þriðjudagur, 8. des 2015

Hádegisfyrirlestur: Konur í karlaheimi

Þriðjudaginn 15. desember flytur Margrét Gunnarsdóttir hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands sem nefnist „Konur í karlaheimi – sendibréf embættismanna 18. og 19. aldar sem heimildir um kynjasögu“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Yfirskrift fyrirlestrarraðar Sagnfræðingafélagsins haustið 2015 er „Heimildir um konur/konur í heimildum“. Í fyrirlestri Margrétar Gunnarsdóttur verður gerð tilraun til að varpa ljósi á „karla“-heimildir, þ.e.a.s. sendibréf á milli embættismanna sem forvitnilegan heimildaflokk er nýta má í kynjasögulegum rannsóknum. Mun meira er varðveitt af sendibréfum með hendi karlmanna en kvenna. Sendibréf embættis- og menntamanna veita ekki aðeins ómetanlegar upplýsingar um viðhorf og hugmyndir karlmanna og hinn svokallaða „pólitíska karlaheim“ samtímans, heldur einnig hversdagslegar áhyggjur, menntun barna, heimilishagi í síbreytilegum myndum, stöðu vinnuhjúa, verksvið kvenna, klæðaburð, hjúskaparmál og svo mætti lengi telja. Þannig bregða embættismennirnir í skrifum sínum stundum óvæntri birtu á kvenfólk samtíðarinnar, einstakar konur, samfélagsvaldssvið kynjanna og kvennaheiminn. Embættismannabréfin sýna að kvenna- og karlaveröldin er samofnari en ætla mætti í fyrstu.

Margrét Gunnarsdóttir er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Doktorsrannsókn hennar fjallar um stjórnmálasögu Íslands á tímabilinu frá því um 1780 til 1840. Grundvallarheimildir rannsóknarinnar eru sendibréf íslenskra embættismanna á ofangreindu tímabili.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Markús Þ. Þórhallsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið mth39@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com