mánudagur, 16. jan 2017

Hádegisfyrirlestur 24. janúar: Fæðing hinnar íslensku lesbíu

Fyrsti hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélagsins árið 2017 fer fram þriðjudaginn 24. janúar. Þá flytur Íris Ellenberger erindi sem hún kallar „Fæðing hinnar íslensku lesbíu“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Þegar rætt er um hinsegin fólk á Íslandi ber gjarna á góma hversu fljótt Ísland þróaðist úr fordómafullu og kúgandi samfélagi í þjóðfélag sem fagnar fjölbreytileika. En þegar litið er til sögunnar kemur í ljós að ein meginorsökin fyrir þessum skyndilega viðsnúningi er sú að samkynhneigð kom mun síðar inn í ríkjandi orðræðu hérlendis en í öðrum vestrænum löndum og mótun samkynhneigðrar sjálfsveru því talsvert seinna á ferðinni hér en í nágrannalöndunum.

Þetta á sér ýmsar sögulegar orsakir sem raktar verða í erindinu. Meginviðfangsefni þess er þó að varpa ljósi á hvernig lesbíur urðu til sem jaðarsettur þjóðfélagshópur á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Því verður fjallað um vitneskjuna um samkynhneigð kvenna á Íslandi á 20. öld og með sérstakri áherslu á umfjöllun um samkynhneigð í opinberri orðræðu á Íslandi. Með því að leggja áherslu á orðræðuna er hægt að leiða í ljós hvernig lesbísk sjálfsvera mótaðist í íslensku samhengi og jafnframt hvenær samkynhneigð, í nútímaskilningi þessa hugtaks, varð raunhæfur valkostur fyrir íslenskar konur. Með öðrum orðum hvenær lesbíur tóku sér stöðu á jaðri íslensks samfélags.

Íris Ellenberger er nýdoktor við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi frá sama skóla árið 2013 og hefur síðan starfað við rannsóknir annars vegar á sögu hinsegin fólks á Íslandi og hins vegar á sögu fólksflutninga til Íslands. Hún hefur einnig stundað margvíslegt félagsstarf á vettvangi hinsegin fólks og er m.a. virkur meðlimur í Samtökunum ´78.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Kristínu Svövu Tómasdóttur, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið kristinsvava@gmail.com

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com