Nýjustu færslur

mánudagur, 11. maí 2015

Fundur um Landsnefnd íslenskra sagnfræðinga og Scandinavian Journal of History

Sagnfræðingafélag Íslands heldur félagsfund þriðjudaginn 19. maí næstkomandi kl. 20:30 í húsakynnum ReykjavíkurAkademíunnar, Þórunnartúni 2.

Dagskrá:

1.  Formaður greinir frá störfum Landsnefndar íslenskra sagnfræðinga, sem fyrirhugað er að endurvekja

2. Kjör tveggja fulltrúa í Landsnefnd

3. Önnur mál

Að fundarstörfum loknum mun Guðmundur Hálfdanarson prófessor í sagnfræði við HÍ halda stutt erindi um tímaritið Scandinavian Journal of History, en sagnfræðingafélögin á Norðurlöndum standa að útgáfu þess. Guðmundur hefur verið aðalritstjóri tímaritsins undanfarin fimm ár en lætur af störfum síðar á þessu ári.

Boðið verður upp á léttar veitingar. Félagsmenn eru hvattir til þess að fjölmenna.

fimmtudagur, 16. apr 2015

Fyrirlestrakall: Heimildir um konur/konur í heimildum

Sagnfræðingafélag Íslands kallar eftir tillögum að framsögum fyrir hádegisfyrirlestraröð félagsins á haustmisseri 2015. Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna og átaks sem stendur yfir hjá íslenskum skjalasöfnum um þessar mundir um söfnun á skjölum kvenna verður fyrirlestraröðin að þessu sinni helguð heimildum um konur og konum í heimildum. Þegar rætt er um stöðu og birtingarmynd kvenna í sagnaritun er oft vísað til þess að skortur sé á heimildum um konur. Því er ástæða til að velta upp þeirri spurningu hvaða heimildir séu til um og eftir konur. Hvernig hafa þær verið varðveittar og flokkaðar og á hvaða forsendum? Hvernig nýta sagnfræðingar þessar heimildir?

Tillögur að fyrirlestrum skulu sendar til Kristínar Svövu Tómasdóttur á netfangið kristinsvava@gmail.com, en skilafrestur er til 1. maí 2015.

Með von um góðar undirtektir,
stjórn Sagnfræðingafélags Íslands

þriðjudagur, 7. apr 2015

Hlaðvarp: Skafti Ingimarsson: „Glöggt er gestsaugað“. Drengsmálið í ljósi danskra heimilda

þriðjudagur, 31. mar 2015

Hádegisfyrirlestur: „Glöggt er gestsaugað“. Drengsmálið í ljósi danskra heimilda

Þriðjudaginn 7. apríl flytur Skafti Ingimarsson hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands sem nefnist „„Glöggt er gestsaugað“. Drengsmálið í ljósi danskra heimilda“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og hefst kl. 12:05.

Drengsmálið svokallaða, eða Hvíta stríðið, eins og það er stundum nefnt, er meðal þekktustu atburða íslenskrar stjórnmálasögu. Í fyrirlestrinum fjallar Skafti Ingimarsson um þennan sögufræga atburð út frá nýjum frumheimildum, sem fundust í ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn. Heimildirnar varpa nýju ljósi á samskipti íslenskra og danskra stjórnvalda vegna málsins og sýna hvernig atburðarásin í Reykjavík kom dönskum embættismönnum fyrir sjónir.

Skafti Ingimarsson er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands og formaður AkureyrarAkademíunnar.

þriðjudagur, 24. mar 2015

Aðalfundur Sagnfræðingafélagsins 26. mars

Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands 2015 verður haldinn fimmtudaginn 26. mars kl. 19:30 í sal ReykjavíkurAkademíunnar, Þórunnartúni 2, 4. hæð.

Dagskrá fundarins:

1. Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar.
2. Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar.
3. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
4. Kjör stjórnar. Kjör tveggja endurskoðenda reikninga
5. Önnur mál

Að loknum fundarstörfum eða kl. 20.00 mun dr. Þorsteinn Helgason flytja erindi er nefnist

Rannsókn á Tyrkjaráninu: einsömul iðja í samfélagi fræðanna.

Dr. Þorsteinn Helgason hefur kennt á öllum skólastigum en er nú dósent í sagnfræði og sögukennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Boðið verður upp á léttar veitingar í lok fundar.

Hlaðvarp: Finnur Jónasson: Fátækralöggjöfin frá 1907 til 1935 og sjálfsmynd reykvískra þurfamanna í upphafi 20. aldar

þriðjudagur, 17. mar 2015

Hádegisfyrirlestur: Fátækralöggjöfin frá 1907 til 1935 og sjálfsmynd reykvískra þurfamanna í upphafi 20. aldar

Þriðjudaginn 24. mars flytur Finnur Jónasson hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélagsins undir yfirskriftinni „Fátækralöggjöfin frá 1907 til 1935 og sjálfsmynd reykvískra þurfamanna í upphafi 20. aldar“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um fátækralöggjöfina á Íslandi frá árinu 1907 til ársins 1935 og framkvæmd hennar. Einnig verður fjallað um líf þurfamanna í Reykjavík á tímabilinu og viðhorf þeirra til eigin stöðu, viðhorf almennings til fátæktarframfærslu og þurfamennsku og þær breytingar sem urðu á orðræðu um fátækt á tímabilinu.

