Nýjustu færslur

miðvikudagur, 17. sep 2014

Hádegisfyrirlestur: Að búa til söguskoðun

Næstkomandi þriðjudag, þann 23. september, munu sagnfræðingarnir Gunnar Karlsson og Súsanna Margrét Gestsdóttir flytja fyrstu hádegisfyrirlestra Sagnfræðingafélagsins á haustmisseri 2014 undir yfirskriftinni „Að búa til söguskoðun“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12:05.

Kennarar og höfundar kennslubóka um sögu starfa beinlínis við það að miðla sögulegri þekkingu til nemenda. Í því starfi búa þeir við ákveðinn ramma sem þeim er gert að starfa eftir en komast þó aldrei hjá því að taka á einhverjum tímapunkti afstöðu til þess hvers konar söguskoðun þeir vilji halda að nemendum og hvers vegna. Sagnfræðingar hafa gjarnan vísað til kennslubóka í sögu eða kennsluaðferða í skólum landsins til þess að útskýra hvers vegna tilteknar söguskoðanir halda velli þótt þær þyki ekki samræmast nýrri rannsóknum á sviðinu. Öðrum þykja þær bækur eða kennsluaðferðir ekki samræmast þeim gildum sem námið eigi að stuðla að. En hvaða sjónarmið eiga að ráða för við gerð kennslubóka í sögu? Hvað ræður því hvers konar söguskoðun er miðlað í slíkum bókum? Er æskilegt að sögukennsla rækti hjá nemendum eina söguskoðun umfram aðra? Hvernig myndi annars konar sögukennsla, þar sem forðast væri að miðla einni sýn á söguna umfram aðra, líta út?

Gunnar Karlsson hefur skrifað fjölda námsbóka í sögu fyrir öll skólastig, frá grunnskóla upp í háskóla, auk annarra ritstarfa og rannsókna og kennslu á háskólastigi. Súsanna Margrét Gestsdóttir hefur kennt sögu í framhaldsskólum og kennslufræði í HÍ um árabil, unnið með sögukennurum um alla Evrópu að margvíslegum viðfangsefnum og er nú í doktorsnámi í kennslufræði sögu.

Allir velkomnir!

föstudagur, 18. apr 2014

Hádegisfyrirlestur: Danir á Íslandi 1900-1970. Félagsleg staða, samþætting og þverþjóðleiki.

Næstkomandi þriðjudag, 22. apríl, mun Íris Ellenberger flytja erindi sem kallast "Danir á Íslandi 1900-1970. Félagsleg staða, samþætting og þverþjóðleiki."

Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands sem ber yfirskriftina „Nýjustu rannsóknir í sagnfræði.“ Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12.05

Allir velkomnir.

þriðjudagur, 8. apr 2014

Hlaðvarp: Kristín Svava: - Ritun íslenskrar klámsögu frá Bósa fram að vídeóbyltingu.

sunnudagur, 6. apr 2014

Hádegisfyrirlestur: „Ritun íslenskrar klámsögu frá Bósa fram að vídeóbyltingu."

Ritun íslenskrar klámsögu frá Bósa fram að vídeóbyltingu

Næstkomandi þriðjudag, þann 8 apríl, mun Kristín Svava Tómasdóttir flytja erindi sem kallast „Ritun íslenskrar klámsögu frá Bósa fram að vídeóbyltingu.“ Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands sem ber yfirskriftina „Nýjustu rannsóknir í sagnfræði.“ Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12.05

Í lýsingu á erindinu segir:

Saga kláms er vaxandi undirgrein í erlendri sagnfræði en lítið sem ekkert hefur verið skrifað á því sviði hérlendis. Klámsaga er fjölbreytt viðfangsefni sem hefur tengsl við til dæmis menningarsögu, bóksögu, kynja- og kynferðissögu, svo eitthvað sé nefnt. Í erindinu verður fjallað um ólíkar leiðir og aðferðafræðileg vandamál í rannsóknum á sögu kláms, með hliðsjón af sögu íslensks kláms á 20. öld, fram til vídeóbyltingarinnar um 1980.

Allir velkomnir!

Með kveðju

Fyrir hönd Sagnfræðingafélags Íslands

Guðný Hallgrímsdóttir

laugardagur, 22. mar 2014

Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands

Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands 2014

verður haldinn

mánudaginn 31. mars kl. 19:30

í sal ReykjavíkurAkademíunnar, Hringbraut 121, 4. hæð.

 

Dagskrá fundarins:

 

  1. Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar.
  2. Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar.
  3. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
  4. Kjör stjórnar. Kjör tveggja endurskoðenda reikninga
  5. Önnur mál

Á fundinum verður einnig gerð grein fyrir starfi undirbúningsnefndar fyrir 28. norræna sagnfræðingaþingið sem haldið verður í Joensuu í Finnlandi 14.-17. ágúst 2014.

 

Að loknum fundarstörfum eða kl. 20.00 mun dr. Hrefna Róbertsdóttir  flytja erindi er nefnist

 

Möndlur, sítrónur og súkkat

-

Einokunarkaupmenn og byggð á verslunarstöðunum á 18. öld

 

Hrefna Róbertsdóttir um þessar mundir í rannsóknarstöðu á vegum Rannís/START & Marie Curie Actions og Þjóðskjalasafns Íslands og birtist grein hennar „Munaðarvara og matarmenning. Pöntunarvara árið 1784“ í Sögu, tímariti Sögufélags árið 2012.

