Latest entries

miðvikudagur, 27. nóv 2019

Síðasti hádegisfyrirlestur haustsins: Kirkjuvaldsstefnan og trúarleg orðræða á þjóðveldisöld

Sjöundi og síðasti hádegisfyrirlestur haustsins verður haldinn þriðjudaginn 3. desember. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Yfirskrift fyrirlestra haustsins er Trú og Samfélag.

Haraldur Hreinsson flytur fyrirlestur um upphaf kirkjuvaldsstefnunnar eða hinnar gregoríönsku siðbótar á Íslandi með hliðsjón af aðferðum menningarsögu.

Jafnan er litið svo á að Þorlákur Þórhallsson, biskup í Skálholti 1178-1193, hafi verið fyrsti fulltrúi kirkjuvaldsstefnunnar eða hinnar gregoríönsku siðbótar á Íslandi. Þó ekki sé vitað með fullri vissu í hverju nákvæmlega kröfur hans fólust, þá má ljóst vera að hann setti ýmis mál á dagskrá sem komu róti á þá kirkjuskipan sem fyrir var í landinu og stuðluðu að framgangi kirkjuvaldsstefnunnar. Kröfur Þorláks komu þó ekki fram í tómarúmi. Í trúarlegum textum á borð við stólræður og helgisögur sem varðveittir eru í handritum frá því um miðja 12. öld er að finna trúarlega orðræðu í samhljómi við þær kirkjupólitísku kröfur sem gerðar voru af forvígismönnum kirkjuvaldsstefnunnar. Fjallað verður um nokkur slík orðræðustef og athygli beint að samspili þeirra við kirkjupólitíska þróun tímabilsins. Því verður haldið fram að til að greina upphaf kirkjuvaldsstefnunnar sé ekki nóg að notast við hefðbundnar aðferðir persónu- og stofnanasögu heldur sé einnig æskilegt að grípa til aðferða menningarsögu. Af slíkum sjónarhóli má ljóst vera að jarðvegurinn fyrir framgang kirkjuvaldsstefnunnar var lagður strax á fyrri hluta 12. aldar með tilkomu trúarlegra texta á móðurmálinu uppfullum af eldfimum félagspólitískum hugmyndum.

Haraldur Hreinsson hefur lokið prófum í guðfræði frá Háskóla Íslands (2008 og 2009) og meistaraprófi frá Harvard háskóla (2011). Fyrr á þessu ári lauk hann doktorsprófi í sagnfræði frá háskólanum í Münster í Þýskalandi en þar starfaði hann við rannsóknarstofnunina Exzellenzcluster: Religion und Politik. Um þessar mundir vinnur hann að rannsókn styrktri af RANNÍs.

laugardagur, 23. nóv 2019

Lektorsstaða og nýdoktorastyrkir

Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands hefur auglýst stöðu lektors í sagnfræði lausa til umsóknar. Í auglýsingunni kemur fram að lektorsstaðan snýr að kennslu og rannsóknum á sviði erlendrar sögu síðari alda og kennslu í Hagnýtri menningarmiðlun. Umsóknarfrestur er til 6. janúar.

Undir lok síðasta mánaðar auglýsti Háskóli Íslands einnig allt að átta nýdoktorsstyrki til handa þeim sem lokið hafa doktorsprófi einhvern tímann á síðustu sjö árum (frá því í janúar 2014). Umsóknarfrestur um styrkina er til 2. desember.

mánudagur, 11. nóv 2019

Sjötti hádegisfyrirlestur haustsins: Álfatrú, bannhelgi og yfirnáttúra í náttúru

Sjötti fyrirlestur haustsins verður haldinn þriðjudaginn 19. nóvember. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Yfirskrift fyrirlestra haustsins er Trú og Samfélag.

Ýmsir bannhelgir staðir hér á landi hafa lítil sem mikil áhrif á umhverfi og landslag sem og umgengni mannsins við þessa vissu staði í náttúrunni. Í erindinu mun þjóðfræðingurinn Bryndís Björgvinsdóttir tengja íslenska hjátrú á álfa og bannhelgi við náttúruvernd, en dæmi er um að hjátrú á vissa bletti leiði beint eða óbeint til þess að við þessum stöðum er ekki hróflað.

Hinn forni átrúnaður á heilagleika landsins hefur verið nokkuð áberandi í fjölmiðlun nýlega, en til að mynda hefur hjátrú á Nýja–Sjálandi leitt til þess að vissir staðir þar á landi njóta nú sömu friðhelgi og mannfólk. Í erindinu mun Bryndís segja frá nokkrum stöðum sem hún hefur rannsakað þar sem bannhelgi ríkir, segja frá samhengi hennar og áhrifum. 

fimmtudagur, 31. okt 2019

Fimmti hádegisfyrirlestur haustsins: Var Tyrkjaránið trúarlegur atburður?