Árið 1905 voru sett ný fátækralög sem tóku gildi árið 1907 og giltu til ársins 1935. Þrátt fyrir að þau hafi bætt stöðu þurfamanna lítillega voru enn í þeim ákvæði um nær algeran réttindamissi þeirra sem þáðu fátækrastyrki. Fátækralögin voru mjög umdeild og urðu talsverðar deilur um þau, bæði á Alþingi og í dagblöðum, og lagðar voru fram margar tillögur til þess að breyta lögunum til mannúðlegri vegar. Litlar breytingar urðu þó á lögunum á gildistíma þeirra. Framkvæmd fátækralaga í Reykjavík tók hins vegar talsverðum breytingum á lokaárum þriðja áratugarins og aukin harka færðist í meðferð þeirra þurfamanna sem taldir voru eiga sök á eigin vanda. Í fyrirlestrinum verður fjallað um aðstæður þurfamanna í Reykjavík, sjálfsmynd þeirra og viðhorf til eigin stöðu. Fjallað verður um hvernig viðhorf þeirra féllu að skoðunum ráðamanna á þeim og hvort ráða megi breytingar á skoðunum þurfamanna til stöðu sinnar þegar líða tekur á tímabilið.

Finnur Jónasson er MA-nemi í sagnfræði og byggir fyrirlesturinn á meistararitgerð hans.

fimmtudagur, 12. mar 2015

Hlaðvarp: Sumarliði Ísleifsson: Hreinlæti og óhreinlæti í lýsingum frá Íslandi og Grænlandi frá 18. öld og fram á þá 20.

miðvikudagur, 4. mar 2015

Hádegisfyrirlestur: Hreinlæti og óhreinlæti í lýsingum frá Íslandi og Grænlandi frá 18. öld og fram á hina 20.

Þriðjudaginn 10. mars flytur Sumarliði Ísleifsson, sagnfræðingur og ritstjóri, hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands undir yfirskriftinni „Hreinlæti og óhreinlæti í lýsingum frá Íslandi og Grænlandi frá 18. öld og fram á hina 20.“ Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.

Í erindinu verður rætt um hvernig hugmyndir um óhreinlæti og hreinlæti birtast í erlendum lýsingum frá Íslandi og Grænlandi frá 18. öld og fram á hina 20. og kannað hvaða merkingu þessar lýsingar hafa: Eru þær ef til vill aðallega til marks um það hvort og hvernig þjóðir þessara landa séu hluti af siðmenningu og nútíma eða ekki. Litið verður til þess hvort hugmyndir á þessu sviði hafi breyst á 19. og 20. öld og hvernig and-nútímaleg viðhorf höfðu áhrif í þessu samhengi. Kynþáttahyggja kemur hér einnig til umræðu og hvort litið hafi verið á fólk þessara landa sem „hreint“ eða ekki í því samhengi. Loks verður getið um hvaða aðrir menningarsögulegir þættir koma helst til sögu þegar metið er hvort fólk teljist nútímalegt og siðmenntað eða ekki.

þriðjudagur, 24. feb 2015

Hlaðvarp: Sveinn Máni Jóhannesson: Ríki og þekking í Bandaríkjunum á nítjándu öld


Þessi síða

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Einnig má hafa samband við Vilhelm Vilhelmsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið viv13@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted through Vilhelm Vilhelmsson: viv13@hi.is.

Leit á þessari síðu


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins

8. september
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir: „Hún var með eldrauðar neglur og varir, en að öðru leyti ekkert athugaverð í útliti“. Skjalasafn ungmennaeftirlitsins og ímynd ástandsstúlkunnar

22. september
Halldóra Kristinsdóttir og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir: Konur innan sviga - týndu konurnar í handritasafni Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns

6. október
Steinunn Kristjánsdóttir: Frá langhúsum til gangabæja. Áhrif kristnivæðingarinnar á veraldleg húsakynni og stöðu kvenna á Íslandi á miðöldum

20. október
Þórunn Sigurðardóttir: Tækifæriskvæði sem heimildir um konur á árnýöld

3. nóvember
Sigríður Matthíasdóttir og Þorgerður Einarsdóttir: Ógiftar konur í hópi vesturfara

17. nóvember
Guðný Hallgrímsdóttir: Voru konur fátíðar allt fram á 20. öld?

1. desember
Lára Magnúsardóttir: Ekkja elur dreng, sögusagnir kvikna um faðerni: hvað þýða heimildirnar?

15. desember
Margrét Gunnarsdóttir: Konur í karlaheimi. Kynjasaga á grundvelli sendibréfa embættis- og menntamanna 18. og 19. aldar

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS slóð á greinar. RSS slóð á ummæli.

Knúið af WordPress. Rétt XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 866-3131 - Tölvupóstur: viv13[hjá]hi.is