þriðjudagur, 16. okt 2012

Velsæld í örbirgðarlandi?

Næstkomandi þriðjudag, þann 23. október, verður fjórði hádegisfyrirlestur vetrarins í hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands undir yfirskriftinni Hvað er fátækt? Að þessu sinni mun Margrét Gunnarsdóttir doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands flytja erindið „velsæld í örbirgðarlandi?“

Fyrirlesturinn er haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00.

Velsæld í örbirgðarlandi?

Hvernig horfðu eymdartímar Móðuharðinda við þeim Íslendingum sem helst mætti segja að byggju við velsæld á þeim tíma? Hvernig brugðust þeir við raunum samferðafólks sem hvarvetna blöstu við og takast þurfti á við? Hvaða áhrif höfðu harðindin á lífshætti þeirra sjálfra og lífshlaup? Þessar spurningar eru meðal þeirra sem varpað verður ljósi á í fyrirlestrinum, sem fjallar um íslenskt samfélag á ofanverðri  18. öld, en óhætt er að segja að það hafi verið fátæktarland. Skoðaðar verða sérstaklega upplýsingar sem fram koma í „prívatreikningsbókum“ Hannesar Finnssonar biskups frá árunum 1782 til 1802, sem varðveittar eru á Handritadeild Landsbókasafns Íslands. Biskupinn, líf hans og lífshættir, verða því  í fyrirrúmi í fyrirlestrinum, en ævi hans endurspeglar í hnotskurn bæði velsæld og örbirgð samtíma hans. Hannes ritaði eins og kunnugt er „Um mannfækkun af hallærum“ sem birtist í Riti þess (konunglega) íslenzka Lærdómslistafélags árið 1793.

Heimildir sem liggja til grundvallar eru af ólíku tagi, sendibréf, fyrrgreindar reikningsbækur, myndefni úr samtímaheimildum og útgefin rit þeirra sem helst mætti kalla fulltrúa velsældarinnar í samfélaginu, háembættismenn landsins. Í Eptirmælum átjándu aldar eftir Magnús Stephensen kemur fátækt til dæmis oft við sögu en sömuleiðis óhóf og munaður sem Magnús átelur landsmenn fyrir og segir að hafi færst í vöxt á öldinni.

 


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Markús Þ. Þórhallsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið mth39@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com