Fimmti fyrirlestur haustsins verður haldinn þriðjudaginn 5. nóvember. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Yfirskrift fyrirlestra haustsins er Trú og Samfélag.

Þorsteinn Helgason flytur fyrirlesturinn Var Tyrkjaránið trúarlegur atburður?

Í Tyrkjaráninu 1627 stóðu Íslendingar í fyrsta og eina skipti frammi fyrir ókunnum trúar- og menningarheimi utan kristninnar. Fjögur hundruð manns reyndu þetta á eigin skinni og fjöldi fólks með óbeinum hætti. Atburðirnir vörðuðu alla þjóðina og andleg og veraldleg yfirvöld létu til sín taka.

En hvað var trúarlegt við Tyrkjaránið þegar betur er að gáð? Var herferð af þessu tagi trúarleg, jafnvel heilagt stríð? Var þrælahald sérstaklega tengt íslömskum sið? Hvaða skilning – trúarlegan og veraldlegan – lögðu Íslendingar í herferðina og þá siði og aðstæður sem mættu þeim í Norður-Afríku?

Í þjóðsögunum urðu hellar, skriður, kóngulær og gamlar völvur til bjargar gegn ránsmönnum á Austfjörðum en í herleiðingunni í Algeirsborg bað Ólafur Egilsson „almáttugan guð um góða þolinmæði“ og ekki vanþörf á „því að stór og langvarandi sorg færir sínum herra engin laun utan þau sem vond eru.“ Sum þeirra herleiddu óttuðust þó ekki hinn „mikla sjökórónaða dreka Mahomets“ og urðu eftir í hinni jarðnesku paradís.

Þorsteinn Helgason er dósent emiritus í sagnfræði og sögukennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

þriðjudagur, 29. okt 2019

Gunnar Karlsson látinn

Gunnar Karlsson sagnfræðingur er látinn, áttatíu ára að aldri. Gunnar hafði mikil áhrif á þróun sagnfræðinnar sem fræðigreinar hérlendis eftir að hann tók til starfa við Háskóla Íslands og var mikilvirkur rithöfundur.

Gunnar lauk kandídatsprófi frá Háskóla Íslands 1970 og doktorsprófi frá sama skóla 1978. Þá þegar var hann tekinn til við kennslu, fyrst við University College í London árin 1974 til 1976 og við Háskóla Íslands frá 1976. Gunnar varð prófessor 1980 og gegndi þeirri stöðu til 2009.

Fjöldi bóka liggur eftir Gunnar. Þeirra á meðal má nefna doktorsritgerð hans Frelsisbaráttu Suður-Þingeyinga og Jón á Gautlöndum en líka Goðmenningu: stöðu og áhrif goðorðsmanna í þjóðveldi Íslands, Ástarsögu Íslendinga að fornu og hluta af bókum og ritröðum eftir marga höfunda, á borð við Sögu Íslands. Síðustu árin vann Gunnar að ritun bókaflokks um miðaldasögu á Íslandi og höfðu þrjú bindi komið út þegar hann lést.

Um rannsóknir Gunnars má meðal annars lesa í nýlegri grein á Vísindavefnum.

Gunnar fæddist í Efstadal í Laugardal 26. september 1939, sonur Karls Jónssonar og Sigþrúðar Guðnadóttur. Eftirlifandi kona hans er Silja Aðalsteinsdóttir. Gunnar eignaðist þrjár dætur og sjö barnabörn.

fimmtudagur, 24. okt 2019

Nýjustu fyrirlestrarnir komnir á vefinn

Haustfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands er rétt rúmlega hálfnuð, fjórir fyrirlestrar af sjö hafa þegar verið haldnir. Fyrirlestrarnir hafa verið vel sóttir og áhugaverðir. Fyrir þau sem misstu af fyrirlestrunum, eða vilja kynna sér efni þeirra betur bendum við á að upptökur af þeim er að finna á Youtube-rás félagsins. Er það vel þess virði að haka við áskrift á þeirri rás til að fá tilkynningar þegar nýjar upptökur birtast þar.

þriðjudagur, 15. okt 2019

Fjórði hádegisfyrirlestur haustsins: Jesús Kristur í ljósi kenninga um menningarlegt minni

Fjórði fyrirlestur haustsins verður haldinn þriðjudaginn 22. október. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Yfirskrift fyrirlestra haustsins er Trú og Samfélag.

