þriðjudagur, 23. jan 2007

Opnun Miðstöðvar munnlegrar sögu

Miðstöð munnlegrar sögu verður opnuð við hátíðlega athöfn í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Þjóðarbókhlöðu, föstudaginn 26. janúar. Athöfnin hefst kl. 15.00.
Miðstöðin mun beita sér fyrir söfnun, varðveislu, rannsóknum og miðlun á munnlegum heimildum sem snerta sögu lands og þjóðar. Munnleg saga notar hið talaða orð, frásagnir fólks af atburðum eða lífshlaupi sínu, til að afla þekkingar á fortíðinni. Munnlegar heimildir gefa okkur tækifæri til að nálgast söguna á nýjan og oft óvæntan hátt. Þær hafa t.d. verið notaðar til þess að gefa alþýðufólki rödd sem sjaldan heyrist í opinberum söguritum og eru því ákveðið mótvægi við hinar rituðu heimildir sem verða til í stofnunum samfélagins.

Við opnunina verður tekin í notkun vefsíða Miðstöðvar munnlegrar sögu. Slóðin er www.munnlegsaga.is. Þar verður í framtíðinni hægt að nálgast skrár og jafnvel hluta af hljóðritasafni Miðstöðvarinnar. Þar er einnig að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um munnlega sögu, tæknilegar leiðbeiningar, siðareglur og fleira sem hafa ber í huga þegar viðtöl eru tekin.
Að Miðstöð munnlegrar sögu standa þrjár rannsókna- og háskólastofnanir í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Þær eru Sagnfræðistofnun H.Í., Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum við H.Í. og Kennaraháskóli Íslands.

Í tilefni af opnun Miðstöðvarinnar verður haldið norrænt málþing um munnlegar heimildir laugardaginn 27. janúar kl. 10.00–13.00. Meðal þátttakenda eru Lars Gaustad, formaður Alþjóðasamtaka hljóð- og myndsafna (IASA), Lauri Harvilahti, forstöðumaður Þjóðfræðasafns og safns munnlegra heimilda í Helsinki. og Britta Bjerrum Mortensen, fræðimaður við Dansk folkemindesamling í Kaupmannahöfn. Málþingi er haldið í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, og fer fram á ensku.

Kl. 14:00 fer fram stofnfundur félags um rannsóknir og varðveislu á munnlegum menningararfi.
Í framhaldi af stofnfundinum verður málþing um notkun munnlegra heimilda á Íslandi kl. 15.00–17.30. Þátttakendur í málþinginu koma úr ýmsum fræðigreinum, svo sem sagnfræði, mannfræði og þjóðfræði. Málþingið er haldið í Odda 101 og fer fram á íslensku. Það er öllum opið.

Ýtarlega dagskrá beggja málþinganna má nálgast hér

Frekari upplýsingar veita:
Sigrún Sigurðardóttir, verkefnisstjóri, s. 525 5775, sigrunsig@bok.hi.is
Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði, 525 4208, gudmjons@hi.is


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Markús Þ. Þórhallsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið mth39@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com