fimmtudagur, 24. feb 2005

Ályktun samþykkt á fundi Sagnfræðingafélags Íslands 23. febrúar 2005

Á fundi Sagnfræðingafélags Íslands þann 23. febrúar sl. um aðgengi að heimildum á söfnum, var samþykkt eftirfarandi ályktun sem Bragi Þorgrímur Ólafsson bar upp fyrir hönd stjórnar félagsins:

Fundur Sagnfræðingafélags Íslands haldinn á Þjóðskjalasafni 23. febrúar 2005 ítrekar eftirfarandi ályktun sem samþykkt var á málþingi félagsins þann 1. apríl árið 1989:

Mikilvæg forsenda fyrir rannsóknum í sagnfræði er að fræðimenn hafi aðgang að góðum skjalasöfnum. Góð skjalavarsla er einnig hornsteinn í stjórnsýslu ríkisins. Í áraraðir hefur dregist að útbúa Þjóðskjalasafni viðunandi húsnæði. Með því að takmarka mjög fjárframlög til Þjóðskjalasafns er komið í veg fyrir að það geti starfað samkvæmt lögum og gegnt hlutverki sínu. Þessi stefna er ekki aðeins óhagkvæm fyrir ríkið, hún kemur einnig í veg fyrir að hægt sé að stunda margvíslegar rannsóknir á sögu og menningu þjóðarinnar. Málþing Sagnfræðingafélags Íslands hvetur ríkisstjórnina til að útvega Þjóðskjalasafni viðunandi rekstrarfé og ganga endanlega frá húsnæði þess við Laugaveg 162. Á þann hátt auðveldar hún stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og leggur þýðingarmikið lóð á vogaskálar íslenskrar menningar.

Upphaflega ályktunin var samþykkt á málþingi um byggðasögu sem félagið stóð fyrir þann 1. apríl árið 1989 og fór fram í húsakynnum Þjóðskjalasafns. Magnús Guðmundsson sagnfræðingur bar upp ályktunina sem stjórn félagsins hafði tekið saman og var hún samþykkt án mótatkvæða, og var send í kjölfarið til þingmanna og fjölmiðla (sjá Fréttabréf Sagnfræðingafélags Íslands 7. árg. 4. tbl. apríl 1989, bls. 6.). Stjórn félagsins ákvað að bera fram þessa ályktun til ítrekunar nú í ljósi þess að efni hennar á við enn þann dag í dag, sextán árum eftir að hún var samþykkt.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Markús Þ. Þórhallsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið mth39@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com