miðvikudagur, 17. sep 2014

Hádegisfyrirlestur: Að búa til söguskoðun

Næstkomandi þriðjudag, þann 23. september, munu sagnfræðingarnir Gunnar Karlsson og Súsanna Margrét Gestsdóttir flytja fyrstu hádegisfyrirlestra Sagnfræðingafélagsins á haustmisseri 2014 undir yfirskriftinni „Að búa til söguskoðun“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12:05.

Kennarar og höfundar kennslubóka um sögu starfa beinlínis við það að miðla sögulegri þekkingu til nemenda. Í því starfi búa þeir við ákveðinn ramma sem þeim er gert að starfa eftir en komast þó aldrei hjá því að taka á einhverjum tímapunkti afstöðu til þess hvers konar söguskoðun þeir vilji halda að nemendum og hvers vegna. Sagnfræðingar hafa gjarnan vísað til kennslubóka í sögu eða kennsluaðferða í skólum landsins til þess að útskýra hvers vegna tilteknar söguskoðanir halda velli þótt þær þyki ekki samræmast nýrri rannsóknum á sviðinu. Öðrum þykja þær bækur eða kennsluaðferðir ekki samræmast þeim gildum sem námið eigi að stuðla að. En hvaða sjónarmið eiga að ráða för við gerð kennslubóka í sögu? Hvað ræður því hvers konar söguskoðun er miðlað í slíkum bókum? Er æskilegt að sögukennsla rækti hjá nemendum eina söguskoðun umfram aðra? Hvernig myndi annars konar sögukennsla, þar sem forðast væri að miðla einni sýn á söguna umfram aðra, líta út?

Gunnar Karlsson hefur skrifað fjölda námsbóka í sögu fyrir öll skólastig, frá grunnskóla upp í háskóla, auk annarra ritstarfa og rannsókna og kennslu á háskólastigi. Súsanna Margrét Gestsdóttir hefur kennt sögu í framhaldsskólum og kennslufræði í HÍ um árabil, unnið með sögukennurum um alla Evrópu að margvíslegum viðfangsefnum og er nú í doktorsnámi í kennslufræði sögu.

Allir velkomnir!


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Markús Þ. Þórhallsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið mth39@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com