Latest entries

mánudagur, 8. okt 2018

Hádegisfyrirlestur 16. október: Áhrif spænsku veikinnar á barnshafandi konur á Íslandi árið 1918

Þriðjudaginn 16. október flytja Erla Dóris Halldórsdóttir og Magnús Gottfreðsson hádegisfyrirlesturinn „Áhrif spænsku veikinnar á barnshafandi konur á Íslandi árið 1918“. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er þriðja erindi þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema haustsins er að þessu sinni hörmungar.

„Fyrri hluta ársins var heilsufar í betra meðallagi hér í bænum, inflúensufarsótt sú, sem hingað barst í lok októbermánaðar, gjörbreytti þessu og verður að telja ár þetta hörmulegasta og sorglegasta árið í heilsufarstilliti, bæði vegna þess hversu margir veiktust og ennfremur af hinum mikla og óvanalega manndauða.“ Þetta skráði Jón Hj. Sigurðsson læknir í Reykjavík í ársskýrslu sinni til landlæknis í lok árs 1918. Hjá Jóni kom ennfremur fram að fjöldi gravidra kvenna leystist höfn og fósturlát af völdum veikinnar voru algeng. Mikill fjöldi fæðandi kvenna beið bana.

Sá hópur sem hefur litla umfjöllun fengið í frásögnum af spænsku veikinni eru barnshafandi konur en dánartíðni þeirra var allt að 37% í veikinni. Í fyrirlestrinum verður dregin upp mynd af þeim konum sem misstu fóstur í veikinni, þeim konum sem fæddu fársjúkar, þeim sem fæddu minna veikar og af öðrum sem dóu áður en þær náðu að fæða. Leitað verður svara við spurningunni hver áhrif spænsku veikinnar voru á barnshafandi konur og litið bæði til Íslands og hinna Norðurlandanna í því skyni. Af hverju veikin lagðist þyngra á konur á fyrri hluta meðgöngu en í lok meðgöngunnar? Þær sem voru komnar að fæðingu urðu minna veikar en hinar, sem styttra voru gengnar.

Erla Dóris Halldórsdóttir er sagnfræðingur og hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún er með sérmenntun í gjörgæsluhjúkrun frá Haukeland sjúkrahúsinu í Bergen í Noregi. Hún hefur einnig lokið BA- og MA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Í október 2016 varði hún  doktorsritgerð í sagnfræði, Fæðingarhjálp á Íslandi 1760-1880 við Sagnfræði- og heimspekideild HÍ. Rannsóknir Erlu Dórisar í sagnfræði hafa einkum verið á sviði heilbrigðissögu.

Magnús Gottfreðsson er smitsjúkdómalæknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Hann lauk embættisprófi frá læknadeild  HÍ árið 1991, doktorsprófi frá sömu deild 1999 og stundaði sérnám í lyflækningum og smitsjúkdómum við Duke háskóla í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum 1993-1999. Hann hefur stundað rannsóknir á alvarlegum sýkingum, þ.á.m. inflúensu og heilahimnubólgu en jafnframt leitast við að nýta sagnfræðileg gögn til að varpa ljósi á faraldra fyrri alda hérlendis.

mánudagur, 24. sep 2018

Hádegisfyrirlestur 2. október: Refsing guðs, náttúruhamfarir eða samfélagsmein? Um orsakir hungursneyða á Íslandi

Þriðjudaginn 2. október flytur Guðmundur Jónsson hádegisfyrirlesturinn „Refsing guðs, náttúruhamfarir eða samfélagsmein? Um orsakir hungursneyða á Íslandi“. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er annað erindi þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema haustsins er að þessu sinni hörmungar.

Sautjánda og átjánda öldin hafa verið kallaðar hunguraldirnar í sögu Íslands enda voru þá hallæri fleiri og hungurdauði meiri en á flestum öðrum öldum Íslandssögunnar. Á tímum trúrækni og strangra siðaboða á árnýöld töldu margir að harðæri og hungur væru refsing Guðs fyrir syndugt líferni. En síðan Malthus var á dögum hafa kenningar um fæðuframboð (e. food availability theories) verið áhrifamestar skýringa á hungursneyðum. Á Íslandi hafa menn rakið samdrátt fæðuframboðs fyrst og fremst til náttúruhamfara eða versnandi veðurfars en með nýjum viðhorfum í rannsóknum á fæðukreppum á síðustu áratugum 20. aldar fóru menn að beina athyglinni meir og meir að samfélagslegum þáttum, viðbrögðum almennings og stjórnvalda og veikleikum í samfélagsbyggingu. Í erindinu fjallar Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði um hvernig skilningur fræðimanna á orsökum hungursneyða hefur breyst.

þriðjudagur, 11. sep 2018

Hádegisfyrirlestur 18. september: Á milli Hitlers og Stalín: Mestu hörmungartímar Norðurlanda á 20. öld.

