Nýjustu færslur

þriðjudagur, 27. jan 2015

Hlaðvarp: Erla Hulda Halldórsdóttir: Ferð til fortíðar & sagnfræðingurinn í verki sínu

þriðjudagur, 20. jan 2015

Hádegisfyrirlestur: Ferð til fortíðar og sagnfræðingurinn í verki sínu

Hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands á vormisseri 2015 hefst þriðjudaginn 27. janúar nk. með fyrirlestri Erlu Huldu Halldórsdóttur, Ferð til fortíðar & sagnfræðingurinn í verki sínu. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.

Ferð til fortíðar & sagnfræðingurinn í verki sínu

Þótt þeir tímar séu liðnir að sagnfræðingar ímyndi sér að þeir geti að öllu leyti verið hlutlausir gagnvart heimildum sínum er furðu lítið skrifað um það efni á Íslandi. Og heldur ekki hvernig þeir komast að niðurstöðu. Þetta er þó aðkallandi umfjöllunarefni, ekki síst þegar unnið er að rannsókn á ævi einstaklings. Ævisögurritarar, segir bandaríski sagnfræðingurinn Jill Lepore, eru frægir að endemum fyrir að verða ástfangnir af viðfangsefni sínu. Sem fellur svo oftar en ekki af stallinum þegar á rannsóknina líður því aðdáunin getur breyst í óbeit. Í fyrirlestrinum verður rætt um ferð sagnfræðingsins til fortíðar og stöðu hennar sjálfrar í rannsókninni – um samtvinnun tilfinninga og fræða, fortíðar og samtíðar. Um það sem gerist í rýminu milli gamalla bréfa í kassa og bókar, ævisögunnar.

Erla Hulda Halldórsdóttir er sérfræðingur í kvenna- og kynjasögu hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Hún vinnur sem stendur að rannsókn á ævi og bréfum Sigríðar Pálsdóttur.

þriðjudagur, 2. des 2014

Hlaðvarp: Jón Ólafsson og Lára Magnúsardóttir: Söguskoðun, heimspeki og samfélag

þriðjudagur, 25. nóv 2014

Hádegisfyrirlestrar: Söguskoðun, heimspeki og samfélag

Næstkomandi þriðjudag, 2. desember, halda Jón Ólafsson og Lára Magnúsardóttir hádegisfyrirlestra með yfirskriftinni „Söguskoðun, heimspeki og samfélag“ á vegum Sagnfræðingafélags Íslands. Fyrirlestrarnir fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og hefjast kl. 12:05.

Lýsing á fyrirlestri Jóns:
Þegar kalda stríðinu lauk fyrir tæpum aldarfjórðungi virtist það algeng skoðun í samfélaginu að verkefni sagnfræðinga og annarra sem vildu stúdera og skrifa um þetta furðulega tímabil, væri að varpa skýrara ljósi á atburði og deilumál sem flestum væru í raun þegar kunn. Aðgengi að heimildum um hinar föllnu kommúnistastjórnir myndu gera mögulegt að lýsa betur en áður kúgun þeirra á eigin þegnum, hægt væri að upplýsa um samstarf flokka og einstaklinga á Vesturlöndum við Austantjaldsríkin og svo framvegis. Þó að vissulega hafi margvíslegar heimildir komið fram sem staðfesta það sem marga grunaði og bæta við upplýsingum um margt sem enginn vissi, þá er ekki þar með sagt að umræða um einstök deilumál kalda stríðsins séu eitthvað nær því að vera óumdeild en áður. Þvert á móti: Á vettvangi stjórnmála og í fræðunum heldur glíman um söguskoðun og samfélagsskilning áfram að kynda pólitíska elda. Í fyrirlestrinum verður notast við tvö nýleg dæmi úr kaldastríðsumræðu, eitt danskt og annað íslenskt, til að velta vöngum yfir því hvers vegna einstök atvik og persónur kaldastríðsáranna halda áfram að kynda undir pólitískar deilur samtímans.

Jón Ólafsson er prófessor í heimspeki við Háskólann á Bifröst. Síðasta bók hans var Appelsínur frá Abkasíu. Vera Hertzsch, Halldór Laxness og hreinsanirnar miklu, sem kom út árið 2012 og hlaut fræðiritaverðlaun Hagþenkis, en einnig er nýlega komin út í hans ritstjórn bókin Lýðræðistilraunir. Ísland í hruni og endurreisn.

