sendibréf íslenskra embættismanna á ofangreindu tímabili.

sunnudagur, 22. nóv 2015

Hlaðvarp: Þórunn Sigurðardóttir: Tækifæriskvæði sem heimildir um konur á árnýöld


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Einnig má hafa samband við Vilhelm Vilhelmsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið viv13@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted through Vilhelm Vilhelmsson: viv13@hi.is.

Search this page


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins

19. janúar
Helgi Skúli Kjartansson: Samvinnuhreyfing og samvinnuhugsjón

2. febrúar
Ragnheiður Kristjánsdóttir: Vettvangur íslenskra vinstri kvenna á millistríðsárunum

16. febrúar
Nanna Þorbjörg Lárusdóttir: „Í þarfir bindindisins“. Góðtemplarastúkur og áhrif mótandi orðræðu. Félagsleg og hugmyndaleg áhrif inn á 20. öld

1. mars
Halldór Grönvold: Samfélag fyrir alla! Framlag verkalýðshreyfingarinnar til velferðar í íslensku samfélagi

15. mars
Sigurður E. Guðmundsson: Vökulögin. Umrót í grasrótinni 1921

29. mars
Anna Kristjánsdóttir: Fjöldahreyfingar með skýr gildi og virðingu fyrir náttúru

12. apríl
Hrafnkell Lárusson: Félagabylgjan á 19. öld: forsenda fjöldahreyfinga?

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 866-3131 - Tölvupóstur: viv13[hjá]hi.is