Sverrir Jakobsson flytur fyrirlesturinn Jesús Kristur í ljósi kenninga um menningarlegt minni.

Í þessum fyrirlestri verður þróunarsaga hugmynda um Jesúm Krist greind út frá kenningum um menningarlegt minni. Af hverju er myndin af Kristi mismunandi í ólíkum heimildum sem urðu til um hann strax á fyrstu öld? Hvernig þróuðust hugmyndir um hann í framhaldinu og af hverju? Að hvaða leyti getur textafræðin varpað ljósi á þróunarsögu hugmyndarinnar um Krist? Rætt verður hvernig hugmyndir um Krist tóku á sig staðlaða mynd og sum rit um ævi hans hlutu almenna viðurkenningu en öðrum hafnað. Eftir að kristni hlaut opinbera stöðu innan Rómarveldis breyttist eðli trúarinnar og ríkari krafa var gerð um staðlaða trúarjátningu og samræmingu hugmynda um Krist. Hófst þá klofningur kristinna manna í rétttrúaða og villutrúarmenn sem síðan hefur mótað sögu þeirra.

Sverrir er prófessor í miðaldasögu við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Eftir Sverri liggja ýmsar bækur, þar á meðal Kristur – saga hugmyndar, sem kom út á síðasta ári.

Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og aðgangur er ókeypis.

þriðjudagur, 1. okt 2019

Þriðji hádegisfyrirlestur haustsins: „Alt það, sem við ekkert hefir að keppa, dofnar og deyr“

Þriðji fyrirlestur haustsins verður haldinn þriðjudaginn 8. október. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Yfirskrift fyrirlestra haustsins er Trú og Samfélag. Rakel Edda Guðmundsdóttir mun flytja erindið „Alt það, sem við ekkert hefir að keppa, dofnar og deyr“. Blaðaumræður um aðskilnað ríkis og kirkju, guðfræði og trú í kringum aldamótin 1900.

Í erindinu er sjónum beint að orðræðu, stíl og helstu röksemdum sem beitt var í skoðanaskiptum um aðskilnað ríkis og kirkju, skipan kirkjumála almennt og guðfræði í íslenskum blöðum á árunum í kringum aldamótin 1900.

Umræðan var umfangsmikil og ástríðufull, á köflum heiftúðug. Álitaefnin sneru að eðli og framtíð íslensku kirkjunnar og forsendum trúarlífs í landinu.
Deilt var um hagnýt sjónarmið og ídealísk þegar kom að hlutverki guðfræði og kirkju í samfélaginu. Heilindi kirkjunnar voru mörgum hugleikin og töldu sumir að þau yrðu aðeins tryggð í frjálsri kirkju. Á tímabili töldu margir, þar með talinn biskupinn yfir Íslandi, að einungis væri tímaspursmál hvenær til aðskilnaðar ríkis og kirkju kæmi, en þingsályktunartillaga um aðskilnað hlaut samþykki neðri deildar Alþingis 1909.

Aðrir vöruðu við siðferðilegri upplausn ef ríkið missti kirkjuna frá sér, og enn aðrir óttuðust trúarlegt ofstæki ef ríkið tapaði taumhaldinu á kirkjunni.
Sterkt ákall var uppi um frjálslyndari og nútímalegri guðfræði, jafnvel „kreddu“- og játningalausa kirkju. Sumum þóttu slíkar hugmyndir jaðra við guðlast og vega að kjarna trúarbragðanna. Á tímabilinu kom jafnframt upp á yfirborðið eindregin gagnrýni á trú og kirkju, í fáeinum tilvikum, hrein guðsafneitun eða trúleysi. Opinber umræða um slíkar skoðanir var næsta óhugsandi fyrr en með trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar 1874.

Meðal spurninga sem velt er upp í erindinu, eru: Úr hvaða jarðvegi spratt þessi umræða? Hvað varð um hana? Hvað skildi hún eftir sig?

Rakel Edda er með BA-próf í sagnfræði og MA-próf í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Hún stundar nú MA-nám í sagnfræði við Háskóla Íslands og hyggur á útskrift í febrúar. Hún er jafnframt sjálfstætt starfandi tónlistarmaður og starfar hjá Ríkisútvarpinu, Rás 1. Erindið byggir á efni meistararitgerðar hennar sem hún mun ljúka á næstunni.

Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og aðgangur er ókeypis.

þriðjudagur, 17. sep 2019

Annar hádegisfyrirlestur haustsins: „Jarðsett verður í heimagrafreit“

Annar fyrirlestur haustsins verður haldinn þriðjudaginn 24. september. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Hjalti Hugason mun flytja erindið „Jarðsett verður í heimagrafreit“. Um útfararsiði og samfélagsbreytingar.