Lýsing á fyrirlestri Láru:
Kirkjan í sögu vestrænna ríkja er sambærileg við kommúnistaríki 20. aldar að því leyti að þar er um að ræða stofnun sem tilheyrir fortíðinni og nokkuð almenn og nokkuð viðtekin sýn ríkir um hlutverkið sem hún lék. Á síðustu áratugum hefur áhugi á stöðu trúarstofnana innan ríkis aukist og mikilvægi þess að geta tekið gagnlega afstöðu til hennar. Það hefur kallað fram nýjar rannsóknir, meðal annars á sviði réttarsögu, sem dó nánast drottni sínum eftir síðari heimsstyrjöldina, hefur gengið í endurnýjun lífdaga, bæði vegna sameiningar Evrópu og löggjafarstarfs sem því fylgir, en einnig vegna alþjóðavæðingar. Á þeim vettvangi getur afstaða til kirkjusögu skipt miklu því að á Vesturlöndum voru kirkjur ríkisstofnanir í beinum tengslum við réttarkerfið svo öldum skipti. En málefni sem varða kirkju og trúmál innan ríkisheildar eru ekkert nær því að vera óumdeild en áður.

Lára Magnúsardóttir er lektor við Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Norðurlandi vestra. Rannsóknir hennar snúa að afskiptum yfirvalda af einkamálum manna og doktorsritgerð hennar fjallaði um kirkjuvald á síðari hluta miðalda og rannsóknaraðferðir til greiningar á því.

föstudagur, 7. nóv 2014

Fræðslufundur um Sarp 12. nóvember

Sagnfræðingafélagið vekur athygli á fræðslufundi um menningarsögulega gagnasafnið Sarp, sem Rekstrarfélags Sarps stendur að í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands og Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Fundurinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins miðvikudaginn 12. nóvember kl. frá kl. 16:00-17:30.

Markmiðið með fundinum er að veita fundargestum - vísindasamfélaginu - innsýn inn í Sarp, kynna hvaða efni gagnasafnið hefur að geyma og hvernig það getur hugsanlega nýst til rannsókna og kennslu. Fundurinn er hugsaður fyrir háskólakennara, nemendur þeirra og fagfélög innan sagn-, fornleifa- og þjóðfræði og eru allir velkomnir sem vilja fræðast um Sarp. Anna Lísa Rúnarsdóttir, settur Þjóðminjavörður, opnar fundinn og fjallar um þau tækifæri sem felast í rannsóknum á safnkosti, sem Sarpur, sem akademískt verkfæri, gefur aðgang að. Sigurður Trausti Traustason, fagstjóri Rekstrarfélags Sarps, fer síðan yfir kerfið og möguleika þess og situr fyrir svörum.

Óskað er eftir því að áhugasamir skrái sig til leiks hér: http://www.landskerfi.is/skra.php Valið er úr listanum "SARPUR - fræðslufundur fyrir háskólafólk" og viðeigandi upplýsingar fylltar inn.

þriðjudagur, 4. nóv 2014

Hlaðvarp: Helgi Skúli Kjartansson og Axel Kristinsson: Vísindi, sannleikur og söguskoðun

Hádegisfyrirlestrar falla niður 18. nóvember

Athygli er vakin á því að áður auglýstir hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins 18. nóvember, um söguskoðun söguendurskoðunar, falla niður. Næstu hádegisfyrirlestrar verða haldnir í Þjóðminjasafninu þann 2. desember, en þá flytja Jón Ólafsson og Lára Magnúsardóttir erindi um söguskoðun, heimspeki og samfélag.

þriðjudagur, 28. okt 2014

Hádegisfyrirlestrar: Vísindi, sannleikur og söguskoðun

Næstkomandi þriðjudag, 4. nóvember, munu Helgi Skúli Kjartansson og Axel Kristinsson flytja hádegisfyrirlestra á vegum Sagnfræðingafélagsins í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands undir yfirskriftinni Vísindi, sannleikur og söguskoðun. Fyrirlestrarnir hefjast kl. 12:05.

