Latest entries

þriðjudagur, 24. nóv 2015

- Frestað vegna veðurs - Hádegisfyrirlestur: Ekkja elur dreng, sögusagnir kvikna um faðerni: hvað þýða heimildirnar?

Fyrirlestri sem halda átti 1. desember hefur verið frestað vegna veðurs. Nýr tími verður auglýstur síðar. 

Lára Magnúsardóttir flytur hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands sem nefnist „Ekkja elur dreng, sögusagnir kvikna um faðerni: Hvað þýða heimildirnar?“ Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Um margra alda skeið var Íslendingum skylt að skrifta fyrir syndir og brot á lögum um kristni og taka sakramenti reglulega. Embættismönnum kirkju var skylt að áminna þá sem urðu uppvísir að brotum en skriftuðu ekki, um að opinber bannsetning væri yfirvofandi ef  skriftirnar drægjust fram yfir gefinn viðmiðunartíma. Samkvæmt lögum voru bannsettir framseldir til veraldlegra yfirvalda og þau refsuðu samkvæmt eigin aðferðum og var þá yfirvofandi strangur dómur, jafnvel slaverí eða útlegð. Undirstaða slíkra málaferla var skylda til að taka sakramenti sem var innleidd árið 1275 og grunnatriði málsmeðferðar voru eins á miðöldum og eftir siðaskipti.

Málaferli af þessum toga gátu verið langdregin, því tímafrestir voru innbyggðir í réttarkerfið, en jafnframt gátu margir aðilar dregist inn í málaferlin. Miklar heimildir eru til um málarekstur af þessu tagi að minnsta kosti fram til loka 18. aldar. Talsvert hefur verið prentað og hluti heimildanna er því vel þekktur en fjölmargt er aðeins til í handritum. Rannsóknir sem Lára vinnur að miða að því að greina heimildir um saksókn fyrir brot á andlegum lögum sem sérstakan heimildaflokk og lýsa einkennum hans í því skyni að heimildirnar nýtist til fjölbreyttra rannsókna.

Eitt af því sem einkennir heimildaflokkinn er að málareksturinn snýst um karla og konur sem eru hvorki fulltrúar tiltekins hóps eða stéttar og varða atvik sem hvergi er annars getið í heimildum, svo sem ástarlíf. Heimildaflokkurinn felur því í sér einstakar upplýsingar um fortíðina. Annað einkenni er að málsaðilar hafa áhrif á framvindu málsins, og þar með heimildamyndun, því tregða sakborningsins til að skrifta er eina ástæða málaferlanna; engar heimildir urðu til í þeim tilvikum sem fólk skriftaði eins og lög gerðu ráð fyrir. Þess vegna má ætla að heimildirnar séu alltaf vitnisburður um afstöðu sakbornings til einhverra hluta.

Þó liggur engan veginn ljóst fyrir hvaða afstaða það var sem réði því að sakborningur kaus að þrjóskast við að skrifta „út í bannið“, en gera þarf ráð fyrir því að hver og einn hafi haft sínar ástæður. Í fyrirlestrinum eru heimildir um eitt slíkt mál kynntar með því að rekja mál ekkju sem neitaði að feðra barn sem hún ól á 8. áratug 17. aldar, afskipti sveitunga hennar af því og afleiðingar sem það hafði fyrir sóknarprestinn hennar, sem var ef til vill faðirinn, en þó kannski ekki.

Lára Magnúsardóttir er sagnfræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra.

sunnudagur, 22. nóv 2015

Hlaðvarp: Þórunn Sigurðardóttir: Tækifæriskvæði sem heimildir um konur á árnýöld

miðvikudagur, 18. nóv 2015

Hlaðvarp: Guðný Hallgrímsdóttir: Voru konur fátíðar allt fram á 20. öld?

Hlaðvarp: Sigríður Matthíasdóttir og Þorgerður Einarsdóttir: Ógiftar konur í hópi vesturfara

Hlaðvarp: Halldóra Kristinsdóttir og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir: Konur innan sviga

þriðjudagur, 10. nóv 2015

Hádegisfyrirlestur: Voru konur fátíðar allt fram á 20. öld?