Hjalti fjallar um breytingar á útfararsiðum landsmanna nú á dögum og á fyrri hluta 20. aldar og þá einkum greftranir í heima-/heimilis-grafreitum. Útfararsiðir eru að hans mati áhugaverðir þar sem þar fléttast saman ýmis trúarleg og samfélagleg sjónarmið.

Hjalti Hugason lauk doktorsprófi í kirkjusögu frá Uppsala-háskóla og hefur síðan starfað við Kennaraháskóla Íslands og síðar Háskóla Íslands. Hann er nú prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideil. Í rannsóknum sínum hefur Hjalti einkum lagt stund á íslenska kirkjusögu og trúarbragðarétt. Upp á síðkastið hefur hann aðallega birt greinar um siðaskiptin og nútímakirkjusögu.

Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og aðgangur er ókeypis.

miðvikudagur, 11. sep 2019

Verndun menningarminja í þéttbýli

Sex fræðimenn fjalla um reynslu af fornleifarannsóknum í þéttbýli á málþingi sem Íslandsdeild ICOMOS efnir til. Umfjöllunarefnið er verndun menningarminja í þéttbýli. Málþingið er haldið í Norræna húsinu miðvikudaginn 18. september og hefst klukkan eitt.

„Fornleifarannsóknir í þéttbýli eru í flestum tilvikum vegna framkvæmda. Framkvæmdarannsóknir vekja gjarnan mikla athygli og í tengslum við þær vakna ýmis álitamál er snerta lagaumhverfi og framkvæmd slíkra rannsókna,“ segir í tilkynningu frá Íslandsdeild ICOMOS. „Á málþinginu verða kynntir sáttmálar og samþykktir ICOMOS sem snerta verndun minja í þéttbýli. Í sex erindum verður fjallað um ýmsa þætti sem fengist hefur reynsla af í framkvæmdarannsóknum, sem hafa aðallega verið í Reykjavík. Þar hafa á undanförnum árum farið fram umfangsmiklar framkvæmdarannsóknir sem  varpa nýju ljósi á upphaf og þróun byggðar í Reykjavík.“

Dagskrá málþingsins


This page

Um félagið

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag íslenskra sagnfræðinga. Sem slíkt er það vettvangur fyrir umræður um sérfagleg málefni, en jafnframt vill það stuðla að þverfaglegum rökræðum um vísindi og fræði almennt. Félagið stendur reglulega fyrir opnum félagsfundum, ráðstefnum, og ýmsum fagtengdum fundum.

Póstfang félagsins er:
Sagnfræðingafélag Íslands
ReykjavíkurAkademían
Þórunnartún 2
IS-105 Reykjavík

Tölvupóstfang félagsins er: sagnfraedingafelagid@gmail.com

Einnig má hafa samband við Markús Þ. Þórhallsson, formann Sagnfræðingafélagsins, í gegnum tölvupóstfangið mth39@hi.is

About the Association

The Icelandic Association of Historians can be contacted via email: sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Search this page


Gammabrekka

Við minnum á póstlista sagnfræðinga. Þar fara daglega fram líflegar umræður um spennandi málefni.

Skráðu þig á Gammabrekku.

Random image

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins haust 2019

Miðvikudagur 11. september

Helgi Þorláksson: Þið munið hann Þorlák. Skálholt á kaþólskri tíð og lútherskri.

Þriðjudagur 24. september

Hjalti Hugason: „Jarðsett verður í heimagrafreit“. Um útfararsiði og samfélagsbreytingar.

Þriðjudagur 8. október

Rakel Edda Guðmundsdóttir: „Alt það, sem við ekkert hefir að keppa, dofnar og deyr“. Umræður og átök um guðfræði og trú, þjóðkirkju og fríkirkju á síðum íslenskra dagblaða í kringum aldamótin 1900.

Þriðjudagur 22. október

Sverrir Jakobsson: Jesús Kristur í ljósi kenninga um menningarlegt minni.

Þriðjudagur 5. nóvember

Þorsteinn Helgason: Var Tyrkjaránið trúarlegur viðburður?

Þriðjudagur 19. nóvember

Bryndís Björgvinsdóttir: Bannhelgi og náttúra: Trú á stokka og steina.

Þriðjudagur 3. desember

Haraldur Hreinsson: Kirkjuvaldsstefnan og trúarleg orðræða á þjóðveldisöld

Allir fyrirlestrar eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefjast kl. 12:05.


RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.

Fótur

Sagnfræðingafélag Íslands - Sími: 661-2671- Tölvupóstur: sagnfraedingafelagid@gmail.com