þriðjudagur, 10. apr 2018

Hádegisfyrirlestur 17. apríl: „Húsin sem eiga að standa“. Tillögur að bæjarskipulagi 1921-1938 og byggingararfur íslensks þéttbýlis

Þriðjudaginn 17. apríl flytur Haraldur Sigurðsson hádegisfyrirlesturinn „„Húsin sem eiga að standa“. Tillögur að bæjarskipulagi 1921-1938 og byggingararfur íslensks þéttbýlis”. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er sjöunda og síðasta erindi þessa vormisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Frumkvöðlar skipulagsmála á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar lögðu línuna um það hvernig bæri að nálgast bæjarskipulagið. Skoðun þeirra var sú að íslenskir bæir væru hreinlega ljótir og nánast til skammar fyrir þjóðina. Að mati þeirra var skipulagsleysi, vanbúið húsnæði, sóðaskapur og hirðuleysi einkennandi fyrir hið frumstæða þéttbýli landsins. Vinna þyrfti bug á ljótleikanum, skapa heilsteypta og fallega bæjarmynd, helst með breiðgötum, almenningsgörðum, torgum og rismiklum opinberum byggingum. Umfram allt yrði þó að byggja heilsusamlegt íbúðarhúsnæði og skapa bæjarumhverfi sem stæðist kröfur hinna nýtilkomnu skipulagsfræða. Hugmyndir um allsherjar hreingerningu í hinu vanburða þéttbýli „timburhjallanna“ koma ef til vill skýrast fram hér á landi í tillögum að endurskipulagningu miðbæjar Reykjavíkur, þar sem hin eldri og smágerðari byggð átti nánast að víkja í heild sinni fyrir stærri byggingum og breiðari götum. Sú þróun hefur verið rakin með margvíslegum hætti á undanförnum árum.

Minna hefur farið fyrir umfjöllun um tillögur að framtíðarskipulagi bæja landsins sem unnar voru á vegum Skipulagsnefndar ríkisins á tímabilinu 1921 til 1938 og með hvaða hætti þær tóku tillit til hins sögulega byggðamynsturs bæjanna. Í erindinu er sjónum beint að tillögum að bæjarskipulagi sem voru unnar af Guðjóni Samúelssyni arkitekt og Guðmundi Hannessyni lækni á umræddu tímabili. Vikið verður að þeirri innreið alþjóðlegra skipulagsfræða til landsins sem frumkvöðlarnir boðuðu af töluverðu sjálfstrausti og aðdraganda þess að hér á landi var sett nokkuð ströng og ítarleg löggjöf um skipulag bæja strax árið 1921. Lykilspurningin sem lagt er upp með er hvort ríkjandi byggðamynstri bæjanna hafi verið ógnað með tillögum hinnar ríkisskipuðu nefndar.

Haraldur Sigurðsson skipulagsfræðingur hefur starfað að skipulagsmálum hér á landi um árabil. Á undanförnum árum hefur Haraldur starfað hjá Reykjavíkurborg, meðal annars sem verkefnisstjóri Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Samhliða störfum sem skipulagsfræðingur hefur hann unnið að rannsóknum og ritun á sögu bæjarskipulags á Íslandi. Bók um það efni er væntanleg á næstunni.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Markús Þ. Þórhallsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið mth39@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com