Latest entries

þriðjudagur, 19. mar 2019

Öndvegisverkefnið Heimsins Hnoss býður til tveggja viðburða

Öndvegisverkefnið Heimsins Hnoss býður til tveggja viðburða með Jane Bennett, prófessor við John Hopkins University 21. og 22. mars næstkomandi.

Jane Bennett er Andrew W. Mellon Prófessor í Hugvísindum við Johns Hopkins háskólann Í Baltimore. Rannsóknarsvið hennar nær til kennilegrar stjórnmálafræði, vistfræðilegrar heimspeki, pólitískrar hugsunar í Bandaríkjunum, pólitískrar mælskufræði og samtíma kenninga í félagsvísindum. Hún hefur vakið töluverða athygli fyrir skrif sín, einkum um "líflega efnishyggju" (e. vibrant materialism) þar sem hún lýsir líflegum tengslanetum sem virka bæði óháð og ásamt hinu mennska. Jane Bennett hefur skipað sér í lið þeirra sem kallað hafa eftir aukinni athygli til handa hlutum, áhrifamætti þeirra og stöðu innan hins mennska. Þannig hefur hún með fræðimennsku sinni haft áhrif á orðræðuna innan fjölmargra greina hug- og félagsvísinda.

"Out for a Walk"
Opinn fyrirlestur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, 21. mars 2019, kl. 15:30
Jane Bennett, prófessor við John Hopkins University

Fyrirlesturinn hefst á tveimur ferðum, önnur ferðin er farin af Henry Thoreau þar sem hann er umlukinn gróðri, hin ferðin er pennastrik sem nýtir sér mannshöndina á vegferð sinni að verða krot. Þessar tvær ferðir varpa ljósi djúptækar flækjur og tengingar sem eru til staðar milli mennskra og ómennskra gjörninga, sem jafnframt þyrftu sinn eigin orðaforða sem viðurkennir tilvist á atbeini sem á sér stað milli tegunda. Hvernig á annars að tala um slíka samvinnu sem viðurkennir hlut þess ómennska? Hvaða málfræði, setningafræði og munnlegu tjáningar eru best til þess fallin að gangast við áhrifum dýra, gróðurs, steina og andrúmsloftsins á hvert annað. Hvernig er hægt að finna tungutak sem er næmt fyrir því að skrif manneskjunnar eru í raun aðeins möguleg vegna ómennskrar áletrunar.

Things adrift - Material Archives / Hlutir á reki - söfn efnismenningar
Opin málstofa í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, 22. mars 2019, kl. 10:00 - 11:35 og kl. 13:30 - 15:00. Sérstakir gestir málstofunnar: Jane Bennett, prófessor við John Hopkins University Bjørnar Olsen, prófessor við University of Tromsø

Á málstofunni munu sex fræðimenn, sem tengjast öndvegisverkefninu á mismunandi hátt, ræða efnismenningarfræði frá mismunandi sjónarhornum. Á fyrri hluta málstofunnar verður fjallað um það hvernig hlutir birtast okkur í uppskrifabókum dánar- og skiptabúa á 19. og öndverðri 20. öld, en á síðari hluti málstofunar verða kennileg efnismenningarfræði rædd.

Dagskrá:

10:00     Kristján Mímisson opnar málstofuna

10:05     Ágústa Edwald: Fragmenting unity: Archaeological probate inventories

10:35     Finnur Jónsson: The Material Possessions of Paupers - According to Poor Council Assessments

11:05     Anna Heiða Baldursdóttir: Things and Laborers

11:35 - 13:30      Hádegishlé

13:30     Bjørnar Olsen: In Praise of Collecting: an unsustainable perspective

14:00     Gavin Lucas: Words and Things

14:30     Þóra Pétursdóttir: Fragments to Form

15:00     Málstofu lýkur

mánudagur, 18. mar 2019

Hádegisfyrirlestur 26. mars: „Með kærleiksmeiningar vinmælum“: Sáttanefndir og lausn deilumála á 19. öld

Þriðjudaginn 26. mars flytur Vilhelm Vilhelmsson hádegisfyrirlesturinn „Með kærleiksmeiningar vinmælum“: Sáttanefndir og lausn deilumála á 19. öld. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur hádegisfyrirlesturinn í samvinnu við Þjóðminjasafnið en hann er hluti af fyrirlestraröð félagsins, sem þetta misserið hefur yfirskriftina „Saga réttarfars og refsinga“.