Mælikvarðinn á gildi eða réttmæti sagnfræðilegra lýsinga hlýtur að vera sannleikskrafan sjálf fremur en hvort þær þjóni góðum eða slæmum málstað. Við ætlumst til að sagnfræðingar greini eins satt og rétt frá og þeim er unnt, jafnvel þótt niðurstaðan sé á einhvern hátt óheppileg, siðferðilega eða pólitískt. Hvers vegna gerum við þessa sannleikskröfu og er hún á einhvern hátt frábrugðin sannleikskröfu annarra hug- og félagsvísinda eða raunvísinda? Eru þá til mismunandi tegundir af sannleika eða er aðgreiningin milli raunvísinda og mannvísinda aðeins merki um úrelta tvíhyggju?

Helgi Skúli Kjartansson er prófessor í sagnfræði á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Axel Kristinsson er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur við ReykjavíkurAkademíuna.

þriðjudagur, 21. okt 2014

Hlaðvarp: Sverrir Jakobsson og Ann-Sofie Gremaud: Þjóðarímyndir og söguskoðanir Íslendinga á ólíkum tímum

þriðjudagur, 14. okt 2014

Hádegisfyrirlestrar: Þjóðarímyndir og söguskoðanir Íslendinga á ólíkum tímum

Næstkomandi þriðjudag, þann 21. október, halda Ann-Sofie Gremaud og Sverrir Jakobsson hádegisfyrirlestra á vegum Sagnfræðingafélagsins undir yfirskriftinni „Þjóðarímyndir og söguskoðanir Íslendinga á ólíkum tímum“. Hádegisfyrirlestrarnir fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og hefjast kl. 12:05.

Í söguskoðunum manna birtast hugmyndir þeirra um eigin fortíð. Þeim fylgja ákveðnar ímyndir sem hópurinn eignar sér og ber saman við ímyndir annarra hópa. Þjóðarímyndir og söguskoðanir eru þannig samofin. Hvernig hafa þjóðarímyndir birst í söguskoðun Íslendinga á ólíkum tímum? Hvaða hópa eða þjóðir hafa Íslendingar borið sig saman við og hvers konar ímyndir hafa þeir notað í sköpun söguskoðunar og sjálfsmyndar sinnar?

Ann-Sofie Gremaud er er menningarsagnfræðingur og vinnur um þessar mundir við Kaupmannahafnarháskóla að alþjóðlega rannsóknarverkefninu „Denmark and the New North Atlantic“. Doktorsritgerð hennar, sem hún varði fyrir tveimur árum, fjallaði um samband Íslands og Danmerkur, íslenska þjóðarímynd og lýsingar á íslensku landslagi út frá eftirlendufræðum og kenningum um dullendur.

Sverrir Jakobsson er prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands. Doktorsritgerð hans fjallaði um heimsmynd Íslendinga 1100-1400 og kom út í bók undir nafninu Við og veröldin árið 2005. Sverrir stýrir um þessar mundir stóru rannsóknarverkefni um sögu Breiðafjarðar og var einn útgefenda Hákonar sögu, sem kom út á vegum Íslenzkra fornrita árið 2013.

Allir velkomnir!


Þessi síða

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Hringbraut 121
IS-107 Reykjavík

Einnig má hafa samband við Árna Daníel Júlíusson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið arnidan@akademia.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted through Árni Daníel Júlíusson: arnidan@akademia.is.

Leit á þessari síðu


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins

27. janúar
Erla Hulda Halldórsdóttir: Ferð til fortíðar og sagnfræðingurinn í verki sínu

10. febrúar
Gunnhildur Hrólfsdóttir: Þær þráðinn spunnu. Konur í Vestmannaeyjum 1835-1980

24. febrúar
Sveinn Máni Jóhannesson: Ríki og þekking í Bandaríkjunum á 19. öld

10. mars
Sumarliði Ísleifsson: Hreinlæti og óhreinlæti í lýsingum frá Íslandi og Grænlandi frá 18. öld og fram á hina 20.

24. mars
Finnur Jónasson: Sjálfsmynd reykvískra þurfamanna í upphafi 20. aldar

7. apríl
Skafti Ingimarsson: „Glöggt er gestsaugað“. Drengsmálið í ljósi danskra heimilda

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS slóð á greinar. RSS slóð á ummæli.

Knúið af WordPress. Rétt XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 866-3131 - Tölvupóstur: viv13[hjá]hi.is