Þriðjudaginn 17. nóvember flytur Guðný Hallgrímsdóttir hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands sem nefnist „Voru konur fátíðar allt fram á 20. öld?“ Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Það er þekkt staðreynd að íslenskar konur hafa nánast verið „ósýnilegar“ í menningarsögu fyrri alda. Svo virðist sem þær hafi beinlínis „týnst“ af hinum margumtöluðu spjöldum sögunnar því saga okkar greinir aðeins frá örfáum konum eða réttara sagt einstaka mönnum sem áttu konur. Ýmsir hafa bent á heimildaskort sem hugsanlega skýringu og aðrir að konur hafi hreinlega ekki tekið þátt í samfélaginu á sama hátt og karlar. Raunin er hins vegar sú að mikinn fjölda handrita þar sem konur koma við sögu er að finna á handritasöfnum hérlendis en sumpart eru þau hulin sjónum okkar. Fræðaheimurinn hefur lengst af sinnt sögu þeirra lítið og handritafræðingar hafa litið framhjá vitnisburði kvenna við skráningu handrita. Á Þjóðskjalasafni Íslands er að finna eitt stærsta safn frumheimilda um hlutverk og stöðu kvenna fyrr á öldum. Safnkosturinn inniheldur gríðarlegt magn heimilda um konur af öllum stigum samfélagsins, heimilda sem gefa fræðimönnum framtíðarinnar færi á að horfa á þátt kvenna í þjóðarsögunni á allt annan hátt en áður. Rýnt verður í örlítið brot af þessum merkilega safnkosti og skoðað hvað þar er að finna um konur fortíðar.

Guðný Hallgrímsdóttir stundar nú doktorsnám í sagnfræði við Háskóla Íslands þar sem hún rannsakar sjálfsmynd íslenskra alþýðukvenna á 18. og 19. öld. Árið 2013 kom út eftir hana bókin Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur. Einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu, en fyrir hana hlaut Guðný Fjöruverðlaunin í flokki fræðibóka.

miðvikudagur, 28. okt 2015

Hádegisfyrirlestur: Ógiftar konur í hópi vesturfara

Þriðjudaginn 3. nóvember flytja Sigríður Matthíasdóttir og Þorgerður Einarsdóttir hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands sem nefnist „Ógiftar konur í hópi vesturfara“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.

Konur voru fjölmennar í hópi íslenskra vesturfara. Þær hafa þó lítið verið rannsakaðar, og saga íslenskra Vesturfara hefur takmarkað verið skoðuð út frá kvenna- og kynjasögulegu sjónarhorni. Í þessum fyrirlestri verður m.a. sett fram sú tilgáta að ákveðinn hópur kvenna hafi „gleymst“, bæði í sögu vesturferða og íslenskri kvenna- og kynjasögu. Þetta eru einhleypar konur sem fluttust til Vesturheims. Þær eru ekki hluti íslenskrar embættismannastéttar en virðast heldur ekki tilheyra lægstu þjóðfélagshópum - voru t.d. ekki vinnukonur nema í stuttan tíma ævi sinnar ef þær voru það á annað borð. Þær eru þarna á milli og mikilvægt er að skilgreina í hverju staða þeirra felst. Því er haldið fram að þessar konur hafi haft ákveðið „kapítal“ svo að vísað sé til hugtaks franska félagsfræðingsins Pierre Bourdieu; þær hafi átt eitthvað undir sér, svo sem menntun, starfsframa eða ætt. Í norrænum rannsóknum hefur gjarnan verið byggt á heimildum eins og sendibréfum, æviminningum og mannfjöldaheimildum. Sú rannsókn á þessum konum sem hér er kynnt byggir m.a. á heimildaflokki sem segja má að hafi verið vannýttur í kvenna- og kynjasögu fram til þessa. Þetta eru minningargreinar og æviágrip á borð við þau sem má finna í Vestur-íslenskum æviskrám auk sagnaþátta og „alþýðlegs fróðleiks“ af ýmsum toga. Loks er stuðst við efni sem kemur beint frá afkomendum þeirra kvenna sem hér eru til skoðunar. Í erindinu verður þetta rætt með hliðsjón af dæmum af nokkrum konum.

Sigríður Matthíasdóttir er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur og Þorgerður Einarsdóttir er prófessor í kynjafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn er hluti af verkefni um vesturferðir ógiftra kvenna 1870-1914 sem styrkt er af Rannís.

föstudagur, 23. okt 2015

Pallborðsumræður: Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum í Bíó Paradís 27. október

Þriðjudagskvöldið 27. október efnir Sagnfræðingafélag Íslands til pallborðsumræðna í tengslum við heimildarmyndina Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum, sem nú er sýnd í Bíó Paradís við Hverfisgötu. Sýning á myndinni hefst í Bíó Paradís kl. 20:00 og stendur yfir í um það bil klukkutíma. Að sýningunni lokinni stýrir Íris Cochran Lárusdóttir, sagnfræðingur og meistaranemi í lögfræði, umræðum þar sem taka þátt þær Alma Ómarsdóttir, leikstjóri myndarinnar Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum, Anna Pála Sverrisdóttir lögfræðingur, Bára Baldursdóttir sagnfræðingur og Guðrún Ögmundsdóttir félagsráðgjafi og tengiliður vistheimila. Aðgangseyrir er á myndina en pallborðsumræðurnar sem hefjast að sýningu lokinni eru öllum opnar.