Þriðjudaginn 18. september flytur Valur Gunnarsson hádegisfyrirlesturinn „Á milli Hitlers og Stalín: Mestu hörmungartímar Norðurlanda á 20. öld“. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fyrsta erindi þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema haustsins er að þessi sinni hörmungar.

Seinni heimsstyrjöldin var án nokkurs vafa mesti harmleikur 20. aldar og lét Norðurlöndin ekki ósnortin. Um 10.000 Norðmenn, 6.000 Danir og 75.000 Finnar týndu lífi á þessum sex árum, auk 230 Íslendinga. Markmið allra ríkjanna í upphafi stríðs var að halda sig utan við átökin, en öll drógust þau inn í stríðið að Svíþjóð undanskilinni. Hvernig gerðist það að stríðið leitaði norður á bóginn í þetta sinn, og hefði það getað farið öðruvísi?

Valur Gunnarsson er sagnfræðingur og bókmenntafræðingur að mennt og er að hefja doktorsnám í ritlist við hinn virta University of East Anglia. Hann hefur sent frá sér þrjár skáldsögur. Sú nýlegasta, Örninn og fálkinn, fjallar um hvað hefði getað gerst ef Þjóðverjar hefðu hernumið Ísland í stað Breta árið 1940.

fimmtudagur, 17. maí 2018

Hlaðvarp/myndband: Haraldur Sigurðsson: „Húsin sem eiga að standa“. Tillögur að bæjarskipulagi 1921-1938 og byggingararfur íslensks þéttbýlis

Hlaðvarp/myndband: Íris Ellenberger: Delludanska, toddýsgildi og verkamenn moldugir frá verki sínu. Mót, átök og samblöndun menningar í Reykjavík 1900–1920

mánudagur, 14. maí 2018

Hlaðvarp/myndband: Arnþór Gunnarsson: Reykjavíkurflugvöllur. Saga flugvallarmálsins

Hlaðvarp/myndband: Anna Dröfn Ágústsdóttir og Guðbrandur Benediktsson: Sagan á sýningu? ...

þriðjudagur, 17. apr 2018

Kallað eftir erindum: Hádegisfyrirlestrar um hörmungar

Sagnfræðingafélagið kallar eftir tillögum að erindum fyrir hádegisfyrirlestraröð félagsins á haustmisseri 2018. Hádegisfyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.

Í ár er haldið upp á ýmis söguleg afmæli á Íslandi og eru til dæmis liðin tíu ár frá efnahagshruninu haustið 2008. Hæst ber þó fullveldisafmælið, en árið 2018 eru 100 ár frá því Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Þrengingar settu þó einnig mark sitt á fullveldisárið; frosthörkur, spænsk veiki og Kötlugos. Þema hádegisfyrirlestraraðar Sagnfræðingafélagsins að þessu sinni er hörmungar. Kallað er eftir erindum um söguleg áföll stór og smá, orsakir þeirra og afleiðingar.

Tillögur skulu sendar félaginu á netfangið sagnfraedingafelagid@gmail.com. Skilafrestur er til 15. maí.

þriðjudagur, 10. apr 2018

Hádegisfyrirlestur 17. apríl: „Húsin sem eiga að standa“. Tillögur að bæjarskipulagi 1921-1938 og byggingararfur íslensks þéttbýlis

Þriðjudaginn 17. apríl flytur Haraldur Sigurðsson hádegisfyrirlesturinn „„Húsin sem eiga að standa“. Tillögur að bæjarskipulagi 1921-1938 og byggingararfur íslensks þéttbýlis”. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er sjöunda og síðasta erindi þessa vormisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Frumkvöðlar skipulagsmála á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar lögðu línuna um það hvernig bæri að nálgast bæjarskipulagið. Skoðun þeirra var sú að íslenskir bæir væru hreinlega ljótir og nánast til skammar fyrir þjóðina. Að mati þeirra var skipulagsleysi, vanbúið húsnæði, sóðaskapur og hirðuleysi einkennandi fyrir hið frumstæða þéttbýli landsins. Vinna þyrfti bug á ljótleikanum, skapa heilsteypta og fallega bæjarmynd, helst með breiðgötum, almenningsgörðum, torgum og rismiklum opinberum byggingum. Umfram allt yrði þó að byggja heilsusamlegt íbúðarhúsnæði og skapa bæjarumhverfi sem stæðist kröfur hinna nýtilkomnu skipulagsfræða. Hugmyndir um allsherjar hreingerningu í hinu vanburða þéttbýli „timburhjallanna“ koma ef til vill skýrast fram hér á landi í tillögum að endurskipulagningu miðbæjar Reykjavíkur, þar sem hin eldri og smágerðari byggð átti nánast að víkja í heild sinni fyrir stærri byggingum og breiðari götum. Sú þróun hefur verið rakin með margvíslegum hætti á undanförnum árum.