Árið 1798 voru sáttanefndir settar á fót á Íslandi með konunglegri tilskipun. Þær störfuðu í svo til óbreyttri mynd fram á fjórða áratug 20. aldar, þegar lög um störf þeirra tóku umtalsverðum breytingum. Í kjölfarið dró töluvert úr umsvifum þeirra en þær voru lagðar niður með lögum árið 1981.

Hlutverk sáttanefnda var að miðla málum og leita sátta í margvíslegum misklíðarefnum manna á milli og létta þannig undir störfum héraðsdómara og stuðla að friði í nærsamfélaginu. Um leið var þeim ætlað að auðvelda fátækum almenningi að leita réttar síns án þess að leggja í kostnaðarsaman og tímafrekan málarekstur fyrir dómi.

Þessari nýjung í réttarfari landsmanna var almennt vel tekið og skrifaði Grímur Jónsson amtmaður Norður- og austuramts árið 1831 að nefndirnar hafi verið einhver mesta réttarbót á Íslandi í seinni tíð. Þrátt fyrir það hafa sagnfræðingar þeim litla athygli veitt og fáir hafa nýtt sér bækur sáttanefnda sem heimildir um daglegt líf á 19. öld.

Í erindi Vilhelms verður fjallað um tildrög þess að sáttanefndir voru settar á fót og hvaða hlutverki þær þjónuðu í nærsamfélaginu. Einnig verður fjallað um sáttanefndarbækur sem heimildir fyrir sagnfræðinga og valin dæmi tekin um notkunarmöguleika þeirra.

Vilhelm Vilhelmsson er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra og með doktorspróf í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Sérsvið hans er félagssaga 18. og 19. aldar. Hann hefur gefið út fjölda greina um vesturferðir, heimildavanda vitnisburða fyrir dómi, vistarband og margt fleira. Bók hans, Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld (2017), var tilefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og Viðurkenningar Hagþenkis. Hann bjó einnig til útgáfu bókina Sakir útkljáðar: Sáttabók Miðfjarðarumdæmis í Húnavatnssýslu 1799-1865 (2017) og ritaði inngang.

fimmtudagur, 14. mar 2019

Aðalfundur Sagnfræðingafélagsins 27. mars

Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands 2019 verður haldinn miðvikudagskvöldið 27. mars í fyrirlestrasal Þjóðskjalasafns Íslands, Laugavegi 162 (3. hæð, gengið inn úr portinu). Aðalfundarstörf hefjast kl. 20:00, sjá nánari dagskrá að neðan. Að þeim loknum, kl. 20:45, munu tveir sagnfræðingar kynna nýjar rannsóknir í faginu.

Björn Reynir Halldórsson kynnir doktorsrannsókn sína, Kvennalistinn. Feminísk ögrun við íslensk stjórnmál, en fyrir hana hlaut hann nýlega styrk úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs. Rannsóknin leggur sérstaka áherslu á samspil jafnréttisstefnu Kvennalistans og femínisma við hugmyndir hans um alþjóða-, friðar- og utanríkismál, lýðræði, efnahagsmál og umhverfismál.

Þá mun Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, flytja erindið Akademía verður til! Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking. Um er að ræða öndvegisverkefni sem samanstendur af framlagi fræðimanna á sviði sagnfræði, fornleifafræði, mannfræði og safnafræða og hlaut styrk frá Rannsóknarsjóði Íslands (RANNÍS) á liðnu ári.

Dagskrá aðalfundarins er sem hér segir:
1. Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar.
2. Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar.
3. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
4. Kjör stjórnar. Kjör tveggja endurskoðenda reikninga.
5. Önnur mál.

Eftir fundinn verður boðið upp á léttar veitingar.

mánudagur, 11. mar 2019

Hlaðvarp: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir: Galdra- og brennudómar. Réttarfar Íslendinga á 17. öld

fimmtudagur, 7. mar 2019

Viðurkenning Hagþenkis 2019

Viðurkenning Hagþenkis var veitt 6. mars í Þjóðarbókhlöðunni við hátíðlega athöfn, hana hlaut Kristín Svava Tómasdóttir fyrir ritið, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar, sem Sögufélag gaf út. Í ályktunarorðum Viðurkenningaráðsins sagði um ritið: "Brautryðjandaverk um sögu kláms og kynverundar á Íslandi sem byggir á afhjúpandi rannsóknum á vandmeðförnu efni."

