þriðjudagur, 17. feb 2015

Hádegisfyrirlestur: Ríki og þekking í Bandaríkjunum á nítjándu öld

Þriðjudaginn 24. febrúar flytur Sveinn Máni Jóhannesson fyrirlestur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins á vegum Sagnfræðingafélagsins Íslands. Fyrirlesturinn ber titilinn „Ríki og þekking í Bandaríkjunum á nítjándu öld“ og hefst kl. 12:05.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um samspil þekkingar og ríkisvalds í Bandaríkjunum á fyrri hluta nítjándu aldar. Markmiðið er að að varpa nýju ljósi á myndun bandaríska ríkisins. Styrkur nútímaríkja er nátengdur getu þeirra til að afla sér þekkingar og hagnýta hana. Sérfræðiþekking var því lykilatriði við ríkismótun í kjölfar Bandarísku byltingarinnar í lok átjándu aldar. Bandaríkin – sem urðu fyrsta landnemaríkið í Nýja heiminum – þurftu að afla sér þekkingar á því náttúrulega og félagslega umhverfi sem þau gerðu tilkall til að stjórna. Til þess að verða ráðandi afl í Norður-Ameríku leitaðist alríkisstjórnin við að fanga og hagnýta óþekkt landsvæði, náttúruauðlindir og mannafla. Þessi sameiginlegu markmið opinberra stofnanna, kapítalista, þrælahaldara og bænda útheimtu víðtæka þekkingu á vísindum og tækni. Fyrir tilkomu rannsóknaháskóla og einkarekinna rannsóknastofnanna féll það einkum í hlut alríkisins að mæta þeirri þörf. Fræðimenn hafa hingað til gefið samtvinnun þekkingar og ríkisvalds í Bandaríkjunum lítinn gaum. Hún fellur ekki vel að hefðbundnum (weberískum) greiningarömmum og söguskýringum þar sem lögð er áhersla á sérstöðuhugmyndir eða þjóðarsögu. En um miðja nítjándu öld var sérfræðiþekking orðin að lykilatriði í stefnu alríkisstjórnarinnar. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hversu þekkingarframleiðsla hafði víðtæk áhrif á mótun alríkisstofnanna, lagakerfisins, hugmyndafræði og innviða landsins.

Sveinn Máni Jóhannesson er doktorsnemi í sagnfræði við Cambridge-háskóla í Bretlandi.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Markús Þ. Þórhallsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið mth39@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com