Heimildarmyndin Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum hefur vakið mikla athygli undanfarið, en hún fjallar um afskipti stjórnvalda af samböndum kvenna í Reykjavík við erlenda hermenn á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Í pallborðsumræðunum verður rætt um mannréttindi og kvenréttindi, um þann ugg sem samgangur íslenskra kvenna við erlenda hermenn vakti, orsakir hans og afleiðingar, og um þá hugmynd sem fram hefur komið að framganga lögreglu og ríkisvalds við íslenskar konur á stríðsárunum verði rannsökuð, líkt og gert hefur verið í málum vistheimila ríkisins.

þriðjudagur, 13. okt 2015

Hádegisfyrirlestur: Tækifæriskvæði sem heimildir um konur á árnýöld

Þriðjudaginn 20. október flytur Þórunn Sigurðardóttir hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands sem nefnist „Tækifæriskvæði sem heimildir um konur á árnýöld“. Að venju fer fyrirlesturinn fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.

Tækifæriskvæði voru mjög vinsæl bókmenntagrein á 17. öld og eru varðveitt fjölmörg slík kvæði í íslenskum handritum síðari alda. Þau hafa þó lítið verið prentuð og af þeim sökum hefur lítið verið fjallað um þau í bókmenntasögunni. Í kvæðunum birtast jafnt samfélagsleg viðhorf og afstaða einstaklinga til lífsins og tilverunnar, sem gerir þau að spennandi heimildum fyrir sagnfræðinga. Kvæðin snerta persónulegt líf og aðstæður samtímamanna skáldanna, karla, kvenna og barna, og þau fást við tilfinningar eins og gleði og sorg, örvæntingu og huggun, samkennd og samlíðan, svo nokkuð sé nefnt. Í fyrirlestrinum hyggst Þórunn greina og túlka kvæði sem var ort eftir andlát ungrar konu árið 1619 í því skyni að varpa ljósi á félagslegar aðstæður, viðhorf, tilfinningar og samskipti kynjanna á fyrri hluta 17. aldar.

Þórunn Sigurðardóttir er með doktorsgráðu í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands. Hún er sjálfstætt starfandi fræðimaður.

miðvikudagur, 30. sep 2015

Hádegisfyrirlestur: Frá langhúsum til gangabæja. Áhrif kristnivæðingarinnar á veraldleg húsakynni og stöðu kvenna á Íslandi á miðöldum

Steinunn Kristjánsdóttir heldur hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélagsins þriðjudaginn 6. október undir yfirskriftinni Frá langhúsum til gangabæja. Áhrif kristnivæðingarinnar á veraldleg húsakynni og stöðu kvenna á Íslandi á miðöldum. Fyrirlesturinn fer fram í Þjóðminjasafni Íslands og hefst kl. 12:05.

Kristnivæðingin á víkingaöld og miðöldum hafði mikil áhrif á daglegt líf fólks í Evrópu. Fram koma skýrar breytingar í grafsiðum Íslendinga við kristnitökuna um 999/1000 en um svipað leyti voru fyrstu kirkjur landsins reistar. Kristnitakan leiddi þó ekki aðeins til breytinga á trúarlegum lífsháttum, heldur veraldlegum einnig. Í fyrirlestrinum verður sagt frá þeim áhrifum sem kristnivæðingin hafði í för með sér hérlendis fyrstu aldirnar eftir kristnitöku en lögð áhersla á að skoða hvernig breytingar á heimilishaldi og stöðu kvenna endurspeglast í húsakynnum landsmanna.

Steinunn Kristjánsdóttir er prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Einnig má hafa samband við Vilhelm Vilhelmsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið viv13@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted through Vilhelm Vilhelmsson: viv13@hi.is.

Search this page


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins

8. september
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir: „Hún var með eldrauðar neglur og varir, en að öðru leyti ekkert athugaverð í útliti“. Skjalasafn ungmennaeftirlitsins og ímynd ástandsstúlkunnar

22. september
Halldóra Kristinsdóttir og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir: Konur innan sviga - týndu konurnar í handritasafni Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns

6. október
Steinunn Kristjánsdóttir: Frá langhúsum til gangabæja. Áhrif kristnivæðingarinnar á veraldleg húsakynni og stöðu kvenna á Íslandi á miðöldum

20. október
Þórunn Sigurðardóttir: Tækifæriskvæði sem heimildir um konur á árnýöld

3. nóvember
Sigríður Matthíasdóttir og Þorgerður Einarsdóttir: Ógiftar konur í hópi vesturfara

17. nóvember
Guðný Hallgrímsdóttir: Voru konur fátíðar allt fram á 20. öld?

1. desember
Lára Magnúsardóttir: Ekkja elur dreng, sögusagnir kvikna um faðerni: hvað þýða heimildirnar?

15. desember
Margrét Gunnarsdóttir: Konur í karlaheimi. Kynjasaga á grundvelli sendibréfa embættis- og menntamanna 18. og 19. aldar

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 866-3131 - Tölvupóstur: viv13[hjá]hi.is