þriðjudagur, 17. mar 2015

Hádegisfyrirlestur: Fátækralöggjöfin frá 1907 til 1935 og sjálfsmynd reykvískra þurfamanna í upphafi 20. aldar

Þriðjudaginn 24. mars flytur Finnur Jónasson hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélagsins undir yfirskriftinni „Fátækralöggjöfin frá 1907 til 1935 og sjálfsmynd reykvískra þurfamanna í upphafi 20. aldar“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um fátækralöggjöfina á Íslandi frá árinu 1907 til ársins 1935 og framkvæmd hennar. Einnig verður fjallað um líf þurfamanna í Reykjavík á tímabilinu og viðhorf þeirra til eigin stöðu, viðhorf almennings til fátæktarframfærslu og þurfamennsku og þær breytingar sem urðu á orðræðu um fátækt á tímabilinu.

Árið 1905 voru sett ný fátækralög sem tóku gildi árið 1907 og giltu til ársins 1935. Þrátt fyrir að þau hafi bætt stöðu þurfamanna lítillega voru enn í þeim ákvæði um nær algeran réttindamissi þeirra sem þáðu fátækrastyrki. Fátækralögin voru mjög umdeild og urðu talsverðar deilur um þau, bæði á Alþingi og í dagblöðum, og lagðar voru fram margar tillögur til þess að breyta lögunum til mannúðlegri vegar. Litlar breytingar urðu þó á lögunum á gildistíma þeirra. Framkvæmd fátækralaga í Reykjavík tók hins vegar talsverðum breytingum á lokaárum þriðja áratugarins og aukin harka færðist í meðferð þeirra þurfamanna sem taldir voru eiga sök á eigin vanda. Í fyrirlestrinum verður fjallað um aðstæður þurfamanna í Reykjavík, sjálfsmynd þeirra og viðhorf til eigin stöðu. Fjallað verður um hvernig viðhorf þeirra féllu að skoðunum ráðamanna á þeim og hvort ráða megi breytingar á skoðunum þurfamanna til stöðu sinnar þegar líða tekur á tímabilið.

Finnur Jónasson er MA-nemi í sagnfræði og byggir fyrirlesturinn á meistararitgerð hans.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Kristínu Svövu Tómasdóttur, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið kristinsvava@gmail.com

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com