miðvikudagur, 3. okt 2007

Akademísk helgisiðafræði - Hugvísindi og háskólasamfélag

Akademísk helgisiðafræði

Miðstöð einsögurannsókna í ReykjavíkurAkademíunni kynnir bókina: Akademísk helgisiðafræði -Hugvísindi og háskólasamfélag eftir Sigurð Gylfa Magnússon

Bókin Akademísk helgisiðafræði er einsögurannsókn sem er skrifuð eins og spennusaga. Þar er farið í saumana á virkni háskólasamfélagsins; hvernig stofnanir, forsvarsmenn og fræðimenn sem eru hluti af Háskóla Íslands ráða ráðum sínum þegar utanaðkomandi aðilar knýja þar dyra. Höfundur bókarinnar, Sigurður Gylfi Magnússon, er doktor í sagnfræði frá Carnegie Mellon háskólanum í Bandaríkjunum en hann lagði fram á síðasta ári aðra doktorsritgerð við hugvísindadeild Háskóla Íslands. Farsakennd saga málsins sumarið 2007 er rakin í þessari bók sem er fræðitexti í akademískum skilningi, málsvörn í lagalegum skilningi og um leið persónuleg yfirlýsing höfundar um hugvísindi og háskólasamfélag.

Í bókinni er fjallað um skipan sérstakrar dómnefndar um verk Sigurðar Gylfa, dómnefndarálitið sjálft skoðað og nákvæm framvinda þess greind. Vanhæfi formanns dómnefndarinnar, Lofts Guttormssonar, til setu í nefndinni er tekið til umfjöllunar ásamt trúnaðarbroti annars nefndarmanns, Einars Hreinssonar, sem lak niðurstöðum nefndarinnar á meðan umfjöllun hugvísindadeildar Háskóla Íslands stóð sem hæst. Málsatvik eru reifuð með samblandi af birtingu frumgagna málsins (heimilda) og stuttum tengiköflum þar sem sagt er frá helstu atriðum í samskiptum höfundar við hugvísindadeild Háskóla Íslands á meðan á úrvinnslu málsins stóð. Inn á milli er síðan að finna ítarlegri greiningarkafla þar sem farið er nákvæmlega ofan í veigamestu þættina, eins og dómnefndarálitið, almennan vanda háskólasamfélagsins og hæfisreglur stjórnsýslulaganna; hvernig fræðimenn og umboðsmaður Alþingis hafa fjallað um þær á umliðnum árum. Margt virðist vera óljóst í sambandi við hvenær vísinda- og fræðimenn teljist vanhæfir til að taka sæti í dómnefndum á vegum háskólastofnana, en í bókinni er gerð tilraun til að varpa nýju ljósi á þau mál með sérstakri lögskýringu á hæfiskafla stjórnsýslulaganna.

Bókin Akademísk helgisiðafræði er gefin út af Miðstöð einsögurannsókna í ReykjavíkurAkademíu. ReykjavíkurAkademían sér um dreifingu bókarinnar (ra@akademia.is eða í síma: 562-8561), en viðmiðunarverð hennar er 1900 kr. Bókin er 337 blaðsíður. Sverrir Sveinsson prentari braut bókina um, Ingólfur Júlíusson hannaði bókarkápu og bókin var prentuð hjá Leturprenti. Bókin kemur út í Nafnlausu ritröð Miðstöðvar einsögurannsókna og er sú sjöunda í röðinni í þeim bókaflokki.

Sigurður Gylfi Magnússon er háskólakennari og sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Markús Þ. Þórhallsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið mth39@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com