miðvikudagur, 28. okt 2015

Hádegisfyrirlestur: Ógiftar konur í hópi vesturfara

Þriðjudaginn 3. nóvember flytja Sigríður Matthíasdóttir og Þorgerður Einarsdóttir hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands sem nefnist „Ógiftar konur í hópi vesturfara“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.

Konur voru fjölmennar í hópi íslenskra vesturfara. Þær hafa þó lítið verið rannsakaðar, og saga íslenskra Vesturfara hefur takmarkað verið skoðuð út frá kvenna- og kynjasögulegu sjónarhorni. Í þessum fyrirlestri verður m.a. sett fram sú tilgáta að ákveðinn hópur kvenna hafi „gleymst“, bæði í sögu vesturferða og íslenskri kvenna- og kynjasögu. Þetta eru einhleypar konur sem fluttust til Vesturheims. Þær eru ekki hluti íslenskrar embættismannastéttar en virðast heldur ekki tilheyra lægstu þjóðfélagshópum - voru t.d. ekki vinnukonur nema í stuttan tíma ævi sinnar ef þær voru það á annað borð. Þær eru þarna á milli og mikilvægt er að skilgreina í hverju staða þeirra felst. Því er haldið fram að þessar konur hafi haft ákveðið „kapítal“ svo að vísað sé til hugtaks franska félagsfræðingsins Pierre Bourdieu; þær hafi átt eitthvað undir sér, svo sem menntun, starfsframa eða ætt. Í norrænum rannsóknum hefur gjarnan verið byggt á heimildum eins og sendibréfum, æviminningum og mannfjöldaheimildum. Sú rannsókn á þessum konum sem hér er kynnt byggir m.a. á heimildaflokki sem segja má að hafi verið vannýttur í kvenna- og kynjasögu fram til þessa. Þetta eru minningargreinar og æviágrip á borð við þau sem má finna í Vestur-íslenskum æviskrám auk sagnaþátta og „alþýðlegs fróðleiks“ af ýmsum toga. Loks er stuðst við efni sem kemur beint frá afkomendum þeirra kvenna sem hér eru til skoðunar. Í erindinu verður þetta rætt með hliðsjón af dæmum af nokkrum konum.

Sigríður Matthíasdóttir er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur og Þorgerður Einarsdóttir er prófessor í kynjafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn er hluti af verkefni um vesturferðir ógiftra kvenna 1870-1914 sem styrkt er af Rannís.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Markús Þ. Þórhallsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið mth39@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com