Sagnfræðingafélagið óskar Kristínu innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Brot úr þakkarræðu Kristínar: „Að skilgreina klám snýst um að draga mörkin. Bandaríski bókmenntafræðingurinn Walter Kendrick skrifaði að saga kláms á 20. öld hefði verið „yfirþyrmandi og vonlaus viðleitni við að sortera verðmætin frá ruslinu“. Ruslið – það var það sem lenti í klámflokknum. Eitt af því sem er svo heillandi við klámhugtakið og sögu þess er hversu sveigjanlegt það er, en þó alltaf svo neikvætt. Stund klámsins lýkur á orðunum „það eina sem fólk virtist almennt vera sammála um var að klám væri vont“; ég fór fram og til baka með þessi lokaorð, fannst þau ekki alveg nógu fjörleg, en á endanum var ekkert sem lýsti efni bókarinnar betur. Að draga mörkin milli kláms og ekkikláms er að draga mörkin milli fegurðar og ljótleika, smekks og smekkleysis, ástar og ofbeldis, hreinleika og sóðaskapar, fágunar og grófleika. Það er hátt í áratugur síðan ég fór fyrst að hugsa um sögu kláms en fyrir mér er þetta forsmáða og gildishlaðna fyrirbæri ennþá algjörlega ómótstæðilegt sagnfræðilegt viðfangsefni.“

þriðjudagur, 5. mar 2019

Hádegisfyrirlestur 12. mars: Byggingarsaga Hegningarhússins við Skólavörðustíg í ljósi betrunarheimspeki 19. aldar

Þriðjudaginn 12. mars flytur Hjörleifur Stefánsson hádegisfyrirlesturinn „Byggingarsaga Hegningarhússins við Skólavörðustíg í ljósi betrunarheimspeki 19. aldar“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur hádegisfyrirlesturinn í samvinnu við Þjóðminjasafnið en hann er hluti af fyrirlestraröð félagsins, sem þetta misserið hefur yfirskriftina „Saga réttarfars og refsinga“.

Í upphafi 19. aldar varð alger bylting í öllu sem laut að fangelsismálum og refsingum á vesturlöndum. Heimspekingar og samfélagsfrömuðir tóku að ræða fangelsismál og mannúðarsjónarmið settu mark sitt á þá stefnumótun sem átti sér stað. Athyglin beindist í vaxandi mæli að því hvernig haga mætti fangelsisbyggingum og fangelsisvistinni þannig að fangarnir yrðu mótaðir á jákvæðan hátt til að verða betri menn. Betrun varð mikilvægari en refsing. Í byggingarsögu Hegningarhússins birtast byltingarkenndar samfélagsbreytingar utan úr hinum stóra heimi sem teygðu anga sína hingað til lands þótt aðstæður yllu því að hér hlutu þær að verða með sérstökum hætti.

Hjörleifur Stefánsson er menntaður sem arkitekt en hefur að mestu starfað að varðveislu og rannsóknum á íslenskum byggingararfi frá því um 1975. Hann hefur skrifað bækur um íslenska byggingarsögu og fjallað um siðfræði byggingarlistar.

mánudagur, 4. mar 2019

Hugvísindaþing 2019

Hugvísindaþing er árviss ráðstefna Hugvísindastofnunar. Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs, setur þingið kl. 12.00 í Hátíðasal Háskólans í Aðalbyggingu, föstudaginn 8. mars. Hátíðarfyrirlesari verður Stephen Greenblatt, bókmenntafræðingur, einn af upphafsmönnum hinnar svokölluðu nýsöguhyggju (e. New Historicism) og handhafi Holberg-verðlaunanna 2016.

Það er ekki þverfótað fyrir spennandi umfjöllunum á sviði sagnfræði sem vert er að skoða. Alls eru 150 málstofur og fyrirlestrar í boði á tveimur dögum en dagskrána má sjá hér. 

Föstudaginn 8. mars kl. 13.15-14.45
Viðtakendur eða virkir gerendur? Um atbeina almennings á Íslandi á 18. og 19. öld – Oddi 201. Fyrirlesarar eru Vilhelm Vilhelmsson, Hrafnkell Lárusson og Margrét Gunnarsdóttir.