 

Boðið verður upp á léttar veitingar í lok fundar.

 

Stjórn Sagnfræðingafélagsins

Hádegisfyrirlestur á Þjóðminjasafni: Að skoða það smáa; áskoranir og álitamál.

Kæru félagar

Næstkomandi þriðjudag, þann 25. mars, mun Unnur María Bergsveinsdóttir flytja erindi sem kallast „Að skoða það smáa; áskoranir og álitamál.“ Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands sem ber yfirskriftina „Nýjustu rannsóknir í sagnfræði.“ Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12.05

Í lýsingu á erindinu segir:

Að skoða það smáa; áskoranir og álitamál. Það að skoða það smáa felur í sér margvíslegar áskoranir. Í erindinu lýsir Unnur María ýmsum álitamálum sem upp komu við rannsókn hennar á íslensku pönkbylgjunni sem reis og hneig í Reykjavík á árunum upp úr 1980. Þrátt fyrir að pönkið væri að miklu leyti innflutt menning gerðu ýmsar aðstæður, ekki síst einangrun landsins, það að verkum að ekki var hægt að ganga út frá því að eðli og inntak erlends pönks væri sjálfkrafa yfirfæranlegt yfir á íslenska pönkmenningu. Þrátt fyrir síaukinn áhuga á þessum kafla íslenskrar menningarsögu hefur pönkið enn lítt verið rannsakað og var öflun munnlegra heimilda nauðsynleg undirstaða rannsóknarinnar. Hér var um að ræða smáan menningarkima í fámennu og fremur einsleitu samfélagi en viðtölin drógu hinsvegar upp mynd af menningarkima sem var mun margbrotnari en ætla mætti. Bæði rannsókninni og nálgun hennar má því að vissu leyti líkja við það að rýna í smásjá, sem skapaði bæði áskoranir og álitamál þegar kom að því að draga almennar ályktanir um umfjöllunarefnið.

fimmtudagur, 20. mar 2014

Hlaðvarp: Unnur María Bergsveinsdóttir: Að skoða það smáa: Áskoranir og álitamál.

þriðjudagur, 11. mar 2014

Hlaðvarp: Hrafnkell Lárusson: Tjáningarfrelsi og nánd: Um fjölmiðlun og fámenn samfélög

þriðjudagur, 25. feb 2014

Hlaðvarp: Björn Reynir Halldórsson - Gervasoni-málið. Viðhorf stjórnvalda og almennings til hælisleitanda.

mánudagur, 24. feb 2014

Hádegisfyrirlestur á morgun: Gervasoni-málið. Viðhorf stjórnvalda og almennings til hælisleitanda.

Á morgun þriðjudag mun Björn Reynir Halldórsson flytja erindi sem kallast "Gervasoni-málið. Viðhorf stjórnvalda og almennings til hælisleitanda". Erindið er hluti af hádegisfyrirlestrarröð Sagnfræðingafélags Íslands sem ber yfirskriftina "Nýjar rannsóknir í sagnfræði". Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12:05.

Í lýsingu á erindinu segir:

Árið 1980 sótti Frakkinn Patrick Gervasoni um pólitískt hæli á Íslandi á grundvelli yfirvorfandi fangelsisdóms fyrir að neita að gegna herþjónustu. Umsókninni var hafnað en skiptar skoðanir voru um ákvörðunina og hatrammar deilur spunnust um málið. Í fyrirlestrinum verður lögð megináhersla á að greina frá hvernig meðferð umsókn um pólitískt hæli fékk á þessum tíma, hversu vel íslensk stjórnsýsla var í stakk búin til að takast á við málið og hvað réði mestu um ákvörðunina. Að auki verður fjallað um deiluna í samfélaginu og sjónarmið beggja aðila greind. Loks verður rakið hvernig óstöðugt stjórnmálaástand á Íslandi hafði áhrif á framgang og lausn málsins.

Allir velkomnir!

 


Þessi síða

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Hringbraut 121
IS-107 Reykjavík

Einnig má hafa samband við Árna Daníel Júlíusson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið arnidan@akademia.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted through Árni Daníel Júlíusson: arnidan@akademia.is.

Leit á þessari síðu


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins

Næstu fyrirlestrar:

23. september
Gunnar Karlsson og Súsanna Margrét Gestsdóttir: Að búa til söguskoðun

7. október
Hilmar Magnússon og Íris Ellenberger: Að skrifa eigin sögu. Sagnfræði og hinsegin saga

21. október
Sverrir Jakobsson og Ann Sofie Gremaud: Þjóðarímyndir og söguskoðanir Íslendinga á ólíkum tímum

4. nóvember
Axel Kristinsson og Helgi Skúli Kjartansson: Vísindi, sannleikur og söguskoðun

18. nóvember
Vilhelm Vilhelmsson og Sólveig Ólafsdóttir: Söguskoðun söguendurskoðunar

2. desember
Jón Ólafsson og Lára Magnúsardóttir: Söguskoðun, heimspeki og samfélag

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS slóð á greinar. RSS slóð á ummæli.

Knúið af WordPress. Rétt XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 866-3131 - Tölvupóstur: viv13[hjá]hi.is