föstudagur, 8. des 2017

Hádegisfyrirlestur 12. desember: „Að hafa svo mikið upp úr lífinu sem auðið er“: Ólafur Davíðsson og hinsegin rými innan Lærða skólans á 19. öld

Þriðjudaginn 12. desember flytur Þorsteinn Vilhjálmsson erindið „„Að hafa svo mikið upp úr lífinu sem auðið er“: Ólafur Davíðsson og hinsegin rými innan Lærða skólans á 19. öld“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er sjöundi og síðasti fyrirlestur þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Þorsteinn mun fjalla um dagbækur Ólafs Davíðssonar (1862 – 1903), grasafræðings og þjóðsagnasafnara, frá námsárum hans í Reykjavík og Kaupmannahöfn, en þær eru skráðar með hléum milli 1881 og 1884. Þær eru merkar heimildir um samkynja ástir, hvort sem er í íslensku samhengi eða alþjóðlegu, en Ólafur lýsir þar sambandi sínu við samnemanda sinn í Lærða skólanum, Geir Sæmundsson (1867 – 1927). Þorsteinn mun nota dagbækurnar auk bréfa Ólafs til vina hans til að búa til mynd af því rými sem Ólafur hrærðist í og fóstraði samband hans við Geir útfrá kenningum franska heimspekingsins Michel Foucault um annarleg rými eða staðbrigði (fr. hétérotopies). Heimavistarskólar, svo sem Lærði skólinn, eru einmitt meðal dæma Foucaults um slík undantekningarrými í samfélaginu þar sem viðmið og venjur missa mátt sinn og athafnarýmið víkkar. Þannig má skilja Lærða skólann sem það sem hinsegin fræði kalla hinsegin rými (e. queer space); stað þar sem var opnað á myndun öðruvísi kynferðislegra tengsla en annars leyfðust í íslensku sveitasamfélagi, sem undir lok 19. aldar stóð á krossgötum.

Þorsteinn Vilhjálmsson (f. 1987) er þýðandi og sjálfstætt starfandi fræðimaður með meistaragráðu í klassískum viðtökufræðum frá Háskólanum í Bristol. Hann hlaut nýlega rannsóknarstyrk frá RANNÍS til að skoða dagbækur Ólafs Davíðssonar og búa til útgáfu og byggir fyrirlesturinn á þeirri rannsókn.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Markús Þ. Þórhallsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið mth39@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com