Föstudaginn 8. mars kl. 15.15-17.15
Listakonur, húsmæður, netagerðakonur og kvenlíkaminn – sýnishorn úr rannsókninni „Í kjölfar kosningaréttar“ - Oddi 201. Fyrirlesarar eru Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Erla Hulda Halldórsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir.
Samskipti Íslendinga við útlendinga – ávinningur og virðisauki - Oddi 206. Fyrirlesarar eru Auður Hauksdóttir og Oddný G. Sverrisdóttir.

Laugardaginn 9. mars kl. 10.30-12.00
Tímanna tákn: Almanök og efnismenning á 19. öld – Árnagarður 201. Fyrirlesarar eru Davíð Ólafsson, Kristján Mímisson og Andri M. Kristjánsson.
Hver var þessi Kristur? Sagnfræðilegar, heimspekilegar og guðfræðilegar nálganir – Árnagarður 310. Fyrirlesarar eru Sverrir Jakobsson, Rúnar M. Þorsteinsson og Arnfríður Guðmundsdóttir.
Nýlenduminningar Atlantshafssvæðisins – Árnagarður 311. Fyrirlesarar eru Toby Erik Wikström, Ólöf Nordal og Ann-Sofie N. Gremaud.

Laugardaginn 9. mars kl. 13.00-14.30
Kynsjúkdómar, kynverund og klám – Árnagarður 201. Fyrirlesarar eru Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, Íris Ellenberger, Þorsteinn Vilhjálmsson og Kristín Svava Tómasdóttir.
Fjölskyldan og heimilisbúskapur í upphafi 18. aldar – Árnagarður 311. Fyrirlesarar eru Óskar Guðlaugsson, Guðmundur Jónsson, Árni Daníel Júlíusson, Ingibjörg Jónsdóttir, Ólöf Garðarsdóttir og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir.

Laugardaginn 9. mars kl. 15.00-16.30
Frá töfrum og trú til vísinda. Fæðingarhjálp og kvennamenning – Árnagarður 310. Fyrirlesarar eru Erla Dóris Halldórsdóttir, Gísli Sigurðsson og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.
Stefndi Ísland til andskotans? – Árnagarður 311. Fyrirlesarar eru Orri Vésteinsson, Árni Daníel Júlíusson og Axel Kristinsson.

þriðjudagur, 26. feb 2019

Hlaðvarp/myndband: Tryggvi Rúnar Brynjarsson: Einfaldur þolandi flókins og forns dómskerfis? Arfleifð skammar og útþynning ábyrgðar við úrlausn Guðmundar- og Geirfinnsmála í samtímanum

Hlaðvarp/myndband: Þórunn Guðmundsdóttir: Voveiflegur dauðdagi Kristínar Sigurðardóttur vinnukonu árið 1756

fimmtudagur, 21. feb 2019

Hlaðvarp/myndband: Arnór Gunnar Gunnarsson: Scalia, Ginsburg og Keflavíkurstöðin. Rainbow Navigation-málið fyrir bandarískum dómstólum 1985-1991


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Kristínu Svövu Tómasdóttur, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið kristinsvava@gmail.com

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins vor 2019

15. janúar
Arnór Gunnar Gunnarsson, Scalia, Ginsburg og Keflavíkurstöðin. Rainbow Navigation-málið fyrir bandarískum dómstólum 1985-1991

29. janúar
Þórunn Guðmundsdóttir, Voveiflegur dauðdagi Kristínar Sigurðardóttur vinnukonu árið 1756

12. febrúar
Tryggvi Rúnar Brynjarsson, Einfaldur þolandi flókins og forns dómskerfis? Arfleifð skammar og útþynning ábyrgðar við úrlausn Guðmundar- og Geirfinnsmála í samtímanum

26. febrúar
Ólína Þorvarðardóttir, Galdra- og brennudómar. Réttarfar Íslendinga á 17. öld

12. mars
Hjörleifur Stefánsson, Byggingarsaga Hegningarhússins við Skólavörðustíg í ljósi betrunarheimspeki 19. aldar

26. mars
Vilhelm Vilhelmsson, „Með kærleiksmeiningar vinmælum“. Sáttanefndir og lausn deilumála á 19. öld

9. apríl
Helga Kress, Kona tekin af lífi. Lesið í dómsskjöl Natansmála og dóminn yfir Agnesi í bókmenntum, samfélagi og sögu

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefjast klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com