Minna hefur farið fyrir umfjöllun um tillögur að framtíðarskipulagi bæja landsins sem unnar voru á vegum Skipulagsnefndar ríkisins á tímabilinu 1921 til 1938 og með hvaða hætti þær tóku tillit til hins sögulega byggðamynsturs bæjanna. Í erindinu er sjónum beint að tillögum að bæjarskipulagi sem voru unnar af Guðjóni Samúelssyni arkitekt og Guðmundi Hannessyni lækni á umræddu tímabili. Vikið verður að þeirri innreið alþjóðlegra skipulagsfræða til landsins sem frumkvöðlarnir boðuðu af töluverðu sjálfstrausti og aðdraganda þess að hér á landi var sett nokkuð ströng og ítarleg löggjöf um skipulag bæja strax árið 1921. Lykilspurningin sem lagt er upp með er hvort ríkjandi byggðamynstri bæjanna hafi verið ógnað með tillögum hinnar ríkisskipuðu nefndar.

Haraldur Sigurðsson skipulagsfræðingur hefur starfað að skipulagsmálum hér á landi um árabil. Á undanförnum árum hefur Haraldur starfað hjá Reykjavíkurborg, meðal annars sem verkefnisstjóri Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Samhliða störfum sem skipulagsfræðingur hefur hann unnið að rannsóknum og ritun á sögu bæjarskipulags á Íslandi. Bók um það efni er væntanleg á næstunni.

mánudagur, 26. mar 2018

Delludanska, toddýsgildi og verkamenn moldugir frá verki sínu. Mót, átök og samblöndun menningar í Reykjavík 1900-1920

Þriðjudaginn 3. apríl flytur Íris Ellenberger hádegisfyrirlesturinn „Delludanska, toddýsgildi og verkamenn moldugir frá verki sínu. Mót, átök og samblöndun menningar í Reykjavík 1900-1920”. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er sjötta og næstsíðasta erindi þessa vormisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Að undanförnu hafa íslenskir fræðimenn skoðað hvernig sá hreyfanleiki sem einkenndi heiminn, og þá sérstaklega Evrópu og Ameríku, á síðustu áratugum 20. aldar og fram að fyrri heimsstyrjöld, náði einnig til Íslands. Hann lýsti sér ekki aðeins í auknum komum útlendinga til landsins, bæði til varanlegrar og tímabundinnar dvalar, heldur einnig í upplausn þess þjóðfélagsskipulags sem áður hafði bundið fólk við sveitir landsins. Fjöldi Reykvíkinga margfaldaðist á fyrstu áratugum 20. aldar. Hið nýaðflutta fólk var aðallega innlent en einnig setti erlent fólk sterkan svip á bæinn, bæði fólk sem var búsett í bænum til lengri eða skemmri tíma sem og fólk sem aðeins átti leið hjá, t.d. erlendir sjómenn, fólk á farskipum, sérfræðingar sem komu til að sinna ákveðnum verkefnum o.fl. Fyrir var borgarastétt sem hafði sterk tengsl við Danmörku og mætti kalla dansk-íslenska.

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um þá þvermenningarlegu yfirfærslu sem átti sér stað þegar fólk af ólíkum uppruna og með ólíkan bakgrunn mættist, blandaði geði og tókst á í Reykjavík á fyrstu tveimur áratugum 20. aldar. Litið verður á bæinn sem snertiflöt (contact zone) þar sem þvermenningarleg yfirfærsla (transculturation) á sér stað og mótar menningu bæjarins. Sérstök áhersla verður lögð á að skoða hvernig stétt og félagsleg staða innan bæjarsamfélagsins mótar hvernig erlend menning og menningaráhrif voru notuð og túlkuð.

Íris Ellenberger er doktor í sagnfræði frá Háskóla Íslands og nýdoktor við Sagnfræðistofnun sama skóla. Sérsvið hennar eru saga fólksflutninga, þvermenningarleg saga og saga kynverundar. Núverandi rannsóknarverkefni hennar, sem erindið fjallar um, heitir „Mót innlendrar og erlendrar menningar í Reykjavík 1890-1920” og er styrkt af Nýliðunarsjóði Háskóla Íslands.


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Kristínu Svövu Tómasdóttur, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið kristinsvava@gmail.com

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins haust 2018

18. september
Valur Gunnarsson: Á milli Hitlers og Stalín: Mestu hörmungartímar Norðurlanda á 20. öld

2. október
Guðmundur Jónsson: Refsing guðs, náttúruhamfarir eða samfélagsmein? Um orsakir hungursneyða á Íslandi

16. október
Erla Dóris Halldórsdóttir og Magnús Gottfreðsson: Áhrif spænsku veikinnar á barnshafandi konur á Íslandi árið 1918

30. október
Atli Antonsson: Menningarsaga eldgosa á Íslandi frá Skaftáreldum til nútímans

13. nóvember
Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir: Mesti óvinur mannkyns, hórsótt eða eyðni? Orðræður um HIV á Íslandi

27. nóvember
Vilborg Auður Ísleifsdóttir: Hungursneyðir og hremmingar á 16. öld

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com